Kærumál vegna ólöglegrar sölu á tóbaki

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:46:09 (7393)

2000-05-10 12:46:09# 125. lþ. 114.5 fundur 495. mál: #A kærumál vegna ólöglegrar sölu á tóbaki# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:46]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Á þskj. 779, 495. mál, er fsp. frá mér. Hún hefur legið frammi í nokkurn tíma og er nú komin á dagskrá.

Fyrr í vetur lagði ég ásamt þingmönnum annarra flokka fram þáltill. um að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu. Því miður hefur sú tillaga ekki komið á dagskrá í heilbr.- og trn. þó hún hafi fengið góðar undirtektir.

Skaðsemi tóbaks er óumdeild. Þrátt fyrir að nokkuð hafi dregið úr tóbaksnotkun á undanförnum árum, ekki síst vegna mikils og markviss áróðurs, eru reykingar engu að síður algengar. Kannanir hafa einnig sýnt að reykingar barna og unglinga aukast og færast neðar í aldurshópana, einkum hjá ungum stúlkum.

Samkvæmt upplýsingum tóbaksvarnanefndar má ætla að íslenskir grunnskólanemar hafi varið liðlega 10 millj. kr. til tóbakskaupa árið 1999. Því er mjög mikilvægt að beita öllum ráðum til að draga úr sölu tóbaks til barna og unglinga og að markmiðið verði að tekið verði fyrir alla ólöglega sölu.

Fsp. mín til hæstv. dómsmrh. er lögð fram í tengslum við fyrrnefnda þáltill. því að sterkur grunur leikur á að eftirlit með sölu á tóbaki sé langt frá því að vera fullnægjandi og það sama megi segja um eftirfylgnina, þ.e. kærur vegna ólöglegrar sölu á tóbaki.

Herra forseti. Því spyr ég hæstv. dómsmrh.:

1. Hversu oft á síðustu fimm árum hafa komið upp kærumál vegna sölu á tóbaki til barna og unglinga sem ekki hafa haft aldur til kaupanna samkvæmt lögum?

2. Hversu oft hefur sektum verið beitt í þessu sambandi og hverjar eru upphæðir sektanna?