2000-05-05 01:24:21# 125. lþ. 106.5 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[25:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér er það ljúft og þakka fyrir að fá orðið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en leið á kvöldið og nóttina að hér væri um svo brýnt forgangsmál af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að ræða. Ég hlýt að segja þá um leið, herra forseti, að ég harma að þessi mál hafi þróast á þann veg að hæstv. fjmrh. leggur jafnmikla áherslu á að fá þetta mál afgreitt við þessar aðstæður eins og raun virðist bera vitni, og að hæstv. forseti þingsins, sem ég þekki fyrir sanngjarnan mann, hefur að engu óskir um að kannski sé nóg að gert í þessari lotu í umræðum, af því að ég hef ekki skilið að það væri að öllu leyti skynsamlegt að umgangast þetta viðfangsefni á þann hátt sem hér er verið að gera.

Nú kann það að vera að menn hafi fest sig í einhverju því fari með þetta mál sem ekki sé auðvelt að komast upp úr. En ég hygg að auðvelt sé að sýna fram á m.a. með því að varpa ljósi á mikilvægi samskipta þeirra aðila sem hér eiga í hlut, að þetta sé ekki mjög skynsamlegur framgangsmáti. Ég harma þetta sérstaklega fyrir hönd hæstv. fjmrh. sem ég þekkti af öðru, þ.e. að vera frekar laginn í framgöngu með sín mál, en að fara að standa í því að troða hér áfram í ágreiningi og í bersýnilegri andstöðu við alla mikilvægustu viðsemjendur sína á vinnumarkaði máli af þessu tagi. Ég, herra forseti, er fús til að gera hlé á máli mínu meðan fjmrh. er í burtu úr þingsalnum. Honum er e.t.v. orðið erfitt um vik að viðbindast hér í salnum og þá er sjálfsagt að taka tillit til þess. Ef svo er ekki, herra forseti, þá treysti ég og fagna því að hæstv. fjmrh. hlýði á mál mitt.

Sem ég segi, herra forseti, þá finnst mér þetta ekki nógu lögulegt hjá hæstv. fjmrh. eða góð byrjun eða hluti af byrjun samskipta hans við mikilvægustu viðsemjendur sína á vinnumarkaði því þannig er tilhögun mála hjá okkur að hæstv. fjmrh. fer með samningsumboð ríkisins við opinbera starfsmenn sem hjá ríkinu vinna. Það er einnig mjög miður, herra forseti, og ber að harma að sveitarfélögin sem eru sífellt að verða mikilvægari vinnuveitandi opinberra starfsmanna eiga hér aðild að máli með heldur leiðinlegum hætti, sem sagt þeim að þau hafa lagt áherslu á að þetta frv. sé flutt og lögum breytt á þennan hátt í kjölfar þess að þau hafa tapað dómsmáli í deilum við einn hóp starfsmanna sinna. Það er athyglisvert að það sveitarfélag sem stóð í illdeilunum við starfsmennina, sveitarfélagið Árborg, sem er eða a.m.k. var á þeim tíma undir forustu þess trúnaðarmanns Sambands sveitarfélaga sem gegndi jafnframt formennsku í launanefnd sveitarfélaganna, bæjarstjórinn í sveitarfélaginu Árborg, þannig að hann er, ef einhver er, helst ígildi hæstv. fjmrh. í þeim skilningi að vera höfuðviðsemjandi opinberra starfsmanna hjá sveitarfélögunum.

Þetta er ekki nógu góð þróun í samskiptum þessara tveggja mikilvægu forustumanna um málefni hins opinbera gagnvart starfsmönnum og samtökum þeirra, að standa í málatilbúnaði af þessu tagi, annars vegar illdeilum og málaferlum sem þeir tapa og hins vegar þvingaðri lagasetningu í andstöðu við þá sem mestu máli skipta í þessu sambandi, þ.e. viðsemjendurna í tilviki hæstv. fjmrh. Ég kýs því, herra forseti, a.m.k. fyrir mig að líta á þetta sem mistök af hálfu hæstv. fjmrh. Ég held að þarna hafi mönnum orðið á, mönnum hafi í hita leiksins á sl. ári runnið í skap og þetta frv. sé afsprengi fljótræðislegra ákvarðana sem hafi verið teknar við slíkar aðstæður, af því það kann ekki góðri lukku að stýra, þjónar engum tilgangi og ég sé enga þá úrbót fólgna í því í þessum efnum sem sé líkleg til þess að skila mönnum hætishót fram á við, miklu frekar aftur á bak. Og ég treysti því, af því ég þekki hæstv. fjmrh. fyrir skynsaman mann, að honum sé löngu orðið þetta ljóst. En það er reyndar eins og við vitum stundum ekki alltaf auðvelt að finna götuna til baka ef menn lenda úti í blindgötu af þessu tagi.

