Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 15:43:21 (7218)

2000-05-09 15:43:21# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti ehf.- og viðskn. en að því nál. standa ásamt mér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson. Þegar við komum til þings í haust hélt ég að þetta mál sem við erum að fjalla um hefði átt að verða eitt af stærstu málum þingsins og við hefðum metnað og burði til að afgreiða trausta löggjöf sem tryggði bærilega og stuðlaði að traustari og heilbrigðari viðskiptaháttum í fjármálaviðskiptum og verðbréfamarkaði en verið hefur. Því er ekki að heilsa, herra forseti, þegar þetta mál er komið til 2. umr.

Ég hafði einnig vonast til þess, herra forseti, að svo hefði getað orðið miðað við viðbrögð hæstv. viðskrh. þegar hún tók við embætti sínu sem ráðherra viðskiptamála. Þá höfðu einmitt komið upp ákveðin tilvik á verðbréfamarkaðinum sem raunar hafa komið reglubundið upp. Hæstv. ráðherra brást nokkuð hart við og taldi að setja þyrfti stranga löggjöf varðandi ákveðna þætti í lög um verðbréfaviðskipti, ekki síst það sem sneri að innherjaviðskiptum og meðferð trúnaðarupplýsinga.

[15:45]

Ég held að hægt sé að segja um þetta frv. sem formaður efh.- og viðskn. hefur mælt fyrir og þurfti stuttan tíma til, að fjallið hafi tekið jóðsótt og lítil mús fæðst. Þetta frv. er afar máttlaust og veikburða og tekur að litlu leyti á þeim vandamálum sem upp hafa komið á verðbréfamarkaðnum. Ég held að þrátt fyrir góð fyrirheit hæstv. ráðherra þá stöndum við frammi fyrir löggjöf sem er afar máttvana.

Reyndar er það svo að meiri hluti efh.- og viðskn. vísar veigamiklum atriðum sem snerta verðbréfaviðskipti til viðskrh. á nýjan leik, gefst raunverulega upp við það verkefni að setja hér burðug lög um verðbréfamarkaðinn.

Herra forseti. Mér eru það afar mikil vonbrigði að svona skuli hafa farið. Mér fannst ég skynja það í starfi nefndarinnar að fullur vilji væri fyrir því að taka á þessu máli. Mér finnast satt að segja þau rök sem meiri hluti hv. efh.- og viðskn. hefur teflt fram fyrir því að fresta mikilvægum þáttum þessa máls afar haldlaus. Ég held að í reynd stöndum við frammi fyrir því að minni hluti nefndarinnar, sem flytur hér brtt. við frv. með það að markmiði að hafa leikreglur um verðbréfamarkaðinn traustari og heilbrigðari, hafi meira traust á ráðherranum. Við teljum að hún geti útfært þau reglugerðarákvæði sem hæstv. ráðherra yrðu falin samkvæmt brtt. okkar, öfugt við meiri hlutann.

Ég held að það sem haldið er fram af meiri hlutanum og kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar sé ekki haldbært, að það þurfi ríkari lagastoð fyrir ákvæðum sem setja þarf um innherjaviðskipti, sérstaklega fruminnherja, og meðferð trúnaðarupplýsinga vegna þess að í vinnu nefndarinnar hefði einfaldlega verið hægt að skjóta lagastoð undir slík ákvæði. Þannig er enginn vafi á að þau mundu standast lög, ákvæðin sem hæstv. ráðherra hefði síðan þurft að útfæra í reglugerð.

Hv. formaður nefndarinnar vísar hér til dómstólanna og segir að vafasamt hafi verið að setja lög þar sem reglugerðarákvæðum er vísað til ráðherra. En það heldur ekki vegna þess að við hefðum auðvitað getað sett þá lagastoð undir þau reglugerðarákvæði, eins og við í minni hlutanum gerum reyndar í brtt. okkar.

En ákvæði þessa frv. taka á nokkrum þáttum og eru vissulega til bóta þó að mörg mikilvægustu ákvæðin séu skilin eftir. Þau taka fyrst og fremst á menntunarkröfum sem gerðar eru til starfsmanna fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og hjá lánastofnunum, breytingu á starfsábyrgðartryggingu, uppgjörum vegna afleiðusamninga og aðskilnaði einstakra starfssviða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og verklagsreglum honum tengdum, þ.e. svokölluðum kínamúrum. Með þessum ákvæðum er vissulega sýnd ágætis viðleitni en þau ganga afar skammt.

Við tökum vissulega undir og munum styðja þau ákvæði í frv. sem lúta að því að auka menntunarkröfur starfsmanna og leggja þær skyldur á fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem felast í aðskilnaði einstakra starfssviða fyrirtækjanna og skýrari reglum um eigin viðskipti þeirra. Hins vegar er alveg ljóst, herra forseti, að ekki er tekið á þeim vanda sem upp hefur komið og snertir m.a. innherjaviðskipti og meðferð trúnaðarupplýsinga en einmitt þessir mikilvægu þættir verðbréfaviðskiptanna hafa grafið undan trausti fólks á fjármálafyrirtækjum. Brýnt væri að setja í lög ákvæði sem treystu þessa þætti, þ.e. innherjaviðskipti og meðferð trúnaðarupplýsinga, þar sem afar slæmt er --- það vita allir sem til verðbréfamarkaðarins þekkja --- ef fólk missir traustið á fjármálamarkaðnum.

Ég vil í stuttu máli fara yfir það sem gagnrýnt hefur verið, herra forseti.

Gagnrýnt hefur verið að stjórnendur eða starfsmenn fjármálafyrirtækja nýti sér með óeðlilegum hætti upplýsingar í eiginhagsmunaskyni sem aðrir hafa ekki aðgang að. Mikil hætta er á hagsmunaárekstrum innan verðbréfafyrirtækja sem bæði stýra eignasöfnum viðskiptavina og eiga viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning. Einnig hafa verið gagnrýnd viðskipti starfsmanna með óskráð verðbréf og þátttaka þeirra í útboðum sem fyrirtækið hefur umsjón með. Þetta hlýtur að hljóma kunnuglega í eyrum þeirra sem fylgst hafa með þeim skakkaföllum, ég vil orða það svo, herra forseti, sem menn hafa orðið fyrir á verðbréfamarkaðnum. Einmitt þessum þáttum á nú að slá á frest og á þeim er ekki tekið í frv.

Ýmsir aðilar á markaðnum, fyrir utan stjórnmálamenn ýmsa og stjórnmálaflokka --- ég nefni hér sérstaklega til leiks Samfylkinguna --- sem hafa kallað eftir því að Alþingi manni sig upp í að setja trausta löggjöf um verðbréfamarkaðinn. En aðilar eins og Fjármálaeftirlitið, sem hefur eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum á verðbréfamarkaði, hefur jafnframt ítrekað óskað eftir slíkri lagasetningu. Í tillögum okkar í minni hlutanum er vissulega komið til móts við sjónarmið Fjármálaeftirlitsins. Fleiri, t.d. Verðbréfaþing, hafa kallað eftir traustari leikreglum varðandi þá þætti sem ég nefndi hér og mun fara nánar yfir í máli mínu á eftir.

