Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:00:04 (7283)

2000-05-09 23:00:04# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:00]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega þýðingarmikið að menn átti sig á að hin svokallaða gæðastýring sem menn stefna að og vonast til að landbúnaðurinn, þ.e. sauðfjárræktin, geti tekið þátt í snýst fyrst og fremst um landnýtinguna, um beitarstjórnina. Það er hið stóra mál, hitt er bara smámál. Það hefur gríðarlega þýðingu fyrir okkur Íslendinga að koma á þeirri reglu að nýta landið rétt og að við beitum rétt. Það er ekki ofstjórn að setja slíkar reglur. Gætum við sagt að við treystum ekki bílstjórunum til að aka eftir vegunum og þess vegna ætti bara að afnema umferðarlögin? Dygði að láta bílstjórana um að koma á reglu? Ættum við bara að treysta þeim? Það er fráleitt annað en að setja reglur um landnýtingu. (Gripið fram í.) Það er fráleitt annað en að setja þessar reglur og engin ofstjórn á nokkurn hátt.

Hins vegar hjó ég eftir því að hv. þm. Pétur Blöndal gat um að við treystum ekki bændum fyrir afurðasölu. Það er að vísu alveg hárrétt hjá honum. Ég hef fyrir löngu sannfærst um að við eigum að taka sauðfjárafurðir út úr þeim lögum, afurðasölulögunum. En það er ekki til umræðu hér. Það er ekkert um það í þessu frv. og þetta er ekkert á dagskrá núna. En það þarf að taka það á dagskrá og fara í gegnum það.

Niðurstaðan er sú, sem ég er sannfærður um að er rétt, að þetta er ekki helsi á bændur. Það er verið að reyna að hjálpa þessari búgrein í þeim miklu erfiðleikum sem hún á við að stríða, ekki hvað síst vegna minnkandi eftirspurnar eftir afurðum hennar og sívaxandi samkeppni við aðra kjötframleiðendur. Þess vegna er verið að rétta hér hjálparhönd. Með sanni mætti aðstoðin jafnvel vera meiri, hærri greiðslur, en menn eru þó að reyna að ná sáttum um að styrkja þessa grein svo við getum treyst því að hún verði áfram við lýði.