Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:04:09 (7072)

2000-05-08 20:04:09# 125. lþ. 108.9 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hv. félmn. Hún er búin að hafa málið til mikillar og ítarlegrar skoðunar. Ég ýmist styð eindregið brtt. sem hún gerir eða uni prýðilega við þær, þ.e. þær brtt. sem nefndin stendur öll að.

Það er alveg hárrétt hjá hv. 4. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, að það er mjög mikilvægt og eftirsóknarvert að bæði kyn sæki nokkuð jöfnum höndum í öll störf og það er rétt að það skortir mjög á að konur sæki í stærðfræðitengdar greinar eða raungreinar í námi. Í tilefni af því hef ég beitt mér fyrir því að ráðuneyti mitt og Jafnréttisráð taki þátt í átaki með Háskóla Íslands og iðnrn. til að reyna að auka þátt kvenna í raungreinatengdu námi. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og ég held að það þurfi að ýta á það mjög snemma, jafnvel í leikskóla og sérstaklega þó í grunnskólanum, að vekja áhuga stelpna á stærðfræði og raungreinatengdu námi.

Herra forseti. Ég get sagt það hér að ég er stoltur yfir þeim árangri sem náðst hefur í fjölskyldu- og jafnréttismálum að undanförnu. Dagur fjölskyldunnar er 15. þessa mánaðar og þá mun ég í samvinnu við fjölskylduráð efna til blaðamannafundar til að reyna að vekja athygli á mikilvægi fjölskyldumála í þjóðfélagi okkar.