Bréfasendingar alþingismanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 10:37:03 (6977)

2000-05-08 10:37:03# 125. lþ. 107.91 fundur 485#B bréfasendingar alþingismanna# (aths. um störf þingsins), GHall
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[10:37]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Í febrúar og mars á sl. ári sendi ég út tvö fundarboð til íbúa Breiðholtshverfa. Ég stóð að þeim fundum ásamt félögum sjálfstæðismanna þar. Fundarboðin sem fjalla áttu um velferðarmál voru prentuð á A-4 eyðublöð, stimplað á þau heimilisfang og póstfang. Upplagið var 2.505 eintök og póststimpill Alþingis.

Mörður Árnason, leiðandi maður Samfylkingarinnar, sagði í blaðaviðtali 12. mars 1999 að þessi póstsending mín jaðraði við siðleysi og verkamaður hér í borg kærði þær póstsendingar til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Hreinn Garðarsson, íbúi í Hafnarfirði, hefur sent mér bréf ásamt ljósriti af tveimur bréfum Samfylkingarinnar stílað á hann í desember 1999 og í mars á þessu ári. Bæði þessi bréf eru á bréfsefni Alþingis, umslögin merkt Alþingi. Önnur sendingin er með póststimpli Alþingis og heildarfjöldi þessara bréfsendinga Samfylkingarinnar er 16--18 þúsund eintök. Innihald bréfanna, það fyrra: Ráðist á ríkisstjórnina. Það síðara um kvótamál, formannskjör og fundi Samfylkingarinnar.

Í fyrrnefndu viðtali við félagslegan réttlætissinna Samfylkingarinnar, Mörð Árnason, segir einnig: ,,Það er siðleysi að þingmaðurinn,`` --- sá er hér stendur --- ,,kríi fjármuni út úr Alþingi aukalega til að auglýsa fund fyrir stjórnmálaflokkinn sinn.``

Herra forseti. Hér er nákvæmlega það sama að gerast og ég var harðlega gagnrýndur fyrir af félagslegum réttlætissinnum Samfylkingarinnar, samfylkingarfólkinu, þar sem um er að ræða bréfsefni Alþingis á tæpum tveimur tugum þúsunda og póststimpill Alþingis á helmingi þessara útsendinga og er þá ekki allt upp talið. Að liggja síðan undir ámæli þessa fólks er með ólíkindum.

Herra forseti. Mér finnst að kominn sé tími til að takast á við óeðlileg og siðlaus vinnubrögð Samfylkingarinnar. Ég er með þessi bréf sem eru undirritað af mörgum ágætum þingmönnum sem lágu mér á hálsi fyrir að senda bréf og boða fundi í Breiðholti. Ég ætla að bíða til seinni umræðu með að lesa þau.