Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 17:03:40 (7037)

2000-05-08 17:03:40# 125. lþ. 108.6 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[17:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér ræðum við um frv. sem flutt er af meiri hluta sjútvn. um stjórn fiskveiða. Það felur fyrst og fremst í sér að fresta þeim ákvæðum sem höfðu áður kveðið á um það í núgildandi lögum að kvótasetning færi fram á þremur fisktegundum í smábátakerfinu svokallaða og tæki gildi þann 1. september nk. Frv. gengur út á það að fresta þeim ákvæðum. Ég get lýst því að ég tek undir það sem lagt er til í frv. í 1. og 2. gr. þess. Ég hef hins vegar talsverðan fyrirvara varðandi 3. gr. að því leyti að það sem þar er lagt til er ákveðin ný opnun á því sem kallað er hér krókaaflahlutdeild og í þeirri útfærslu er ekki sett nein stærðartakmörkun á þá báta sem geta farið yfir í það kerfi sem þar er lagt til, þ.e. báta, sem eru almennt 6 tonn í smábátakerfinu og færu yfir í þessa krókaaflahlutdeild, þá væri hægt að stækka eftir að þeir væru komnir þangað án þess að settar hafi verið neinar sérstakar reglur um hversu mikil slík heimild stækkunar væri. Afleiðing laganna gæti því hæglega orðið sú næsta haust að í krókakerfinu verði bátar sem eru 20--30 tonn eða þaðan af stærri, þ.e. í þessari sérstöku útfærslu.

Þetta er fyrst og fremst það sem ég hef við þetta að athuga og get þar af leiðandi ekki samþykkt 3. gr. vegna þess að ég hefði talið eðlilegt að menn settu þá a.m.k. stærðartakmörkun þarna við því að mótun nýrrar fiskveiðistefnu liggur ekki fyrir, hvernig menn ætla að láta strandveiðar þróast í framtíðinni. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að menn hefðu sett einhverja stærðartakmörkun og þannig hefði verið séð til þess að ekki væri rennt blint í sjóinn með hvað gerist á næsta fiskveiðiári. Þetta er sú athugasemd sem ég hef við þetta.

Við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson höfum lagt fram þrjár brtt. við þetta mál sem allar hníga að því að gefa öðrum sem við fiskveiðar vinna aðlögun og þeim sem eru þannig staddir að þeir hefðu þurft ákveðna lagfæringu og aðlögun meðan á endurskoðun laga um stjórn fiskveiða stendur yfir. Brtt. ganga út á það í fyrsta lagi --- þær voru ræddar talsvert fyrir nokkrum dögum og ætla ég ekki að hafa langt mál núna vegna þess hversu ítarleg umræða fór fram fyrir ekki löngu síðan --- að þau skip sem eru í aflamarkskerfinu, svokallaða stóra kvótakerfinu, almenna kvótakerfinu, og hafa tiltölulega mjög litlar aflaheimildir, þar sem menn hafa verið að leigja aflaheimildir á okurverði til þess að reyna að gera út --- í mörgum tilfellum eru þetta sjómenn sem áður störfuðu á stærri skipum sem búið er að selja úr þeim byggðarlögum þar sem þeir búa og eru að reyna að koma sér fyrir eða skaffa sér lifibrauð með því að eignast fiskiskip og reyna að gera þau út --- við hefðum talið eðlilegt að þeim væri gefin nokkur aðlögun og sú tillaga sem við lögðum til á þskj. 1067 gengur út á að gefa þeim nokkra aðlögun.

Auk þess gengur hún út á að t.d. þeir grásleppusjómenn sem eru á litlum bátum undir 20 rúmlestum og hafa minni aflaheimildir en 15 þorskígildistonn fengju sérstaka úthlutun til að mæta þeirri þröngu stöðu sem þeir eru í. Það var ekki gert að skilyrði að sá floti hefði þurft að leigja til sín, enda hefur hann orðið fyrir mikilli tekjurýrnun samfara grásleppuveiðum á sl. ári og horfur eru til þess einnig á þessu ári vegna verðlagsmála.