Ég bendi á, herra forseti, að Verðbréfaþing gaf raunar út yfirlýsingu í tengslum við mál sem upp kom í Búnaðarbankanum fyrr í vetur og kallaði eftir ákveðnum reglum og nefndi að nauðsynlegt væri að setja skýrari ákvæði í lög og reglur um framkvæmd útboða um viðskipti umsjónaraðila, innherja og starfsmanna með bréf í tengslum við útboð, svo og um viðskipti hlutafélaga með eigin bréf, en í umsögn Verðbréfaþings með þessu frv. eru gerðar athugasemdir vegna IV. kafla laganna sem fjallar um meðferð trúnaðarupplýsinga. Þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Að mati Verðbréfaþings er æskilegt að bæta við 27. gr. laganna heimild til ráðherra um að setja nánari reglur um framkvæmd viðskipta fruminnherja, m.a. um takmarkanir á viðskiptum, tilkynningar viðskipta innherja og birtingu þeirra, tilgreiningu aðila sem teljast til fruminnherja og birtingu lista yfir þá. Með fruminnherja er um að ræða aðila eins og stjórn, helstu stjórnendur og lykilstarfsmenn, endurskoðendur og ráðgjafa, svo sem lögfræðinga og starfsmenn verðbréfafyrirtækja.``

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins kom fram að eftirlitið teldi æskilegt að styrkt yrði ákvæði laga um verðbréfaviðskipti varðandi takmarkanir á viðskiptum, tilkynningar um viðskipti og birtingu þeirra, tilgreiningu aðila og birtingu lista yfir þá. Jafnframt lagði Fjármálaeftirlitið til að ábyrgð fyrirtækja í verðbréfaþjónustu yrði aukin varðandi bann við milligöngu þar sem grunur leikur á broti á reglum um meðferð trúnaðarupplýsinga. En það er einmitt á þessum þáttum sem minni hlutinn tekur í nál. sínu og ekki síst í brtt. sínum.

Það er athyglisvert að Verslunarráð Íslands hefur lagt til mjög ákveðna og skýra breytingu sem ég tel afar mikilvæga til að koma á góðum og skýrum leikreglum á verðbréfamarkaðnum. Þær hugmyndir þjóna almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum. Það er kannski ekki mjög oft sem ég tek undir tillögur þeirra í Verslunarráði en í þessu tilviki tökum við í minni hlutanum upp tillögu þeirra. Þeir leggja til að skýrt verði kveðið á um að hver einstök viðskipti stjórnenda starfsmanna og maka væru, eftir því sem við ætti, samþykkt fyrir fram af viðkomandi yfirmanni.

Af hverju skyldi þetta nú vera lagt til, herra forseti? Það er til þess að ábyrgð yfirmanna sé skýr í þessu efni. Þá fer ekki á milli mála að yfirmaðurinn ber ábyrgð á þeim viðskiptum sem starfsmenn hans taka þátt í og að þau séu í samræmi við lög og reglur en á það hefur skort.

Í þessu sambandi vil ég nefna að Fjármálaeftirlitið sendi ekki alls fyrir löngu frá sér frétt vegna verklagsreglu um verðbréfaviðskipti. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Fjármálaeftirlitið telur eðlilegt að verðbréfakaup sem fela í sér brot á verklagsreglum verði látin ganga til baka þar sem því verður við komið ...``

Þar er Fjármálaeftirlitið að fjalla um niðurstöðu á athugun sinni á broti á verklagsreglum hjá sex fyrirtækjum, sem hv. þm. þekkja frá því í vetur. Fjármálaeftirlitið hafði beint athugasemd til stjórna sex fjármálafyrirtækja vegna framkvæmda á reglunum en athugasemdirnar vörðuðu brot á reglum um bann við viðskiptum starfsmanna með óskráð bréf og eftir atvikum öðrum ákvæðum viðkomandi verklagsreglna. Fjármálaeftirlitið fól stjórnum þessara fyrirtækja að taka málið til frekari athugunar, tryggja úrbætur og leggja mat á aðgerðir að öðru leyti. Fjármálaeftirlitið óskaði eftir sjónarmiðum og skýringum stjórnanna vegna málsins.

[16:00]

Fjármálaeftirlitinu höfðu borist skýringar stjórna þessara fyrirtækja og það kemur fram í frétt frá Fjármálaeftirlitinu að það hafi í framhaldi af því fært fram frekari sjónarmið og eftir atvikum beint frekari athugasemdum til einstakra fyrirtækja. Meðal þess sem Fjármálaeftirlitið tók til athugunar var hvernig fara skuli með óskráð verðbréf sem starfsmenn keyptu í andstöðu við ákvæði gildandi verklagsreglna. --- Mér hefði nú þótt nokkuð fróðlegt, herra forseti, að hafa hæstv. viðskrh. viðstaddan hér til að heyra viðbrögð hennar við þessari yfirlýsingu eða frétt frá Fjármálaeftirlitinu, sem er niðurstaða þeirra varðandi þetta brot á verklagsreglum um verðbréfaviðskipti.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. viðskrh. er í húsinu og forseti mun senda henni boð um að koma til fundarins.)

Ég þakka fyrir það. Þá mun ég aðeins bíða með að klára að fara yfir þetta bréf. En það tengist einmitt því sem Verslunarráðið er að leggja til, þ.e. skýrari yfirmannaábyrgð að því er varðar verðbréfaviðskipti og þeir segja að það sé mikilvægt að ábyrgðin liggi ljós fyrir í þessu efni.

Ég vil rifja það upp og halda því til haga að Verslunarráðið hefur sent frá sér afar gagnlegar tillögur í skýrslu sem kynnt var nýverið, bæði varðandi innherjaviðskipti og tilkynningarskyldu þeirra, ákvæði um upplýsingagjöf vegna skýldrar eignar og birtingu uppgjöra. Meiri hluti efh.- og viðskn. telur málið greinilega ekki það brýnt að á því þurfi að taka og vísar helstu athugasemdum sem fram hafa komið frá Fjármálaeftirlitinu, Verðbréfaþinginu og Verslunarráði til viðskrh. Það er nokkuð sérstakt að hv. formaður nefndarinnar, sem ég man eftir að hafa tjáð sig opinberlega um að slík yfirmannaábyrgð þyrfti að vera skýr og ljós, skuli ekki hafa getað fallist á að bæta þessu ákvæði við upptalninguna sem er í 8. gr. frv., herra forseti, en þar hefði átt að bæta við því atriði, þ.e. yfirmannaábyrgð gagnvart kaupum starfsmanna á verðbréfum eða hlutabréfum. Þar er einmitt talað um að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli vegna eigin viðskipta með verðbréf sem þeim eru falin til sölu og vegna viðskipta eigenda virkra eignarhluta, stjórnenda, starfsmanna og maka framangreindra aðila meðal annars gæta atriða, sem þar eru síðan talin upp. Þar hefði þessi yfirmannaábyrgð vel getað fallið inn. Og það eru ekki rökin, herra forseti, sem hv. formaður og meiri hluti nefndarinnar teflir fram að verið sé að vísa einhverjum óljósum reglugerðarákvæðum til ráðherra vegna þess að þarna hefði verið hægt að hafa algjörlega skýra lagastoð í þessu efni og engin rök fyrir því að verið sé að setja ákvæði sem ekki hafa trausta lagastoð. Þetta er einmitt mjög mikilvægur þáttur sem ýmsir aðilar hafa bent á, m.a. Verslunarráðið.

