2000-05-05 01:11:54# 125. lþ. 106.5 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[25:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þá er ég heyrði af hinum margrædda dómi Félagsdóms í fréttunum hugsaði ég: Nú koma forustumenn opinberra starfsmanna hlaupandi og heimta lagasetningu eins og þá sem við erum að ræða. Ég taldi að fólk mundi annaðhvort segja: Þeir sem sömdu fyrir þetta starfsfólk á barnaheimilinu í Árborg höfðu ekki umboð frá þessu fólki. Það fór í verkfallsaðgerðir þrátt fyrir kjarasamning þeirra sem sömdu í ,,umboði þess``, myndaði nýtt stéttarfélag. Hinn kosturinn var að sagt yrði: Ekkert er að marka undirskrift þeirra sem sömdu fyrir fólkið. Fólkið gat samið aftur á miðju samningstímabili.

Þetta gerðist ekki. Þeir komu ekki hlaupandi og því spyr ég hv. þm. sem jafnframt er forustumaður BSRB og þekkir því dálítið til samningsgerðar:

1. Hvers vegna heimtuðu forustumenn opinberra starfsmanna ekki skjóta lagasetningu til að bæta álit sitt og beyglaða ásýnd?

2. Höfðu þeir sem sömdu fyrir starfsmennina í Árborg ekki umboð? Var þetta nýtt stéttarfélag sem fór í verkfall? Er stéttarfélagakerfið að hrynja?

3. Er ekki neitt að marka undirskriftir forustumanna opinberra starfsmanna? Gilda kjarasamningar bara fyrir annan aðilann?

4. Er hugsanlegt að snúa þessu við? Getur ríkisstofnun farið í verkbann á miðju tímabilinu til að krefjast lækkaðra launa?