[25:30]

Það hefur rækilega verið farið yfir það hér, herra forseti, af hv. 13. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni, að það gerir í raun og veru allan umbúnað þessa máls lakari en ella að hér er um ræða breytingu á ef ekki beinlínis samkomulagi þá a.m.k. lagaumgjörð sem er á grundvelli samkomulags allra mikilvægustu aðila opinbera vinnumarkaðarins frá 1986 sem var stutt í bak og fyrir af öllum málsaðilum, öllum hagsmunaaðilum og öllum pólitískum hreyfingum á Alþingi, margblessað og signerað sem sérstaklega ánægjulegt samstarf þessara aðila og farsæl niðurstaða varðandi það að móta sameiginlegar leikreglur á þessu sviði.

Ekki síður í ljósi þessa, herra forseti, verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst að það sé ekki alveg í stíl hjá hæstv. fjmrh. að standa svona að hlutum. Ég leyfi mér að halda það að einhvers staðar hafi hæstv. ráðherra lent út af sporinu og ekki komist á það aftur. Ef eitthvað er hægt að gera, herra forseti, til að hjálpa hæstv. fjmrh. upp á teinana á nýjan leik, leiða hann á sporið, þá erum við fús til að reyna það.

Herra forseti. Þegar í hlut eiga leikreglurnar á vinnumarkaði, ramminn sem gildir um samningaaðila, eru þar á ferðinni reglur af því tagi sem skipa mjög sérstaka stöðu eða eiga a.m.k. að gera í löggjöf okkar og réttarfari. Þetta eru grundvallarleikreglur af því tagi að þeim er að mörgu leyti helst hægt að jafna við kosningalöggjöf eða grundvallarréttarfarsreglur eða annað því um líkt af því að þjóðin þarf að búa við þessa umgjörð, starfa samkvæmt henni, byggja á henni og leysa afar vandasöm og mikilvæg mál á grundvelli þessara leikreglna þannig að vel takist til. Þess vegna hafa skynsamir menn löngum borið gæfu til að átta sig á því að afar mikilvægt er að að reyna að setja slíkar grundvallarleikreglur í góðri sátt. Enn er það svo að menn setja t.d. ógjarnan ákvæði í kosningalög eða gera breytingar á stjórnarskrá eða öðrum slíkum mikilvægustu grundvallarreglum samfélagsins öðruvísi en að leggja mikið á sig, a.m.k. til þess að reyna að ná um það sátt.

Hvað á þá að segja um framgöngu hæstv. fjmrh. í þessu máli þar sem frv., sem á að breyta einu tilteknu atriði í mikilvægri löggjöf um heildarsamskipti þessara aðila, er hent inn í þingið og þjösnast áfram með það í fullri andstöðu við alla helstu hagsmunaaðila sem eiga að búa við það, ef ég hef skilið málið rétt, ekki aðallega vegna efnis þess heldur vegna vinnubragðanna, heldur vegna aðferðanna, vegna þess að þarna er rofið það samstarf aðila um mótun slíkra reglna sem menn hafa reynt að byggja á. Það er ekki mjög gæfulegt, herra forseti. Þarna hefur hæstv. fjmrh. lent út af sporinu, haft vonda ráðgjafa eða tekið óskynsamlegar ákvarðandir í hita leiksins sem hann hefur ekki fundið leið til að rétta af.

Staðreyndin er sú að það að beita valdi með þessum hætti, sem er örugglega í færum hæstv. fjmrh. með tryggan meiri hluta ríkisstjórnarinnar á bak við sig á þinginu, þjónar hvort sem er engum tilgangi, sagan kennir okkur það. Það er alveg öruggt mál að verkalýðshreyfingin, samtök opinberra starfsmanna í landinu, verða ekki handjárnuð eða heft með aðferðum af þessu tagi, þau verða það ekki, nema menn gangi miklu lengra og svipti þau grundvallarréttindum, vegna þess að menn hafa afl og möguleika til að rétta af framkomu af þessu tagi í krafti samtakamáttar síns. Ég held að þetta geti ekki boðað neitt annað en verra andrúmsloft í samskiptum hæstv. fjmrh. við þessa hreyfingu og óþægindi á mánuðunum sem fram undan eru sem hæstv. ráðherra hefði átt að eiga góða möguleika á að komast hjá.

