Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:44:18 (7182)

2000-05-09 12:44:18# 125. lþ. 109.32 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:44]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Sú brtt. sem var áðan gerð grein fyrir á sér eðlilegar skýringar. Við 2. umr. málsins var gerð grein fyrir afstöðu okkar til málsins og hún er í sjálfu sér óbreytt en við umræðuna núna er eftir að taka afstöðu til brtt. sem liggja fyrir, annars vegar þeirrar tillögu sem hv. formaður sjútvn. gerði áðan grein fyrir og hins vegar þremur tillögum frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og Árna Steinari Jóhannssyni.

[12:45]

Ég vil gera grein fyrir afstöðu Samfylkingarinnar til þessara tillagna. Ég ætla að byrja á brtt. á þskj. 1067 sem fjallar um úthlutun aflamarks til skipa sem hafa farið illa út úr þeirri úthlutun á undanförnum árum. Ég hef vissulega samúð með þeim sjónarmiðum sem liggja á bak við þessa tillögu. Þetta er hins vegar aðferð sem mér gest ekki vel að, handstýring þar sem bátar eru valdir á tiltekinn hátt og fá þá viðbót en aðrir ekki.

Við höfum lagt fram tillögur okkar í þessu máli. Þær byggjast á að koma á almennum reglum við úthlutun aflaheimilda. Sú tillaga hefur ekki komið til afgreiðslu og reyndar ekki til umræðu í þinginu nema í tengslum við önnur mál. Ég er afar óánægður með að ekki skuli hafa tekist að fá tíma fyrir umræðu um það mál okkar þó að það hafi komið seint fram. Mér sýndist á tímabili að við fengjum málið rætt í síðustu viku. Ég hef verið tilbúinn að taka þá umræðu en niðurstaða þingflokksins var að betra yrði að ræða um hana síðar. Mér sýnist þó að ekki sé séð fyrir endann á því og er afar óánægður með að mál okkar komist ekki til umræðu.

Tillaga hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og Árna Steinars Jóhannssonar, um að bæta við úthlutun til þeirra sem hafa farið illa út úr aflamarksúthlutun undanfarandi ára, gerir ráð fyrir aðferð sem mér finnst ekki eiga að nota í þessu tilviki. Okkar tillögur hvað þetta varðar fjalla um að trappa niður, skerða úthlutanir samkvæmt þeim reglum sem gilt hafa á undanförnum árum og í staðinn verði úthlutað með almennum hætti. Þess vegna munum við ekki greiða atkvæði með þessari tillögu.

Þá kem ég að annarri tillögu, á þskj. 1068, þar sem lagt er til að úthlutun aflahlutdeildar til einstakra fiskiskipa á steinbíti og ufsa falli niður. Þannig er að ég hef einnig töluverða samúð með sjónarmiðunum á bak við þessar hugmyndir, einfaldlega vegna þess að það hefur verið mjög reikult hvernig staðið hefur verið að málum. Steinbíturinn hefur stundum verið inni í aflamarki og stundum ekki. Það liggur ekki beint við að álykta að tillögur um að hafa viðkomandi fisktegundir inni í þessum kvóta séu vel undirbyggðar vísindalega. Þess vegna tel ég að full ástæða sé til að fara yfir það vel og vandlega hvort tillögur fiskifræðinga í þessu efni séu nógu góðar þó Alþingi hafi látið sér líka að fara eftir þeim á undanförnum árum. Hins vegar hefur það verið ráðandi stefna og samstaða um hana á Alþingi, líka hjá þeim sem hafa verið á móti kvótakerfinu, að láta tillögur fiskifræðinga ráða hve mikið er veitt úr stofnunum. Af þeim ástæðum tel ég að fara þurfi almennt yfir þetta mál og ég og aðrir í Samfylkingunni munu því líka sitja hjá við afgreiðslu á þessari tillögu.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 1069. Þar er lagt til að gerð verði breyting á reglum um dagabáta, að þeir geti róið tvisvar út á sama degi. Ég tel reyndar að fyrirkomulagið sem Alþingi samþykkti um dagabátana sé enn ein vitleysan af sama tagi. Þar er ákveðnum bátum úthlutað réttindum með aðferð sem ber í sér vanda og gengur ekki upp. Miðað við þau veiðiréttindi sem þessir bátar hafa núna er gert ráð fyrir að þeir megi róa ákveðið marga daga en því fylgir svo lítill aflaréttur að allir sjá að þetta kerfi hrynur. Þessir bátar fá úthlutað örfáum dögum til að veiða þannig að sú hugmynd sem þarna er á ferðinni getur ekki gengið upp. Í tillögu okkar, sem ekki hefur verið tekin til umræðu enn þá, er gert ráð fyrr því að bakka út úr þessu kerfi á fimm árum vegna þess hve gallað það er. Þessir bátar fylgdu þar með almennum reglum um úthlutun veiðiréttinda. Þess vegna munum við einnig sitja hjá við afgreiðslu þessarar tillögu.

