Bréfasendingar alþingismanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 10:43:22 (6980)

2000-05-08 10:43:22# 125. lþ. 107.91 fundur 485#B bréfasendingar alþingismanna# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[10:43]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska Samfylkingunni til hamingju með tilurð sína og fæðingu.

Hér erum við að ræða um siðareglur og siðalögmál og ég tók til þess þegar hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson var gagnrýndur mjög harkalega af samfylkingarmönnum á sínum tíma og saknaði þess að ekki eru til reglur um hvað megi gera á kostnað Alþingis. Ég vil að menn setjist niður af þessu tilefni og semji reglur um hvað megi. Má senda út flokkspólitískt bréf í þessu magni? Er þetta hluti af starfskostnaði þingmanna? Ég vil að menn taki á þessu máli og setji sér siðareglur.

Menn þurfa að vera sjálfum sér samkvæmir. Ekki er nóg að gagnrýna með annarri hendinni og gera svo sjálfur það sama með hinni, það gengur ekki. Ég vil skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að settar verði siðareglur um hvernig þingmenn megi fara með fé Alþingis. Menn hafa verið að tala um að skylda ríkisstjórnina til að setja siðareglur á fjármálamarkaði. Ég held að nær væri að Alþingi byrjaði á að setja siðareglur fyrir sjálft sig.