2000-05-10 02:03:25# 125. lþ. 111.17 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég var að lýsa vantrausti og mjög harðri gagnrýni á ákvörðun ríkisstjórnarinnar og eins tiltekins ráðherra að reka vísindasiðanefnd þegar hún gagnrýndi ákvarðanir og stefnu ríkisstjórnarinnar, breyta reglugerð og skipa nefnd. Ég er að lýsa vantrausti á þá ráðstöfun. Ég hef gert það áður og skal gera það hvenær sem þess er óskað og fagna tilefninu að fá að ítreka þetta eina ferðina enn því að þarna var á ferðinni mjög alvarlegur hlutur.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir bendir á að menn geta farið í alls kyns hártoganir um þessi efni en eftir stendur að upplýsingar um heilsufar íslensku þjóðarinnar eru að henni forspurðri sendar inn í gagnagrunn á heilbrigðissviði þar sem þær eru gerðar að söluvöru.