Ég vil bara endurtaka varðandi þetta frv. að ekki er upp á það bjóðandi af hendi hv. Alþingis að það eigi að framlengja lögum sem Hæstiréttur hefur í tvígang fellt dóma um og staðfesti í síðari dómnum í vetur að væru brot á stjórnaskránni. Alþingi ætti ekki að láta viðgangast að slík lög séu í gildi árum saman. Það stefnir í að lögin muni gilda hátt á fjórða ár eftir að Hæstiréttur hefur kveðið upp úrskurð af þessu tagi og eftir að Alþingi hefur brugðist við í kjölfar dómsins. Ég spyr einfaldlega: Líta menn virkilega svo á að þegar niðurstaða Hæstaréttar er að í vissu máli sé brotið gegn stjórnarskránni þá hafi menn árum saman svigrúm til að koma til móts við slíkan dóm? Það er alla vega ákaflega athyglisvert og lýsir ekki mikilli virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins ef menn líta þannig á og hafa ekki leitað leiða til að taka á þessu máli með öðrum hætti. Ég segi eins og er: Ég undrast að svo mikill meiri hluti og virðist vera á Alþingi sé fyrir því að þetta sé bara allt í góðu lagi.

Ég held að menn hljóti að velta því fyrir sér hvort þannig yrði litið á önnur mál sem dæmd eru af Hæstarétti sem brot á stjórnarskránni, að það sé í góðu lagi að taka sér þrjú, fjögur ár til að koma til móts við þá niðurstöðu.

Ég vil svo minna á þá gagnrýni sem fram kom við síðustu umræðu um þetta mál varðandi brtt. frá hv. þm. meiri hlutans við frv. eins og það lá fyrir. Þar var opnað fyrir að hægt væri að stækka þá báta upp úr öllu valdi sem fluttir yrðu úr þessu kerfi, þ.e. þeir aðilar sem flyttu veiðirétt úr þessu kerfi gætu komið sér upp bátum, eins stórum og þeir kysu. Það hefði í för með sér þann möguleika að flytja aflaréttindin frá þessum smábátahópi og það gæti orðið býsna afgerandi ef einhverjir teldu sér hag í því. Ég vara við því og tel fulla ástæðu til að hafa áfram í gildi reglur sem gera mögulegt að öðruvísi reglur gildi um smábáta en aðra hluta flotans. Sá möguleiki gæti horfið með því fyrirkomulagi sem þarna yrði leyft. Það gæti komið í veg fyrir að hægt væri að setja öðruvísi reglur um smábáta.

Ég endurtek hins vegar að ég tel ekki að þar eigi 6 tonna stærðin endilega að ráða. Ég held að menn eigi að ræða í fullri alvöru hvar sú lína eigi að liggja, við 7, 8, 9 eða 10 tonn. Ég tel að það hljóti þá að skipta máli til hvers þessir bátar eru notaðir. Þess vegna býst ég ekki við að menn muni fara upp fyrir 10 tonn hvað þetta varðar, þar kemur að því að farið er að nota bátana í önnur verkefni en litlu bátana. Samkvæmt því mælingakerfi sem nú er notað eru bátar upp undir 9--10 tonnum orðnir það stórir að þeir geta þess vegna verið á dragnót og öðrum slíkum veiðum. Ég teldi því eðlilegt að láta þau stærðarmörk ráða því hvort bátar yrðu í smábátaflokki eða ekki, að miðað yrði við þessar hefðubundnu veiðar smábáta.

Mér finnst menn ekki hafa staðið vel að þessum málum. Mér finnst gæta ósamræmis í þessum tillögum. Mér er kunnugt um að þannig var litið á í sjútvn. að ekki væri mögulegt að stækka bátana eins og lögin lágu fyrir. Þegar í ljós kom að skilningur ráðuneytisins var að hægt væri að stækka þá og ráðuneytið lagði til að þessi breyting yrði gerð á lögunum, að gengið yrði frá því að ekki væri hægt að stækka bátana upp fyrir 6 tonn, þá snýst sjútvn. við í málinu og leggur til sérstaka breytingu á þessari tillögu svo hægt yrði að gera það sem hún taldi áður ekki hægt eins og lögin lágu fyrir. Mér finnst þetta svolítið sérkennilegt og finn ekki á því aðra skýringu en þá að á bak við búi einhver hugmynd um að tilteknir aðilar eða hópur fái möguleika til að nýta sér breytinguna. Ég hef áhyggjur af því að þarna sé opnaður farvegur fyrir það að sprengja smábátakerfið í loft upp og koma í veg fyrir að hægt verði að breyta reglum um það í framtíðinni.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál eða ræða um önnur mál í tengslum við það í þetta skipti nema tilefni gefist til og læt því lokið máli mínu, hæstv. forseti.