Ég fagna því að hæstv. viðskrh. skuli vera komin í salinn en ég hafði hug á því að heyra sjónarmið ráðherrans á frétt frá Fjármálaeftirlitinu sem er dagsett 25. febrúar sl. þar sem Fjármálaeftirlitið er að gera grein fyrir niðurstöðum sínum varðandi framkvæmd verklagsreglna um verðbréfaviðskipti hjá þeim sex fyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið var með til skoðunar. Þar kemur fram, og ég ætla að vitna orðrétt í þær, með leyfi forseta:

,,Fjármálaeftirlitið telur eðlilegt að verðbréfakaup sem fela í sér brot á verklagsreglum verði látin ganga til baka þar sem því verður við komið.``

Það er auðvitað óásættanlegt fyrir þingið og fyrir verðbréfamarkaðinn að síðan sé ekkert vitað meira um þetta. Fjármálaeftirlitið hefur gefið út álit sitt, þ.e. að þessi viðskipti eigi að ganga til baka þar sem því verður við komið. Og hver er það sem á þá að vera í forustu fyrir því að kanna það að þau viðskipti verði látin ganga til baka og að það sé sérstaklega skoðað? Mér finnst óásættanlegt að skilja málið bara eftir í slíkum farvegi.

Síðan segir Fjármálaeftirlitið, með leyfi forseta:

,,Í því sambandi kann að þurfa að taka tillit til þess hvort viðskiptin hafi átt sér stað með samþykki stjórnenda viðkomandi fyrirtækis.``

Þarna komum við akkúrat að því atriði sem við í minni hlutanum höfum lagt áherslu á að verði sett í lög, að yfirmannaábyrgð sé skýr. Það er fráleitt, eins og meiri hlutinn skýlir sér á bak við, að verið sé að vísa þessu í reglugerð vegna þess að hægt hefði verið að hafa skýran lagatexta varðandi þetta ákvæði. Við höfum lent í vandamálum út af því að þetta er ekki skýrt og ég spyr: Hví í ósköpunum erum við að fjalla hér um og afgreiða löggjöf um verðbréfaviðskipti og skilja þetta mikilvæga mál eftir? Þetta er alveg óháð því sem meiri hlutinn er að vísa aftur til viðskrh. af því það þurfi að skoða þetta betur því ekki sé hægt að skilja þetta eftir og afgreiða þetta í reglugerð.

Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að við í minni hlutanum höfum gert heiðarlega tilraun til að styðja vel við bakið á ráðherranum í þessu efni og styðja sjónarmið hennar sem komu fram þegar hún settist í stól ráðherra, að setja skýra og trausta löggjöf um verðbréfamarkaðinn, hvort hæstv. ráðherra getur þá ekki stutt tillögu okkar sem felur einmitt í sér ákvæði um að yfirmannaábyrgðin sé skýr í þessu efni.

Áfram segir síðan hjá Fjármálaeftirlitinu:

,,Fjármálaeftirlitið tekur sérstaklega fram að það telur óeðlilegt að stjórnendur lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og þeir sem bera ábyrgð á framkvæmd verklagsreglna innan þeirra njóti hagnaðar af þeim viðskiptum sem þeir kunna að hafa átt og ekki samræmast gildandi verklagsreglum.``

Af hverju, herra forseti, er Fjármálaeftirlitið að taka það fram að það telji óeðlilegt að þeir sem ábyrgð bera á framkvæmd verklagsreglna innan þeirra, þ.e. lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, njóti hagnaðar af þeim viðskiptum sem þeir kunna að hafa átt og ekki samrýmist gildandi verklagsreglum? Það er vegna þess að það liggur þá ljóst fyrir að þeir aðilar hafi notið hagnaðar sem ekki samræmist gildandi verklagsreglum og það er það sem Fjármálaeftirlitið er að kalla eftir. Verða slík viðskipti látin ganga til baka? Og hver er þá hlutur hæstv. viðskrh. í því að það verði skoðað og þau viðskipti verði látin ganga til baka?

Hæstv. ráðherra hefur væntanlega kynnt sér það sem ég spurði hæstv. ráðherra um við 1. umr. málsins en ráðherrann gat þá ekki svarað. Ég spyr því, vegna þess að nú hefur Fjármálaeftirlitið lokið athugun sinni á þessum sex fjármálafyrirtækjum: Hvert var umfang þeirra ólöglegu viðskipta sem áttu sér stað hjá þessum fyrirtækjum á verðbréfamarkaði? Það er óásættanlegt að skilja málið eftir með þessum hætti eins og mér virðist eiga að gera. Ráðherrann hlýtur að vita, hvert var umfang ólöglegra viðskipta hjá þessum sex verðbréfafyrirtækjum.

Og síðan segir Fjármálaeftirlitið, með leyfi forseta:

,,Fjármálaeftirlitið mun í framhaldi af athugun þessari taka til nánari skoðunar tiltekin atriði í starfsemi nokkurra fyrirtækja og meðal annars meta hæfi og ábyrgð stjórnenda og þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd verklagsreglnanna.``

Herra forseti. Ekki er betur hægt að lesa í þetta en að dregið sé í efa hæfi og ábyrgð stjórnenda og þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd verklagsreglna og ber því auðvitað að fagna því að á því er þó tekið í frv. hæstv. ráðherra að menntunarkröfur séu auknar hjá þeim sem starfa við verðbréfafyrirtæki.

Og síðan segir aftur, herra forseti:

,,Fjármálaeftirlitið ítrekar í þessu sambandi að ábyrgð á framkvæmd verklagsreglnanna hvílir á stjórnum viðkomandi fyrirtækja. Það er jafnframt þeirra að tryggja viðunandi lyktir málsins og standa vörð um trúverðugleika fyrirtækjanna.``

Merkja þessi síðustu orð Fjármálaeftirlitsins að það séu þá yfirmenn viðkomandi fjármálafyrirtækja sem hafa brotið verklagsreglurnar sem eiga að ganga eftir því að þessi viðskipti verði látin ganga til baka? Hæstv. ráðherra hefur væntanlega kynnt sér vel og ítarlega þessa niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins sem er nú orðin nokkuð gömul, síðan 25. febrúar. Mér finnst því ástæða til að hæstv. ráðherra svari þessu.

