2000-05-05 01:16:59# 125. lþ. 106.5 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[25:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hálf finnst mér þetta brjóstumkennanlegt og lýsa mikilli vanþekkingu á því hvernig kaupin gerast á eyrinni í kjarasamningum þar sem hv. þm. leyfir sér að alhæfa að stéttarfélögin semji um allt of lág launakjör. Í sumum tilvikum má gagnrýna stéttarfélög og hreyfingu launafólks fyrir að berjast ekki nægilega hart fyrir kjörum sínum og gegn því atvinnurekendavaldi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur stillt sér upp með. Gagnvart því fólki sem hann talar til með þessum þjósti og sjálfbirgingi hefur hann átt aðild að stórfelldri kjaraskerðingu á undanförnum árum hvort sem litið er til barnabóta, til húsnæðiskerfisins, til þess sem gerst hefur innan heilbrigðisþjónustunnar. Hvar sem litið er hefur hann staðið með sverðið á lofti og staðið með ríkisstjórninni og atvinnurekendavaldi um að skerða kjör þessa fólks.

Stéttarfélögin hafa hins vegar verið að reyna að ná fram kjarabótum fyrir félaga sína og ekki alltaf tekist sem skyldi, því miður. En það er vegna þess að menn standa gegn mjög ófyrirleitnu valdi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur stillt sér upp með. En nú hlakkar að sjálfsögðu í hv. þm. ef hann telur einhverja brotalöm vera að finna hjá stéttarfélögunum.

Ég ítreka að mér finnst að samningar eigi að standa og undirskriftir eigi að gilda. En jafnríka áherslu legg ég á að um þær reglur og þau lög sem við förum eftir í tengslum við kjaradeilur eigi að skapa sátt. Annars ná þau hreinlega ekki markmiði sínu og takmarki. En ég veit að þau sjónarmið eru uppi að leysa öll vandamál með dómstólum, sektum og fangelsun.