Er þá ekki til lítils unnið og þessi smásigur harla dýru verði keyptur? Hann gæti átt eftir að reynast þá, herra forseti, svokallaður Pyrrhosarsigur vegna þess að út á hann töpuðust aðrir og miklu meiri hagsmunir sem væru gott andrúmsloft í samskiptum þessara aðila, trúnaðartraust og samskiptareglur sem menn bæru virðingu fyrir.

Ég get ekki betur heyrt og séð af þeim fjölmörgu umsögnum, ekki bara allra heildarsamtaka opinberra starfsmanna heldur líka flestra mikilvægustu aðildarfélaga samtakanna en að þessi framgangsmáti hæstv. ráðherra hafi hleypt illu blóði í nánast alla hina opinberu hreyfingu starfsmanna í landinu. Þetta er þeim mun bagalegra, herra forseti, sem allir kjarasamningar við opinbera starfsmenn munu vera lausir á þessu ári og fram undan bíður hæstv. fjmrh. það vandasama verkefni að reyna að landa þar farsælli lausn. Ég hefði haldið að hæstv. fjmrh. gerði grand í því að vera uppteknari af því þessa dagana og á næstu vikum og mánuðum að undirbyggja gott andrúmsloft, trúnaðartraust og góð sambönd við þessar hreyfingar en að standa í því að því, er mér virðist nánast í fullkomnu tilgangsleysi, að þjösna máli af þessu tagi í gegn með vinnubrögðum eins og þessum.

Ef það er skoðun hæstv. fjmrh., sem örugglega er því að væntanlega er málið flutt af sannfæringu um að efnisákvæði þess væru til góðs, og ef við tökum það gilt og segjum sem svo að það sé skoðun hæstv. fjmrh. að þessum ákvæðum þurfi að breyta í þessa veru eða eitthvað í áttina þá er þetta alveg örugglega ekki rétta aðferðin til þess. Þá hefði hæstv. fjmrh. frekar átt að að leggja allt kapp á að ná um það samkomulagi við samtökin sem hann á jafnmikið undir samskiptum við og eiga að búa við þessar leikreglur að gera slíkar breytingar. Ég hef hvergi heyrt í umræðunni, og þvert á móti frekar hið gagnstæða, að útséð hafi verið um að ná mætti þar einhverju landi. Mér er reyndar kunnugt um að menn höfðu til skoðunar hjá samtökum opinberra starfsmanna ýmsar hugmyndir sem hefðu getað gengið í þessa átt. Það var þá rétta aðferðin, það var aðferðin sem var í samræmi við eldri fordæmi um samskipti þessara aðila og það væri í samræmi við þá hefð sem flestir forverar hæstv. fjmrh. og aðrir framsýnir foringjar í málum af þessu tagi hafa reynt að hafa í heiðri, að gera jafnan fyrst allt sem mögulegt væri til þess að reyna að ná samkomulagi um málin áður en menn gripu til þess neyðar- eða óyndisúrræðis að neyta aflsmunar á löggjafarsamkundunni og þvinga niðurstöður þannig fram. Það hefur aldrei þótt góð latína í samskiptum aðila vinnumarkaðarins að hvort sem heldur er að setja niður kjarasamninga með lögum eða breyta leikreglunum um þessi samskipti á sama hátt þó menn hafi einstöku sinnum hrakist út í slíkt og eiga sér ýmsir fortíð í þeim efnum.

Ég held, herra forseti, að í þessu sambandi séu grundvallarreglurnar um samskiptin miklu mikilvægari en jafnvel efni málsins sjálfs þó að ég ætli líka að koma lítillega inn á það. Mér eru þau miklu ofar í huga og það á hvaða spori hæstv. fjmrh. er staddur í þessu tilviki sem eins og ég segi og endurtek að mér finnst vera stílbrot miðað við framgöngu hæstv. ráðherra hingað til sem hefur verið í öllum aðalatriðum skynsamleg í tilvikum af þessu tagi. En hér bregður eitthvað nýrra við, hér er eitthvað annað á ferðinni. Mér eru ekki ljósar ástæður þess að þetta er þvingað fram með þessum hætti, hvort þar véla einhverjir aðrir um á bak við hæstv. ráðherra eða hafa áhrif á eða hvort þetta er eingöngu vilji hæstv. ráðherra að ná þessu svona fram. Það verður þá ekki til mikillar farsældar, svo mikið þori ég að fullyrða.

