Fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:42:48 (7392)

2000-05-10 12:42:48# 125. lþ. 114.4 fundur 632. mál: #A fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fyrirvarar að því er varðar Atlantshafsbandalagið standa og við höfum á engan hátt brotið þá. Þau átök sem þarna voru voru fyrst og fremst vegna mannréttinda. Það liggur fyrir að ríkisstjórn þessa lands sótti með hernaði og ofsóknum á minnihlutahóp í landinu og ríki Vesturlanda töldu ekki rétt að sitja lengur hjá og ákváðu að koma öllu þessu saklausa fólki til hjálpar og bjargar.

Á síðustu áratugum hafa innanlandsátök því miður farið ört vaxandi í samanburði við stríð milli ríkja. Óbreyttir borgarar eru yfirleitt aðalfórnarlömb slíkra átaka og meginregla þjóðarréttar er sú að ríkið hafi ekki rétt til að skipta sér af málefnum sem koma í aðalatriðum undir eigin lögsögu ríkis samkvæmt 7. tölul. 2. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar er ljóst að því sjónarmiði vex nú fiskur um hrygg að vegna alvarlegra mannréttindabrota og glæpa gegn mannkyni megi önnur ríki skipta sér af því hvernig ríki fer með eigin þegna og Sameinuðu þjóðunum ber skylda til að styrkja og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og það er óumdeilanlegt að öryggisráðið geti samþykkt hernaðaríhlutun af mannúðarástæðum eins og t.d. í Sómalíu.

Það sem ýtir undir þá niðurstöðu að hernaðaríhlutun sé heimil undir ákveðnum kringumstæðum er að almennt vægi mannréttinda hefur stóraukist frá því að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur. Ekki sé rétt að hengja sig í réttarfarsleg atriði eins og að formleg samþykkt öryggisráðsins sé ávallt nauðsynleg. Sérstakar aðstæður geti verið fyrir hendi. Gera verði ráð fyrir þróun og aðlögun réttarins að breyttu eðli hernaðaríhlutunar. Þegar metið er hvort aðstæður í einstöku máli séu slíkar að um heimild geti verið að ræða án ótvíræðs umboðs Sameinuðu þjóðanna er talið rétt að líta m.a. til þess hvort um gróf eða skipuleg mannréttindabrot eða brot á mannúðarlögum sé að ræða og hvort öll önnur úrræði hafi verið reynd til þrautar til að leiðrétta ástandið. Fyrir liggur að mat þessara ríkja var að allar aðrar leiðir hafi verið reyndar til þrautar. Þessi átök urðu því miður en þau voru framkvæmd á grundvelli mannréttinda og mannúðar og ég vænti þess að hv. þm. skilji að þarna var unnið í anda mannúðar og mannréttinda en ekki af einhverri árásarhneigð á annað ríki.