Fyrirspurnir til forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:25:18 (7383)

2000-05-10 12:25:18# 125. lþ. 114.91 fundur 523#B fyrirspurnir til forsætisráðherra# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:25]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þær þrjár fyrirspurnir sem hafa verið teknar til umræðu í upphafi fundar um störf þingsins eru allar efstar á dagskrá þessa fundar. Þeir fyrirspyrjendur sem fluttu fyrirspurnirnar áttu von á því eftir að dagskráin hafði verið útgefin að þessar fyrirspurnir yrðu þær fyrstu sem svarað yrði.

Nú hefur hæstv. forsrh. vikið af fundi og því spyr ég hæstv. forseta hvort ekki sé möguleiki á því að hæstv. forsrh. komi til fundar síðar í dag og svari þessum fyrirspurnum þannig að þær séu ekki teknar út af dagskrá heldur látnar bíða þar til ljóst verður hvort hæstv. forsrh. getur komið til fundarins síðar í dag.

Í öðru lagi er það ágalli á störfum Alþingis þegar lagðar eru fram skriflegar fyrirspurnir að ekki sé hægt að svara þeim með skriflegu erindi til fyrirspyrjanda eftir að þingi hefur verið frestað. Mér er sagt að í nýjum þingskapalögum standi til að breyta þessu ákvæði á þennan veg og mér finnst það skynsamlegt. Ég vildi gjarnan fara þess á leit við hæstv. ráðherra þó að það sé kannski ekki alveg samkvæmt þingsköpum að ef þeir eiga tilbúið skriflegt svar eða svar við beiðni um skriflegt svar, láti þeir það ganga til þingmanna þó svo þingfrestun sé orðin. Það liggur t.d. fyrir beiðni mín til hæstv. fjmrh. um að svara skriflega fyrirspurn um það hve miklu fé sé búið að verja af almannasjóðum til að reyna að afla markaðar erlendis fyrir lambakjöt frá Íslandi og er vissulega forvitnilegt að fá svar við þeirri spurningu sem ég veit að búið er að vinna með í fjmrn. og er komið á endapunkt til þess að sjá hve miklum fjármunum hefur verið varið í slík verkefni í gegnum árin og bera það síðan saman við árangurinn.

Varðandi það sem hæstv. iðnrh. sagði þá var það svo að við ræddum þessa beiðni um skýrslu, ég og hæstv. fyrirrennari iðnrh., og okkur var það alveg ljóst að þetta kostaði mikið fé. En hæstv. iðnrh. sagði að hann samþykkti engu að síður að þessi skýrslubeiðni yrði samþykkt á þinginu og hann mundi vinna í samræmi við hana og skila á þessum vetri áfangaskýrslu um samruna fyrirtækja í sjávarútvegi og vinna síðan að því að útvega fjármuni til þess að kosta afganginn.

Nú er það svo að skýrslubeiðnin fellur úr gildi þegar þessu þingi er slitið. Þarf ég þá, virðulegi ráðherra, og félagar mínir að endurnýja skýrslubeiðnina í upphafi næsta þings eða er ráðherra reiðubúinn til að lýsa því yfir í umræðunni að hæstv. ráðherra muni vinna að því að þessi skriflega skýrsla verði lögð fyrir Alþingi á næsta vetri án þess að þurfi að koma fram ný beiðni þar um?