2000-05-10 02:01:23# 125. lþ. 111.17 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:01]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir hlý orð í minn garð og nefndarmanna allshn. Það mátti auðvitað búast við því að lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði yrðu tengd þessari umræðu, það er kannski ósköp eðlilegt. En það er nú einu sinni svo þetta eru sérlög og við erum að ræða um almenn lög á þessu sviði, um meðferð persónuupplýsinga, sem ekki eingöngu varða vinnslu persónuupplýsinga á heilbrigðissviði heldur yfir miklu víðtækara svið. Þess vegna var alveg rökrétt þegar rætt var um samþykkið og hvort ætti að ræða um upplýst samþykki í þessu frv. að ákveðið var að nota þá skilgreiningu sem er fyrirmynd í tilskipun Evrópusambandsins, þ.e. alþjóðlega tilskipun, og telur nefndin eins og ég gat um áðan eðlilegt að sama skilgreining verði notuð þegar fjallað er um meðferð persónuupplýsinga.

Reglur um meðferð þeirra svo ég leyfi mér, herra forseti, aftur að vitna í það sem ég sagði áðan, spanna mjög vítt svið og að mati nefndarinnar er ekki eðlilegt að skilgreining á samþykki verði eingöngu byggð á því hvernig samþykki er skilgreint vegna þátttöku í vísindarannsókn. Nefndin bendir á að upplýst samþykki, eins og ég gat um áðan og las upp, felst í skilgreiningunni á samþykki samkvæmt frv. og það er skýrt mjög ítarlega í 2. gr. frv.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson hvort hann hafi verið að lýsa yfir vantrausti á skipan núverandi vísindasiðanefndar.