2000-05-05 01:13:35# 125. lþ. 106.5 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[25:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að ég hafi náð alveg öllum spurningunum en þeim er flestum fljótsvarað.

Í fyrsta lagi var ekki myndað nýtt stéttarfélag og almennt er það svo að undirskriftir aðila undir kjarasamninga gilda. Ég hef lýst þeirri afstöðu minni mjög afdráttarlaust að samningar eigi að gilda og menn eigi ekki að grípa til hópuppsagna í kjarabaráttunni þótt ég hafi jafnframt lýst því yfir að ábyrgðin sé beggja, atvinnurekandans og launamannsins þegar kemur að því að framfylgja kjarasamningum. Það hefur verið allur gangur á því af hálfu atvinnurekandans þannig að hann getur ekki firrt sig ábyrgð.

Varðandi fyrsta atriðið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, að hann hefði undrast að stéttarfélögin hlypu ekki til og heimtuðu lagasetningu til að bjarga beyglaðri ásýnd sinni, ég held að hann hafi orðað það þannig, þá lýsir það ákveðnu hugarfari: Ef mönnum finnst að sér vegið á einhvern hátt þá skal beita lögum, fésektum og fangelsun væntanlega og heimta lög á veruleikann. Ég er að hvetja til þess að menn komi sér saman um hlutina og semji um þær breytingar sem báðir aðilar sannarlega vilja gera. Ég vil að menn nái sátt vegna þess að ég er mjög eindregið á því máli að það sé engum til góðs að missa kjaradeilur inn í óskipulegan farveg. Ég held að það sé engum til góðs. Það er mín skoðun.