Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:23:41 (7151)

2000-05-09 11:23:41# 125. lþ. 109.25 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. skrifum undir nál. um frv. til laga um stofnun hlutafélagsins um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum með fyrirvara. Sá fyrirvari er einkum fólginn í því að við töldum að eðlilegt hefði verið, þegar búið er að taka þá ákvörðun að breyta rekstrarformi Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, stofna þar hlutafélag og selja sem fyrst, sem kom fram strax við 1. umr. og umfjöllun í nefndinni, að fram færi úttekt á þessu nýja hlutafélagi. Fyrirvari okkar snýr fyrst og fremst að því að við teljum ekki rök fyrir því að bátaábyrgðarfélögunum sem hafa umsjón með eignarhlut ríkisins í Samábyrgð hf. verði veitt heimild til að eignast þetta fyrirtæki á 85% af reiknuðu upplausnarvirði félagsins eins og það er á stofndegi þess, eins og segir í brtt.

Okkur fannst þetta þó skref í rétta átt þó klárlega kæmi fram í lagafrv. að ætlun stjórnvalda væri að selja bátaábyrgðarfélögunum eignarhlut félagsins í Samábyrgðinni og það á undirverði. Mig minnir að reikningar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum fyrir sl. ár sýni að eigið fé þess hafi vaxið töluvert og sé eitthvað á milli 300 og 400 millj. kr. og ætlun ríkisvaldsins er að selja bátaábyrgðarfélögunum eignarhlut sinn á undirverði. Við töldum það ekki rétt heldur ættu þau þá rétt á því að bjóða í þetta eins og aðrir. Við teljum að þó að þarna hafi verið um skyldutryggingar að ræða þá hafi það í sjálfu sér ekki myndað neinn forkaupsrétt. Tryggingar hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum hafa síst verið lélegri en gerist og gengur hjá öðrum tryggingafélögum.

Hins vegar varð samkomulag innan nefndarinnar um að gera þetta eins og hér er lagt til, að í frv. kæmi það fram skýrum stöfum á hvaða verði ætti að selja eða hver viðmiðunin væri, þ.e. 85% af reiknuðu upplausnarvirði félagsins eins og það er á stofndegi og ef tilboðum verði ekki skilað inn fyrir 1. september og samningaviðræðum lokið fyrir 1. nóvember á þessu ári þá skuli ráðherra bjóða hlutaféð til sölu á almennum markaði eða leysa upp félagið.

Við erum sammála því að varðandi Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þetta tryggingafélag með því formi sem á því hefur verið, sé eðlilegt að breyta rekstrarforminu og eðlilegt að selja það. Það er með öllu óeðlilegt að ríkið standi fyrir eða reki tryggingafélag á þann hátt sem verið hefur á undanförnum árum með skyldutryggingum og öllu því sem fylgdi Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. En í aðdraganda þessa og umfjöllun teljum við að standa hefði mátt betur að verki en raun ber vitni. Við leggjum á það áherslu að þegar ákvörðun er tekin um að breyta fyrirtæki á vegum ríkis, eignarhlut ríkisins eins og þarna er, í hlutafélag og ákveðið hefur verið að selja þá fari fram eðlileg útboð.

Við minnum á að Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á það í skýrslum sínum að setja þurfi reglur um sölu á ríkisfyrirtækjum, það þurfi að vera samræmdar reglur sem gildi þar um en ekki gildi um það sérreglur í hvert sinn sem stjórnvöld ákveða að selja ríkisfyrirtæki. Ríkisendurskoðun telur að samræmi þurfi að vera í sölu ríkisfyrirtækja þannig að eftirlitið, þ.e. Alþingi sem hefur ákveðið eftirlitshlutverk með framkvæmd fjárlaga ríkisins, viti að hverju er stefnt hverju sinni og hvernig framkvæmdin eigi að vera hverju sinni. Þá væri hægt að ganga að þeim reglum og hv. alþm. gætu í umfjöllun um sölu á fyrirtækjum gengið úr skugga um hvort farið væri eftir hinum fyrir fram gefnu reglum í stað þess að fylgt sé hentistefnu í hverju tilviki fyrir sig.

Virðulegi forseti. Við vildum sem sagt koma því á framfæri að við hefðum talið eðlilegra að ráðherrann byði hlutabréfin til sölu á almennum markaði ef ekki er tekin ákvörðun um það á annað borð að leysa félagið upp. Við teljum ekki sterk rök fyrir því að selja það á undirverði.