2000-05-05 01:15:46# 125. lþ. 106.5 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[25:15]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í árdaga verkfallsbaráttu mynduðu hópar einmitt eins og þessi stéttarfélög til að berjast fyrir kjörum sínum. Núna myndar hópur fólks stéttarfélag til að berjast gegn staðnaðri verkalýðshreyfingu sem hefur samið um allt of lág laun fyrir það. Þetta er kúgað fólk sem rís upp sem nýtt stéttarfélag, hvað er það annað?

Þess vegna spyr ég: Hvernig getur hv. þm. sagt að þetta hafi ekki verið nýtt stéttarfélag þegar hann sagði að það eigi ekki að grípa til verkfallsaðgerða? Þessi hópur manna greip til verkfallsaðgerða og er þar af leiðandi nýtt stéttarfélag eða ekkert er að marka undirskriftir þeirra aðila sem sömdu fyrir það. Ef þeir höfðu umboðið til að semja fyrir fólkið og sömdu fyrir það og það er ekki stéttarfélag, þá er ekkert að marka undirskriftirnar. Annað hvort er í gildi. Annaðhvort er þetta nýtt stéttarfélag, aðilarnir sömdu fyrir það, höfðu bara ekki umboð til þess, eða þá að undirskriftirnar gilda ekki.

Og ég spyr enn: Gilda undirskriftir verkalýðshreyfingarinnar eða ekki? Og getur verið að allt verkalýðskerfi opinberra starfsmanna sé að hrynja? Því að þetta er ekki eina dæmið, þau eru fjöldamörg og ég er ekkert voðalega sorgbitinn yfir þeim.