Varðandi efni málsins, herra forseti, er það að sjálfsögðu ekki svo að við sem hér höfum gagnrýnt þennan framgangsmáta, og það á að vera alveg skýrt held ég, að við erum ekki að mæla neinum óréttmætum eða ólögmætum aðferðum í vinnudeilum bót, svo er ekki. Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur einnig ítrekað fyrir sitt leyti, að skipulagðar hópuppsagnir, þar sem stéttarfélögin sjálf kæmu við sögu eða væru á bak við, séu að sjálfsögðu ekki réttlætanlegar. Þar eiga menn að beita hinum lögvernduðu og löghelguðu aðferðum og knýja fram réttlætingu mála sinna eða bættan hlut sinn með þeim aðferðum sem eru viðurkenndar, þ.e. uppsögn kjarasamninga eða eftir atvikum vinnustöðvun til að knýja á um kjarabætur þegar samningar eru lausir.

Hitt verður líka að hafa í huga, herra forseti, að launamenn, hver og einn, eiga auðvitað að lokum þann sjálfstæða einstaklingsbundna rétt --- og hann verður ekki frá þeim tekinn --- að hverfa úr störfum sem þeir una ekki lengur í vegna þess að kjörin séu svo bág. Þarna verða menn þar af leiðandi að gæta hófs í því að virða hvort tveggja og finna skynsamleg landamæri eftir atvikum sem hægt sé að draga þarna á milli. Mér sýnist að það sé miklu meira tilefni fyrir vinnuveitendur í þessu tilviki að velta stöðu sinni fyrir sér, m.a. í ljósi dóma sem fallið hafa, heldur en í sjálfu sér verkalýðshreyfingunni sem hefur ekki verið sönnuð að neinni sök í þessum málum. Að sjálfsögðu getur skipulögð hreyfing, heildarsamtök eða félög launamanna ekki tekið ábyrgð á né tekið réttinn af félögum sínum sem einstaklingum við aðstæður af þessu tagi. Staðreyndin er sú, herra forseti, að launamenn í ýmsum stéttum hafa á undanförnum missirum verið að greiða atkvæði með fótunum, ef svo má að orði komast, í stórum stíl og flýja starfsgreinar þar sem launakjörin eða starfsaðstæður hafa verið með þeim hætti að þeir una þeim ekki. Það er þar af leiðandi ekkert nýtt eða ætli menn kannist til að mynda ekki við flótta úr kennarastétt eða ýmsum umönnunarstéttum þar sem menn una ósköp einfaldlega ekki þeim kjörum sem eru í boði? Eigi þeir kost á öðrum betri störfum, betur launuðum, annars staðar á vinnumarkaði þá eiga þeir að sjálfsögðu þann rétt að færa sig til. Ég hef ekki trú á að menn geri það yfirleitt að gamni sínu að hverfa t.d. úr því starfi sem þeir hafa menntað sig til og hafa áhuga á og jafnvel hugsjón til að sinna en menn gera það samt ef þeim er þannig misboðið í kjörum að þeir una því ekki.

Það vill svo til að ég, eins og örugglega flestir á þingi, þekki í nokkrum tilvikum menn persónulega sem hafa gripið til þessarar aðgerðar sem einstaklingar að segja upp í starfi sínu vegna óánægju með laun, vegna þess að þeir telja að í hinum almennu kjarasamningum hafi ekki náðst fram þær kjarabætur eða þau starfskjör sem þeir geti sætt sig við. Sumir þessara einstaklinga hafa horfið aftur til fyrri starfa eftir að kjör hafa batnað, aðrir hafa horfið varanlega á braut og sinna nú öðrum störfum í þjóðfélaginu.

[25:45]

Er hæstv. fjmrh. lýðveldisins, herra forseti, nokkuð svo veruleikafirrtur að hann viti ekki af þeim aðstæðum sem hafa verið á vinnumarkaði um margra missira skeið, að hér hefur ríkt þensla og umframeftirspurn eftir vinnuafli? Við aðstæður af því tagi verða menn sérstaklega að horfast í augu við að svona hlutir geta gerst.