Ég vil nefna það sem ég sagði áðan að ég veit að hæstv. ráðherra hefur vissulega vilja til að taka á þessu máli en meiri hlutinn vísar málinu aftur til viðskrh. og teflir því fram að ekki sé nægjanleg lagastoð fyrir þeim reglugerðarheimildum sem átti að færa ráðherra með þessu frv. Meiri hlutinn gengur meira að segja svo langt að hann samþykkti ekki þær brtt. sem komu frá ráðuneytinu, sem gengu heldur lengra en frv. gerir ráð fyrir til þess að taka t.d. á meðferð trúnaðarupplýsinga og fruminnherjaviðskiptum, og fellir niður 7. gr. í frv. ráðherrans sem fjallar um almennt útboð verðbréfa og hvernig með skuli farið. Hann fellir þetta hreinlega niður.

Ég verð að segja, herra forseti, af því að þetta ákvæði felur reyndar það í sér varðandi almennt útboð að hæstv. ráðherra eigi að útfæra það nánar í reglugerð, bæði gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs, tilkynningar um almennt útboð, reglur um fyrsta söludag almennra útboða og tilkynningar verðbréfafyrirtækja og annarra aðila, sem hafa milligöngu um almennt útboð, um heildarsölu verðbréfa í almennu útboði o.s.frv., að sagt er í frv. hæstv. ráðherra akkúrat um þessa grein að þetta ákvæði sé afar brýnt sem meiri hlutinn vill núna fella út.

Herra forseti. Minni hlutinn virðist treysta hæstv. ráðherra betur en meiri hlutinn vegna þess að minni hlutinn er þó í brtt. sínum að vísa ákveðnum atriðum til ráðherra sem hæstv. ráðherra er falið að útfæra en þó eru settar frekari lagastoðir undir ýmis ákvæði sem voru óljós eins og t.d. um eignarhaldstíma á verðbréfum í fruminnherjaviðskiptum. Það er nokkuð sérstakt að minni hlutinn treysti hæstv. viðskrh. betur en meiri hlutinn. Það ætti að vera ákveðið umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra.

Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að hún hefur bæði tjáð sig um það fyrir utan þinghúsið, hér í þingsal og í svari við fsp. að hún telji að það komi vel til greina, og ég hef aldrei skilið orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo en að hún telji nauðsynlegt að settur sé ákveðinn eignarhaldstími á bréf í innherjaviðskiptum, en á því er ekki tekið. Á því er tekið í tillögum minni hlutans með því að hæstv. ráðherra er fengin reglugerðarheimild til að setja einmitt reglur um eignarhaldstíma bréfa og er miðað við allt að sex vikna eignarhaldstíma, ef ég man þetta rétt, þannig að lagastoðin er þarna komin. Þetta var einmitt ákvæði sem meiri hlutinn óttaðist mest, að það stæðist ekki að vera að vísa til ráðherra ákvæðinu sem snertir eignarhaldstíma sem ekki hefði lagastoð. En minni hlutinn hefur auðvitað séð við þessu og setur hér ákveðna lagastoð undir þetta.

[16:15]

Mér finnst satt að segja, herra forseti, að hæstv. ráðherra eigi frekar að hallast að tillögum minni hlutans en meiri hlutans í þessu efni. Mér virðast tillögur minni hlutans falla miklu betur að því sem hæstv. ráðherra hefur sagt. Þegar til kastanna kemur virðist þó sem hæstv. ráðherra sé að renna á rassinn eða hafi a.m.k. ekki stjórnarliða á bak við sig til að fylgja eftir því sem hæstv. ráðherra hefur sagt opinberlega.

Mig langar, herra forseti, af því að ég tel mig vera ágætan bandamann hæstv. viðskrh. varðandi verðbréfamarkaðinn og hvernig á að taka á honum, að nota tækifærið til að fullvissa hæstv. ráðherra um að hún á sér líka trausta bandamenn í minni hlutanum að því er varðar samkeppnislöggjöfina, að því er varðar frv. um breytingu á samkeppnislöggjöfinni. Þar virðist hæstv. ráðherra, líkt og í verðbréfaviðskiptunum, eiga sér traustari bandamenn og stuðning í minni hlutanum, í stjórnarandstöðunni, en hjá meiri hlutanum. Reyndar er það svo, herra forseti, að við höfum oft varað við því í hvaða selskap Framsfl. er með Sjálfstfl. En samkvæmt upplýsingum sem fram komu í morgun virðist sem hörð átök séu um þessi samkeppnislög milli stjórnarflokkanna, ekki milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þó að það sé kannski líka, heldur aðallega milli stjórnarflokkanna. Hér er reyndar sagt að formaður efh.- og viðskn., sem stýrir því verki að koma þessu frv. ráðherrans í höfn, sé fullur efasemda um málið.

Í mínum huga, herra forseti, af því að Samfylkingin hefur flutt nokkur mál sem snerta fjármálamarkaðinn og leikreglur í atvinnulífi á fjármálamarkaðnum, bæði varðandi Fjármálaeftirlitið og siðareglur á fjármálamarkaði, þá er samkeppnislöggjöfin og það sem henni tengist langmikilvægust í þessu efni og það sem brýnast er að ná fram. Ég tel breytingar á samkeppnislöggjöfinni, miðað við þá fákeppni sem ríkir í stórum atvinnugreinum á vinnumarkaðnum og nú síðast á matvörumarkaðnum, eitt stærsta mál þingsins í vetur. Að mínu viti er mikilvægast fyrir viðskiptalífið og atvinnumálin að ná fram breytingum á samkeppnislöggjöfinni. Ef fram heldur sem horfir, það stefnir í að ljúka þessu þingi næstkomandi fimmtudag, fer hver að verða síðastur að ná þessu frv. fram. Því væri gott að fá afstöðu hæstv. ráðherra til þessa máls í umræðunni. Það hlýtur að líða að því núna, þegar við erum komin hér á þriðjudegi, að stjórnarandstaðan í efh.- og viðskn. fari að óska eftir fundi í efh.- og viðskn. til að taka fyrir þetta mál sem meiri hlutinn ætlar greinilega að láta brenna hér inni og ábyggilega í óþökk ráðherrans. Þessu vildi ég halda til haga þegar við ræðum um verðbréfamarkaðinn.

