2000-05-10 03:45:16# 125. lþ. 111.24 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[27:45]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Já, herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel þetta geta gengið upp. Áhyggjur mínar eru fyrst og fremst af því ef matsskýrslan leiðir það í ljós við nána skoðun að ákveðnar rannsóknir vanti, séu ekki fullnægjandi eða gögn ekki fullnægjandi þá sé mjög erfitt að sjá það í upphafi matsskýrslu eða þegar matsáætlunin er gerð. Þar er einungis ákveðið einhvers konar yfirlit um allt sem viðkomandi framkvæmdaraðili ætlar að gera, rannsóknirnar eru listaðar upp. Þegar þær koma fram í matsskýrslunni þurfa þær hins vegar athugun. Til þess hefur Skipulagsstofnun ákveðinn tíma og það er ekki fyrr en við lok þess tíma sem Skipulagsstofnun kemst að því hvort rannsóknir eru fullnægjandi eða ekki. Þá getur Skipulagsstofnun ekki samkvæmt þessu hafnað framkvæmdinni á grundvelli þess að rannsóknir séu ónógar. Þannig að kannski eru þessar áhyggjur mínar svolítið sérhæfðar. Þær lúta ekki að öllu leyti að ákvæðinu heldur einungis að því að kannski þurfi víðara svigrúm Skipulagsstofnunar til að hafna framkvæmd.