Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 21:32:53 (6943)

2000-05-04 21:32:53# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[21:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál mikið. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hér liggur fyrir um að málið fari til skoðunar í samgn. milli 2. og 3. umr. Ég tel að það sé mjög til sóma að taka málið aftur til skoðunar.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að svona málum þarf að lenda í sátt. Ég get auðvitað ekki og tel ekki eðlilegt að gera kröfu til þess að meiri hluti samgn. eða allur hópurinn hafi ekki skoðun á þeim frv. sem hún er með til umfjöllunar og leggi til brtt. Ég vil hins vegar ítreka þá ósk mína --- og er feginn að sú yfirlýsing hefur komið fram að málið fari aftur inn í nefndina --- að leitað verði samráðs um þær tillögur sem samgn. hefur látið frá sér fara og menn reyni enn á ný að finna þann sáttaflöt sem virtist þó vera uppi í málinu þegar það kom hér fyrst inn. Ég tel að í raun og veru ætti sá flötur að vera finnanlegur og að formaður samgn. muni með dugnaði sínum sjá til þess að lenda málinu farsællega.