Í grein í Degi, herra forseti, segir beinlínis:

,,Frv. er enn til meðferðar í efh.- og viðskn. og óvíst hvenær það verður afgreitt úr nefndinni vegna andstöðu sjálfstæðismanna. Verði frv. að lögum fá samkeppnisyfirvöld auknar heimildir til að takmarka samruna og hringamyndanir fyrirtækja.``

Er nokkuð eðlilegra en að samkeppnisyfirvöld fái auknar heimildir til að takmarka samruna og hringamyndanir fyrirtækja? Það má Sjálfstfl. greinilega ekki heyra. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Það er þyrnir í augum margra sjálfstæðismanna, stórfyrirtækja og þeirra sem hagsmuna hafa að gæta á fjármálamarkaði og matvælamarkaði og víðar í efnahagslífinu. Af einstökum aðilum hefur andstaðan einna mest verið innan Verslunarráðs Íslands en framkvæmdastjóri þess, Vilhjálmur Egilsson, er jafnframt formaður efh.- og viðskn. Alþingis.``

Síðan segir síðar í þessari grein, með leyfi forseta:

,,Þá gætir einnig verulegrar tortryggni hjá sjálfstæðismönnum og stjórnendum margra stórfyrirtækja út í Samkeppnisstofnun. Af þeim sökum vilja þeir ekki ljá máls á því að samkeppnisyfirvöld fái aukið vald til að koma í veg fyrir hagræðingu.``

Hvers vegna í ósköpunum skyldi það vera að það ríki einhver tortryggni margra stórfyrirtækja gagnvart Samkeppnisstofnun? Það er vegna þess að Samkeppnisstofnun hefur verið að sinna skyldum sínum og ekki nokkurn skapaðan hlut annað. Það þola þessi stórfyrirtæki ekki sem þrífast auðvitað best í skjóli fákeppni og einokunar. En þessu vildi ég halda til haga til þess að minna hæstv. ráðherra á að hann á góða vini í stjórnarandstöðunni.

Það er líka umhugsunarefni, af því að verið er að vísa málinu aftur til hæstv. ráðherra: Hverjir eru það sem eiga að vinna frv. með ráðherranum? Það væri fróðlegt að vita það við þessa umræðu. Meiri hlutinn kallar eftir því að unnið verði að því í sumar og fram á haust að setja ný ákvæði í löggjöfina um verðbréfamarkaðinn að því er varðar meðferð trúnaðarupplýsinga og innherjaviðskipti. Hverjir munu koma að því verki? Það er nefnilega töluvert áhyggjuefni að það skuli vera eftirlitsskyldu aðilarnir sjálfir, fyrirtækin á verðbréfamarkaðnum, sem ég hef grun um að muni koma að því verki. Þeir hafa komið mjög náið að þeirri löggjöf sem sett hefur verið um verðbréfamarkaðinn og um Fjármálaeftirlitið og verulegt tillit verið tekið til þeirra skoðana. Að mínu viti hefur sumpart verið gengið of langt í því efni að fara að tillögum og sjónarmiðum eftirlitsskyldra aðila. Í því sambandi nefni ég sérstaklega t.d. löggjöfina um Fjármálaeftirlitið, að þar skuli hagsmunaaðilarnir sjálfir, sem Fjármálaeftirlitið á að hafa eftirlit með, koma að verki. Ég tel það umhugsunarefni ef það er líka svo varðandi þessa löggjöf um verðbréfamarkaðinn að þeir sem eiga hagsmuna að gæta eigi að ráða ferðinni um hvernig reglur við setjum um verðbréfamarkaðinn. Því væri fróðlegt, herra forseti, að heyra hvernig hæstv. ráðherra hyggst standa að þeirri vinnu sem stendur fyrir dyrum ef farið verður að tillögu meiri hlutans.

Ég vil, herra forseti, í framhaldi af inngangi mínum í þessum málum fara aðeins yfir þau ákvæði sem minni hlutinn leggur áherslu á. Eins og ég nefndi er lítið tekið á innherjaviðskiptum og það vantar skilgreiningu á því hverjir eru innherjar. Á því tökum við einmitt í brtt. okkar. Það er akkúrat, svo ég vitni nú enn einu sinni í það því það er svo sjaldan sem ég tek upp tillögur Verslunarráðsins, það sem Verslunarráðið sagði í skýrslu sinni frá því í febrúar í vetur, að skilgreina þurfi betur innherja og tilkynningarskyldu þeirra. Verslunarráðið leggur til að meiri vinna verði lögð í að skilgreina hvaða hópur telst vera innherjar og hvernig tilkynningarskyldu innherja verði háttað. Þetta kom fram í skýrslu ráðsins til Viðskiptaþings.

Einnig vantar skýrar verklagsreglur, eins og við höfum komið inn á, um aðgang starfsmanna sem búa yfir trúnaðarupplýsingum að kaupum á hlutabréfum í fyrirtækjum og hvort og þá hvernig þeir mega sjálfir koma að útboðum sem eru í gangi á hlutabréfum í fyrirtækjum sem þeir vinna hjá. Þetta er mikið kjarnaatriði í þessum málum. Satt að segja trúði ég varla að það ætti ekki að taka á því í þessu frv. Hvenær mega þeir koma að útboðunum? Þetta eru aðilar sem búa yfir ákveðnum trúnaðarupplýsingum og mikilvægt er að það liggi skýrt fyrir hvenær þeir mega koma að útboðunum.

Síðan vantar að 7. gr. frv., sem meiri hlutinn leggur að vísu til að falli brott, taki til lokaðra útboða, m.a. um hvernig staðið skuli að upplýsingum og kynningu slíkra bréfa. Á því var að vísu ekki heldur tekið í frv. ráðherrans. Ég vænti þess að meiri hlutinn leggi áherslu á að einnig verði tekið á því í þeirri vinnu sem fram á að fara vegna þess að vantar mjög skýrar reglur um hvernig á að fara með lokuð útboð.

Við nefnum hér, þó að það eigi heima í ákvæðum laga um kauphallir, 26. gr. þeirra laga, að ákvæði vanti um upplýsingagjöf vegna skýldrar eignar. Þar minnum við einmitt á þegar eignarhaldsfélag Orca-hópsins neitaði að gefa upplýsingar um hverjir væru eigendur félagsins. Síðan nefnum við einnig að ástæða sé til að að taka á viðskiptum verðbréfafyrirtækjanna sjálfra fyrir eigin reikning. Við leggjum til í brtt. okkar að hæstv. ráðherra fái heimild til þess að taka á því máli.

Því hefur nú einmitt verið haldið fram af ýmsum sem þekkja til á verðbréfamarkaðnum að á því máli þurfi að taka, ekki sé eðlilegt að verðbréfafyrirtæki sem sýsla með eignasöfn viðskiptavinanna standi sjálf í miklum viðskiptum fyrir eigin reikning. Sumir telja meira að segja og ganga svo langt, sem mér finnst nú töluvert vera til í, að slíkt fyrirkomulag, að það sé algjörlega óheft hvað þessi fyrirtæki geta verið með mikil viðskipti fyrir eigin reikning, geti haft óæskileg áhrif á verðmyndun bréfanna.

Ávallt þegar þetta er nefnt og aðrir þættir er vísað til þess sem kemur fram í þessu frv., sem er alveg gott og gilt og við munum auðvitað styðja í minni hlutanum, hinna svokölluðu kínamúra. Ef ráðherrann kemur upp í þennan ræðustól veit ég að hún mun vísa mikið í ákvæði frv. sem fjallar um aðskilnað einstakra starfssviða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, um að þau verði gerð skýrari og verklagsreglur um eigin viðskipti þeirra sem og eigenda þeirra, stjórnenda, starfsmanna og maka, verði gerð ítarlegri. En við teljum það ekki nægilegt og viljum veita ráðherranum svigrúm til að geta sett reglur um þetta efni.

