Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:51:39 (7252)

2000-05-09 20:51:39# 125. lþ. 110.40 fundur 8. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál. 21/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni efh.- og viðskn. fyrir að beita sér fyrir því að þetta mál yrði afgreitt frá efh.- og viðskn. Ég er að sjálfsögðu ánægður með að nefndin skuli öll hafa sameinast að baki áliti sem mælir með því að þessi tillaga verði samþykkt.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar hefur tillögunni verið breytt lítið eitt frá því hún var borin fram af undirrituðum og öðrum hv. þingmönnum í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Reyndar er það kannski fulllítið sagt að henni hafi verið breytt lítið því að samkvæmt tillögunni eins og hún kom fyrir þingið upphaflega vildum við að á meðan slík athugun og könnun sem gert er ráð fyrir í þáltill. yrði framkvæmd yrði slegið á frest öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkaframkvæmd á vegum stjórnvalda.

Það sem fyrir okkur vakir er að fá málefnalega umræðu um þessi efni og leiða fram í dagsljósið rök og upplýsingar sem liggja fyrir hjá þeim þjóðum sem farið hafa út á braut einkavæðingar og einkaframkvæmdar. Þar er ekki síst vísað til ríkja á borð við Bretland og Nýja-Sjáland. Ég held að tillögutextinn misskiljist ekkert. Það er þetta sem vakir fyrir þeim sem að þessari tillögusmíð standa, að fá fram í dagsljósið upplýsingar um reynslu annarra þjóða af einkaframkvæmdinni og að sjálfsögðu okkar eigin. En því miður lengist reynslusagan ört og hér í dag vorum við t.d. að fjalla um elliheimili sem ákveðið hefur verið að fara með út í einkaframkvæmd. Við teljum mjög mikilvægt að í stað þess að nálgast málin pólitískt þá geri menn það málefnalega og ég er mjög þakklátur efh.- og viðskn. fyrir að sameinast að baki þessari tillögugerð.