Tryggingagjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:41:22 (7159)

2000-05-09 11:41:22# 125. lþ. 109.27 fundur 550. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður) frv. 102/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:41]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að líklega eru ekki miklar líkur til þess að þeir sem eru undir skattleysismörkum greiði inn í lífeyrissjóði. En það er ekki vegna þess að þeir þurfi endilega hvatningu til þess heldur vegna þess að þeir eru á allt of lágum launum og hafa ekki afgang til þess að greiða í lífeyrissjóði og það er vandamál sem þarf að taka á annars staðar.

Það er líka rétt hjá hv. þm. að hér er um ákveðna stýringu að ræða. Það er verið að stýra fjármunum inn í lífeyrissjóðina og ég tel að við þurfum í beinu framhaldi af því að herða reglur um ráðstöfun á því fjármagni sem lífeyrissjóðirnir hafa og eftirlit sem um það gildir og að sjóðfélagar eigi rétt á þeim upplýsingum sem beðið er um hverju sinni um það hvernig það fé er ávaxtað.