[16:30]

Það kom fram í blaðagrein eða úttekt nýlega --- mér sýnist þetta vera Morgunblaðið --- að verið var fara yfir dönsku lögin um verðbréfaviðskipti en þar er að finna sérstök ákvæði um viðskipti yfirmanna í fyrirtækjum með verðbréfaþjónustu fyrir eigin reikning. Ég held að dönsku lögin séu löggjöf sem við ættum að skoða vel og taka okkur til fyrirmyndar í ákveðnum efnum. Hér segir einmitt um þetta atriði:

,,Trúlega mundu dönsk yfirvöld líta svo á að innherjaviðskipti yfirmanna verðabréfafyrirtækja, sambærileg við þau sem fjórmenningarnir í Búnaðarbankanum stunduðu, séu spákaupmennska samkvæmt ákvæðum laganna og brjóta þar með gegn lögunum. Eflaust er þetta þó háð mati hverju sinni t.d. út frá því hve mikil fjárfestingaráætlun er og hvort kaupin eru fjármögnuð með lánsfé eða eigið fé viðkomandi yfirmanns.``

Síðan er vitnað einmitt í dönsku lögin, í 12. gr. verðbréfaviðskiptalaganna frá 1995, en þar segir að framkvæmdastjórum og aðstoðarframkvæmdastjórum, deildarstjórum og aðstoðardeildarstjórum í fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sé óheimilt að stunda spákaupmennsku með verðbréf fyrir eigin reikning. Einnig er sú skylda lögð á stjórnendur fyrirtækja að þeir setji reglur innan fyrirtækisins um hvaða öðrum starfsmönnum sé óheimilt að stunda spákaupmennsku. Að endingu er í greininni kveðið á um að danska fjármálaeftirlitið skuli setja nánari reglur um það hvenær um spákaupmennsku starfsmanna sé að ræða.

Ég tel því að sú heimild sem við í minni hlutanum erum hér að veita ráðherranum sé afar mikilvæg.

Það sem ég hef nefnt er allt mjög mikilvægt til þess að styrkja verðbréfamarkaðinn og auðvelda eftirlit með honum sem er nauðsynlegt til þess að eyða tortryggni og skapa traust á verðbréfamarkaðnum. En mér finnst satt að segja, herra forseti, að frv. í heild með breytingum meiri hlutans, sem flestar hverjar eru nú tæknilegar að mínu viti, virðast litlu breyta um skýrari, heilbrigðari og eðlilegri leikreglur á fjármálamarkaðnum en verið hefur því að mikilvægum ákvæðum er sleppt eins og ég hef margfarið inn á um innherjaviðskipti og meðferð trúnaðarupplýsinga.

Við flytjum því, herra forseti, brtt. í minni hlutanum en eins og ég sagði áður skipa hann hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þær snerta í 1. tölul. lokað útboð sem við teljum að þurfi að taka á í frv. Þær snerta, eins og ég nefndi áðan, að ráðherra geti með reglugerð, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins, takmarkað heimildir verðbréfafyrirtækja til að eiga viðskipti fyrir eigin reikning. Þær kveða á um að almennt útboð verðbréfa, annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla, skuli fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja skv. 8. gr. eða annarra aðila sem til þess hafa heimild í lögum. Þær kveða á um að óheimilt sé að bjóða almenningi til kaups verðbréf sem falla undir grein þessa, en hafa ekki verið boðin út í samræmi við ákvæði hennar. Jafnframt að í reglugerð sem ráðherra setur skuli kveða nánar á um almennt útboð verðbréfa, svo sem um gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs, tilkynningar um almennt útboð, reglur um fyrsta söludag almennra útboða og tilkynningar verðbréfafyrirtækja og annarra aðila sem hafa milligöngu um almennt útboð um heildarsölu verðbréfa í almennu útboði. Þá skuli ráðherra, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins, setja reglugerð um lokuð útboð, m.a. um skilyrði fyrir þeim, aðdraganda og framkvæmd þeirra og um heimildir til viðskipta með verðbréf sem boðin eru í lokuðu útboði.

Og þar vil ég, herra forseti, aðeins fara inn á umsögn Fjármálaeftirlitsins sem snertir almenn og lokuð útboð en þar segir, með leyfi forseta:

,,Markmið reglna um almennt útboð er m.a. að tryggja að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um útgefendur verðbréfa og verðbréf þau sem boðin eru almenningi til kaups. Ekki þykir rétt að fyrirtæki geti leitað til almennings um fjármagn nema að almenningur geti tekið upplýsta ákvörðun um þá fjárfestingu á grundvelli fullnægjandi gagna. Með öðrum orðum verður að tryggja að fyrirtæki sem leita til almennings um fjármögnun, veiti nauðsynlegar upplýsingar og beri ábyrgð á þeim gagnvart almennum fjárfestum.``

Með vísan til þess leggur Fjármálaeftirlitið til að kveðið verði á um það með beinum hætti í frv. að óheimilt sé að bjóða almenningi tiltekin verðbréf til sölu nema þau hafi verið kynnt almenningi með almennu útboði.

Ég hygg að með sölu á deCODE-bréfunum hafi einmitt verið nokkur misbrestur á því að almenningi hafi verið kynnt þau verðbréf sem þar voru til sölu með þeim hætti sem nauðsynlegt var enda vantaði reglur þar um og það er það sem Fjármálaeftirlitið er að kalla eftir.

Síðan leggja þeir til að hægt sé að styrkja ákvæði í 1. mgr. 7. gr. með nýjum málslið og þeir segja:

,,Óheimilt er að bjóða almenningi til kaups verðbréf sem falla undir grein þessa en hafa ekki verið boðin út í samræmi við ákvæði hennar.``

Síðan segir:

,,Það er hins vegar mikilvægt að fyrirtæki geti aflað sér fjár á verðbréfamarkaði án þess að þurfa að fara í almennt útboð. Það ferli getur verið þungt í vöfum fyrir mörg fyrirtæki. Þá getur verið að fyrirtæki séu ekki tilbúin til að veita þær upplýsingar sem nauðsynlegt þykir að veita í almennu útboði. Hér er aðstaðan sú að fyrirtækin leita til fjárfesta sem hafa mikið fjármagn með höndum og að sama skapi meiri reynslu og þekkingu á fjármagnsmarkaði. Ekki er því ástæða til að gera sömu kröfur til upplýsingaskyldu fyrirtækja við slíkar aðstæður, þar sem ekki er verið að bjóða almenningi bréfin.`` --- Þarna er lögð megináhersla á það atriði að ekki sé verið að bjóða almenningi bréfin. Síðan segir: ,,Það er hins vegar ljóst að bréf sem boðin eru út með þessum hætti mega ekki ná til almennings, hvorki við útboðið né á eftirmarkaði. Þetta helgast af því að almennt liggja ekki fyrir nauðsynlegar upplýsingar um fyrirtækið þannig að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir um fjárfestingu sína og dregið fyrirtækið eða aðra aðila til ábyrgðar vegna þeirra. Fjármálaeftirlitið leggur því til að bætt verði við nýrri skilgreiningu við 2. gr. frumvarpsins og nýrri málsgrein við 7. gr. sem fjalli um lokuð útboð og gæti verið svohljóðandi:

Lokað útboð: Sala samkynja verðbréfa sem boðin eru afmörkuðum hópi einstaklinga eða lögaðila til kaups í fyrsta sinn án almennrar og opinberrar auglýsingar eða kynningar sem jafna má til opinberrar auglýsingar.