Önnur tillagan sem við fluttum var um að þar sem áfram væri verið að gefa frjálsar veiðar í krókakerfinu á þremur fisktegundum, steinbít, ufsa og ýsu, yrði gengið örlítið til móts við þá sem vinna almennt í aflamarkskerfinu og þær tvær tegundir sem við nefnum hér, steinbítur og ufsi, yrðu teknar út úr kvótakerfinu meðan á endurskoðunartímanum stæði þannig að jafnræði myndaðist þar líka með mönnum, þ.e. þeim sem starfa í stærra kvótakerfinu og þeim sem vinna í svokölluðu smábátakerfi. En frv. sjútvrh. og tillaga meiri hlutans gengur út á að gefa þeim hluta flotans frelsi til að veiða þorsk, ýsu og ufsa en brtt. okkar gengur út á að annar hluti flotans fengi einnig frelsi til að veiða ufsa og steinbít á næsta fiskveiðiári. Þar með hefði orðið dálítið meira jafnræði með mönnum að þessu leyti og það hefði líka hjálpað upp á útgerð kvótalítilla skipa og þeirra sjómanna sem hafa verið að baksa við það.

Þriðja brtt. á þskj. 1069 gengur út á að úr því að verið er að lagfæra stöðu þeirra skipa sem í aflahámarkskerfinu eru, smábátanna, og fresta þar kvótasetningu og gefa þeim möguleika, sem ég tel eðlilegt í sjálfu sér, á næsta fiskveiðiári, þá væri það einnig lagfært sem varðar þann bátaflokk sem kallaðir eru dagabátar í þessu krókakerfi og hafa haft 23 veiðidaga á sl. fiskveiðiári og munu að öllum líkindum hafa það sama á næsta fiskveiðiári. Einnig að þeim væri gefinn kostur á því að í stað þess að neyðast til að taka þessa daga alltaf í striklotu, í 24 tíma lotu, væri þeim gefinn kostur á að taka dagana út í 12 klukkustunda veiðiferðum ef þeim þætti það henta. Þetta ákvæði held ég að væri að mörgu leyti mjög nauðsynlegt og kæmi að þeim notum að auka fiskgæði sem ekki er vanþörf á miðað við þá skýrslu sem sjútvrh. lét vinna varðandi gæði fisks, og kæmi einnig að því sem snýr að öryggisþættinum þar sem menn væru ekki að pína sig til að nýta klukkustundir upp í 24, jafnvel í breytilegu veðri og ef góður afli er að teygja sig um of í að hlaða skipin of mikið. Að öllu saman lögðu væru því ýmis rök fyrir utan sanngirnisrökin að einhver liðkun væri gerð fyrir þennan flokk skipa til samræmis við aðra.

Þetta er það helsta sem kemur fram í þessum brtt. og er í raun og veru til samræmis við það frv. sem hér er lagt fram af meiri hluta sjútvn. og sjútvrh. Við teljum að taka hefði átt jákvætt undir þetta og gera þarna jafnræði með mönnum. Meiri hluti sjútvn. treysti sér ekki til þess að taka undir þau sjónarmið og þá verða tillögurnar sennilega felldar við atkvæðagreiðslu. Ég vil hins vegar vekja athygli á að það er þó nokkur fjöldi sjómanna sem á í raun og veru afkomu sína undir því að gerðar séu ákveðnar lagfæringar. Ég hef undir höndum m.a. undirskriftalista frá mönnum sem eru að gera út tiltölulega kvótalítil fiskiskip í hinum ýmsu byggðum landsins þar sem þeir sjá ekki að þeim takist að lifa af þann endurskoðunartíma sem boðaður hefur verið af sjútvrh. að óbreyttum lögum og óbreyttu okurverði á leigu aflaheimilda. Það hefði því verið ákveðið réttlætismál að reyna að lagfæra þessa stöðu þannig að flestir þeir sem málið snýr að gætu lifað af þennan endurskoðunartíma. Þó að ekki væri verið að bjóða þeim gull og græna skóga í því efni þá yrði þeim samt gert jafnara undir höfði en málið gerir eins og það lítur nú út.