Hvar ætla menn að draga mörkin ef einn einasti einstaklingur í einu einasta stéttarfélagi segir upp? Er hægt að tala um að það sé ólögmæt hópaðgerð? Nei, ég geri ekki ráð fyrir því að meira að segja hv. þm. Pétri Blöndal dytti það í hug. Ef þeir eru tveir sem tala saman í síma og segja: ,,Ja, nú er mér nóg boðið, ég uni þessu ekki lengur. Ég ætla niður á skrifstofu á morgun og segja upp.`` Ef sá sem hringt var í segir: ,,Já, ætli ég geri það bara ekki líka, mér er líka nóg boðið`` --- er það þá skipulögð hópuppsögn? Er það þá verkalýðshreyfingin, stéttarfélagið sem er komið í ónáð og hefur brotið eitthvað af sér? Og þó þeir væru fjórir. Hvar ætla menn að draga mörkin?

Ég held, herra forseti, að menn verði að átta sig á því að hér eru menn komnir út á svæði sem er þess eðlis að menn leysa engan vanda með þjösnaskap af því tagi sem hæstv. fjmrh. virðist því miður hafa látið glepjast á að standa fyrir. Menn gera það ekki, það er algjörlega á hreinu, ég er gjörsamlega sannfærður um það. Nógu vel hef ég fylgst með því hvernig þessi mál hafa verið að ganga fyrir sig á ýmsum stöðum, þar á meðal í sveitarfélaginu Árborg því að það vill nú svo til að undirritaður er af vissum ástæðum bærilega að sér um það hvernig kjaramál bæði leikskólakennara og grunnskólakennara á því svæði hafa gengið fyrir sig undanfarna mánuði og missiri. Reyndar þekki ég mörg fleiri tilvik víðar að.

Herra forseti. Mér sýnist því alveg sama hvar á málið er litið, hér eru menn ekki að landa neinum þeim ávinningum sem séu þeirra fórna virði sem hæstv. fjmrh. virðist ætla að fara að færa í þessu máli. Þarna hafa menn lent í einhverja blindgötu sem menn þyrftu bara að finna sér ástæðu til að snúa við í og komast út úr aftur því að það er alveg ósýnt um hvar hún endar ef menn halda áfram lengra inn í hana.

Ég er því þeirrar skoðunar, herra forseti, að það langskynsamlegasta sé að hæstv. fjmrh. biðji sjálfur um að umræðu um málið verði nú frestað og hlutist til um það, t.d. um helgina, að hóa í helstu forsvarsmenn þeirra samtaka sem í hlut eiga. Ég held að það væri drjúgt helgarverk ef hæstv. ráðherra gæti komið á mánudaginn og sagt að hann hefði náð ákveðnu samkomulagi við forsvarsmenn þessara samtaka um það hvernig á málinu yrði haldið í framhaldinu. Það þýddi ekki endilega að þetta frv. eða einhver breytt útgáfa þess gæti ekki í fyllingu tímans tekið gildi með einhverjum hætti. Það gæti að sjálfsögðu orðið ein niðurstaða og samkomulag af þessu tagi að menn gerðu einhverjar lagabreytingar. En það yrði a.m.k. ekki unnið svona að þeim og allir kæmust að málinu með sjónarmið sín og gætu væntanlega haft einhver áhrif á ferlið.

Þá held ég að hæstv. fjmrh. gæti miklu frekar farið í sumarleyfi og verið sæmilega bjartsýnn á að hann mundi mæta viðsemjendum sínum í góðu skapi á hausti komanda eða nær það nú er sem þessir aðilar eiga eða þurfa fyrir alvöru að fara að setjast niður og ræða um framhald samskiptamála sinna.

Ég leyfi mér sem sagt, herra forseti, að koma þessum ábendingum að en ég ætla ekki að fara að gera þeim svo hátt undir höfði að kalla þær ráðleggingar, sérstaklega til hæstv. fjmrh., hann heyrir þessi orð og metur þau. En ég tel mig svo sem ekki geta lagt svo mikið meira af mörkum til umræðunnar og læt þar með máli mínu lokið, herra forseti. Ég ítreka óskir mínar um að nú verði farið að huga að því að ljúka þinghaldinu, a.m.k. mundi sá sem hér talar verða því feginn.