Ráðherra skal setja reglugerð um lokuð útboð, m.a. um skilyrði fyrir þeim, aðdraganda og framkvæmd þeirra og um heimildir til viðskipta með verðbréf sem boðin eru í lokuðu útboði.``

Þetta er einmitt, herra forseti, ákvæði sem við í minni hlutanum tökum upp í tillögur okkar og það er ekki einu sinni að meiri hlutinn taki undir það að setja þetta inn í lög núna heldur er fallið frá því, eins og ég nefndi áðan, sem hæstv. ráðherra setti þó í frv. sitt að setja ákvæði um það sem ráðherrann nefndi í athugasemdum um greinina, að mjög brýnt væri að lögfesta. Það er einnig fallið frá þessu hjá meiri hlutanum. Hann dregur úr frv. ráðherrans en herðir þar alls ekki á, nema í einu atriði sem við fögnum. Þar er lagt til að í stað 7. gr. um almennt útboð sem á að falla brott verði aukin ábyrgð vegna banns við milligöngu varðandi verðbréfamiðlun. Það er, herra forseti, ákvæði sem er svohljóðandi:

,,Sama gildir varðandi vitneskju eða grun um að viðskipti brjóti gegn 30. gr.`` --- Og: ,,Vakni grunur skv. 1. mgr. skal fyrirtækið þegar í stað tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins.``

Þarna er verið að styrkja og auka ábyrgðina vegna banns um milligöngu vegna verðbréfamiðlunar. Þetta er raunverulega eina ákvæðið sem meiri hlutinn tekur upp til að styrkja frv. ráðherrans en fellir um leið brott 7. gr. og setur þessa í staðinn, þ.e. 7. gr. sem fjallaði um almenn útboð.

Síðan segir Fjármálaeftirlitið varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga og sýndarviðskipti, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu eru eins og áður segir ákvæði sem ætlað er að stuðla að auknum trúverðugleika á verðbréfamarkaði. Ákvæði þessi lúta að kínamúrum, verklagsreglum og menntunarkröfum.`` --- Hér er verið að vitna til þess sem er í frv. --- ,,Fjármálaeftirlitið telur hins vegar æskilegt að styrkt verði ákvæði laga um verðbréfaviðskipti hvað varðar meðferð trúnaðarupplýsinga.`` --- Ég veit að hæstv. ráðherra er þessu hjartanlega sammála en hæstv. ráðherra hefur bara ekki stuðning meiri hlutans til þess að þetta verði að lögum og hún geti unnið að því þegar í stað að setja reglugerð um meðferð trúnaðarupplýsinga sem gæti tekið gildi fljótlega. Og síðan segir Fjármálaeftirlitið: ,,Æskilegt er að stjórnvöldum verði veitt reglugerðarheimild þannig að nauðsynlegt svigrúm og sveigjanleiki sé fyrir hendi, enda mega slíkar reglur hvorki vera of veikar eða strangar. Því er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 27. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, svohljóðandi:

Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd greinar þessarar, m.a. um takmarkanir á viðskiptum, tilkynningar um viðskipti og birtingu þeirra, tilgreiningu aðila og birtingu lista yfir þá. Þá leggur Fjármálaeftirlitið til að ábyrgð fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði aukin varðandi bann við milligöngu þar sem grunur er um brot á reglum um meðferð trúnaðarupplýsinga.``

Þetta er niðurstaðan, herra forseti, sem við stöndum frammi fyrir hér við 2. umr. málsins að meiri hlutinn sýnir algjöra uppgjöf og vísar málinu aftur til föðurhúsanna, vísar málinu aftur til hæstv. ráðherra og vill fresta því fram á næsta þing. Það er auðvitað a.m.k. góð viðleitni sem fram kemur í þeim orðum formanns efh.- og viðskn. og kemur reyndar fram í nál. einnig að þegar í upphafi næsta þings verði slíkt frv. tilbúið sem taki á þeim ákvæðum sem við höfum verið að gagnrýna að vanti í þetta frv. og jafnvel er verið að tala um lögfestingu á þessum atriðum strax í október. Ef svo fer, herra forseti, að hæstv. ráðherra ætlar sér að halla sér að þeim sem ekki vilja styðja það, þ.e. meiri hlutanum en ekki að okkur í minni hlutanum og styðja tillögur okkar þá verður svo sannarlega eftir því gengið að það frv. komi fram strax í upphafi þings og verði sem fyrst gert að lögum.

En ég hef áður, herra forseti, af því að ég hef nokkra þingreynslu, heyrt slíkar frómar og góðar óskir þegar menn eru að ýta frá sér ábyrgð og vilja ekki takast á við vandamál og verkefni sem sett eru fyrir löggjafann og ýta málinu á undan sér, þá koma oft svona frómar áætlanir um að menn ætli þegar á næsta þingi að leggja fram frv. og lögfesta það. Ég held að reynslan muni sýna að einhver dráttur verður á því.

[16:45]

Herra forseti. Við leggjum síðan til, eins og ég nefndi, við upptalningu sem fram kemur í 8. gr. í frv. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ,,að hver einstök viðskipti stjórnenda, starfsmanna og maka séu, eftir því sem við á, samþykkt fyrir fram af viðkomandi yfirmanni.``

Þetta er tillaga sem orðrétt er tekin upp úr tillögum Verslunarráðsins sem hv. formaður efh.- og viðskn. hefur talað fyrir opinberlega. Ég spyr hv. formann nefndarinnar: Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að bæta þarna við nýjum tölulið sem tekur upp ákvæði sem Verslunarráðið og formaðurinn sjálfur hefur talað fyrir? Hér er ekki verið að vísa í reglugerð heldur er verið að tala um beina lagasetningu á þessu tiltekna ákvæði á 8. gr. sem nýjum tölulið. (VE: Þarf ekki lög.) Þarf ekki lög, segir hv. formaður nefndarinnar.

Var þetta framkvæmt þannig í þeim viðskiptum verðbréfafyrirtækja þar sem fram kom að verklagsreglur hefðu verið brotnar? Var yfirmannaábyrgðin skýr í þeim tilvikum? Í frétt frá Fjármálaeftirlitinu er verið að tala um brot á þessum verklagsreglum og ég ætla að vitna orðrétt í bréf Fjármálaeftirlitsins út af frammíkalli hv. þm.:

,,Í því sambandi kann að þurfa að taka tillit til þess hvort viðskiptin hafi átt sér stað með samþykki stjórnenda fyrirtækisins.``

Fjármálaeftirlitið hefur kannað brot á verklagsreglum hjá þessum sex fyrirtækjum en samt liggur þetta ekki klárt fyrir þegar Fjármálaeftirlitið er að gefa út niðurstöðu könnunar sinnar. Hvers vegna í ósköpunum er í umsögn Verslunarráðsins, sem hv. formaður efh.- og viðskn. þekkir vel, kallað eftir slíkri lagabreytingu ef það þarf engin lög eða lagabreytingu um þetta efni?

