Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 21:05:43 (6936)

2000-05-04 21:05:43# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[21:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér er verið að ræða frv. til laga um breytingar á tvennum lögum, annars vegar lögum nr. 112 og hins vegar nr. 113. Bæði eru þau frá árinu 1984 og varða atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, vélfræðinga o.fl.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram og vegna þess að ég átti þess ekki kost að vera við umræðuna um það frv. sem upphafinu veldur, þ.e. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna þá tel ég nauðsynlegt að geta þess að frv. sem ég lagði fram um atvinnuréttindi var samið að höfðu miklu samráði við fulltrúa sjómannasamtakanna eins og alltaf er leitast við að gera. Það er alveg ljóst að þær breytingar sem samgn. hefur lagt til að verði gerðar eru ekki í samræmi við óskir sjómannasamtakanna. Það liggur fyrir. En ég vildi að það kæmi fram af minni hálfu við umræðuna að frv. eins og ég lagði það fram var samkomulagsatriði milli þessara aðila. Um það var sátt milli ráðuneytisins og þeirra fulltrúa sem að málinu komu.

Hins vegar er einnig nauðsynlegt að taka það fram þannig að það valdi ekki neinum misskilningi að í því frv. sem ég hef lagt fram er verið að fjalla um réttindi er varða íslensk flutningaskip, farþegaskip, farþegabáta og skemmtibáta, ekki fiskiskip. Það er alveg nauðsynlegt til þess að menn haldi ekki að þar sé verið rýmka verulega heimildir til þess að stýra fiskibátunum. En væntanlega oftast og aðallega þegar verið er að leita eftir undanþágum fyrir vélstjóra og skipstjórnarmenn þá er það á fiskiskipaflotanum.

Hins vegar ef litið er til þeirra reglna sem verið er að innleiða hér, að hámarkið miðist við 75 brúttótonn, þá er um að ræða eitt skip sem er á bilinu 50--75 tonn. Í rauninni hefði eitt skip fallið undir þessi mörk sem frv. gerði ráð fyrir. Þess vegna, eins og fram kom hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, er í 11. gr. gert ráð fyrir að girða fyrir þá möguleika. Hins vegar er annað upp á teningnum þegar fiskiskipin eru annars vegar. Þá eru 39 skip á bilinu 50--75 tonn. Það er mjög nauðsynlegt að menn rugli þessu ekki saman. Hér er einungis um annan hópinn að ræða. Þetta vildi ég að kæmi fram af minni hálfu við þessa umræðu.