Við leggjum síðan til að við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein:

,,Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd greinar þessarar, m.a. um takmarkanir á viðskiptum, tilkynningar um viðskipti og birtingu þeirra, birtingu rekstraráætlana,`` sem mig minnir að Verslunarráðið hafi einmitt verið að benda á að mikilvægt væri að fá fram. Við tökum það upp, birtingu rekstraráætlana, að ekki sé bara litið til fortíðar heldur hafi þeir sem eru í þessum viðskiptum einhverjar hugmyndir um rekstraráætlun fyrirtækjanna.

Við ræðum jafnframt um tíðari uppgjör fyrirtækja eins og ársfjórðungsuppgjöra, sem mikið hefur verið talað um og tilgreiningu aðila og birtingu lista yfir þá. Því næst segir:

,,Þá er ráðherra heimilt að ákveða í reglugerð að tilteknir aðilar teljist fruminnherjar í fyrirtæki og að þeir geti ekki átt í viðskiptum með verðbréf sín fyrr en að liðnum allt að sex vikum frá birtingu afkomutalna þess.``

Hv. formaður nefndarinnar nefndi að þetta þyrfti að skoða því að þetta hefði ekki lagastoð og einmitt þessi þáttur væri mjög viðkvæmur. Ég get auðvitað fallist á að þessi þáttur er viðkvæmur en með þeim hætti sem við í minni hlutanum setjum þetta fram er búið að gefa þessu mikilvæga atriði varðandi verðbréfamarkaðinn ákveðna lagastoð til að hvíla á.

Við leggjum til aðra gildistöku en frv. ráðherrans gerir ráð fyrir. Þar gerum við ráð fyrir að lög þessi öðlast þegar gildi, að undanskilinni 7. gr. um almennt og lokað útboð verðbréfa sem taki gildi 1. júlí 2000. Í frv. ráðherrans var talað um 1. okt. 2000, ef ég man rétt, en meiri hlutinn hefur að vísu fellt út þessa 7. gr. um almennt útboð og vísað aftur til ráðherrans.

Síðan gerum við ráð fyrir því að aðlögun starfandi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, þ.e. í 5. gr. laganna um menntunarþáttinn, verði lokið fyrir 1. janúar 2001. Í frv. ráðherrans hæstv. er gert ráð fyrir að það verði hálfu ári seinna eða 1. júlí 2001. Við teljum að svigrúmið sem hér er gefið bæði varðandi reglugerðarsetningu að því er varðar almennt og lokað útboð fram til 1. júlí 2000 og síðan varðandi aðlögun fyrirtækja að ákvæðum frv. til 1. janúar 2001 sé algjörlega nægjanlegt til að verðbréfafyrirtækin geti tekið á sínum málum.

Herra forseti. Ég hef í nokkuð ítarlegu máli farið yfir þetta frv. og stöðu þess við 2. umr. málsins. Ég tel málið afar mikilvægt og þýðingarmikið fyrir verðbréfamarkaðinn að við setjum trausta og skýra löggjöf sem stuðli eins og kostur er að heilbrigðum viðskiptum á verðbréfamarkaðnum. En því miður, eins og frv. lítur út við 2. umr. og eins og stefnir í að frv. verði lögfest, finnast mér ákvæðin afar máttlaus.

Ég vil líka nefna að við í Samfylkingunni höfum flutt till. til þál. um setningu siðareglna í viðskiptum sem einnig hefur verið fjallað um af efh.- og viðskn. og afgreidd með ákveðnum hætti hér til þingsins. Ég tel að slíkar reglur séu afar mikilvægar í viðskiptum og um það þurfi ekki að deila.

Herra forseti. Ég hef beint nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra. Þær lúta að tveimur meginþáttum, annars vegar því sem fram kom í bréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 25. febr. Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér. En ráðherrann hæstv. hlustaði á mál mitt og ég tel afar mikilvægt að fá svör varðandi það.

Eins spurði ég hæstv. ráðherra að gefnu tilefni um stöðuna að því er varðar ný samkeppnislög sem eru fyrir efh.- og viðskn. Í einu dagblaði í dag kemur fram að hörð átök séu milli stjórnarflokkanna um það frv. sem mér finnst afar slæmt vegna þess að ég hafði gert mér vonir um að það væri hægt að ná breiðri og góðri samstöðu um það frv. í efh.- og viðskn. Ég vil segja hæstv. ráðherra það til hróss að frv. sem liggur fyrir í efh.- og viðskn. um breytingar á samkeppnislöggjöfinni er mjög gott að mínu viti. Það styrkir verulega Samkeppnisstofnun og þau tæki sem hún þarf að búa yfir til að hægt sé að taka á fákeppni og einokun sem er að finna í ýmsum starfsgreinum. Mér til mikillar ánægju kinkar hér kolli hv. þm. Pétur Blöndal sem þekkir vel til verðbréfamarkaðarins. Ég tek það sem merki um að hv. þm. sé sammála því að afgreiða þurfi þetta frv. um samkeppnislöggjöfina sem er enn óafgreitt í efh.- og viðskn.

Ég hef eina lokaspurningu, herra forseti, til formanns efh.- og viðskn., af því að stefnan er að því er ég best veit að ljúka þingi á fimmtudaginn, hvernig sem það tekst. Ég sé ekki annað en að boða þurfi til fundar þegar í kvöld eða í síðasta lagi í fyrramálið í efh.- og viðskn. til að taka út þetta frv. Ég spyr formann efh.- og viðskn. sömu spurningar og hæstv. ráðherra: Megum við eiga von á því að til fundar verði boðað í efh.- og viðskn. til að taka á þessu máli? Ef svarið er neikvætt eða einhverjar efasemdir um það þá hljótum við í minni hlutanum að hugleiða að fara formlega fram á það við formann nefndarinnar að hann kalli til slíks fundar í nefndinni til að geta farið yfir málið þar.

Ég sagði áðan að ég teldi breytingar á samkeppnislöggjöfinni eitt stærsta málið sem fyrir þetta þing hefur komið og mikilvægasta málið fyrir atvinnulífið og eðlilega og heilbrigða samkeppni. Ég teldi það stjórn og stjórnarandstöðu til mikils sóma ef það gæti orðið eitt af þeim málum sem við mundum afgreiða á lokadögum þingsins. Ég er vitanlega að tala um, herra forseti, að hæstv. ráðherra standi nú fast í ístaðinu og láti ekki draga úr þeim ákvæðum sem þar koma fram. Öllu máli skiptir hvernig málið kemur frá efh.- og viðskn. og þetta ágæta frv. sem ráðherrann beitti sér fyrir á þingi á þessum vetri fái farsælan framgang á þinginu.