Skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:22:08 (7459)

2000-05-10 15:22:08# 125. lþ. 114.17 fundur 613. mál: #A skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Eitt af þeim málum sem afgreidd hafa verið sem lög frá Alþingi nú undir þinglokin er frv. sem heimilaði Íslandspósti hf. að ganga til samstarfs við sparisjóði og banka um rekstur á starfsemi póstþjónustunnar. Til að þetta gæti gengið eftir þurfti að gera breytingar á bankalögum en áður hafði Íslandspóstur hf. gengið til samninga og samstarfs við önnur fyrirtæki.

Í flestum tilvikum hefur verið um það að ræða að útibúum Íslandspósts hafi verið lokað, þau hafi verið lögð niður og nú eru komin allmörg dæmi um slíkt. Ég þekki til fjölmargra samstarfssamninga af þessu tagi og má þar nefna Laugarvatn, Reykjahlíð, Hrísey, Flateyri, Grenivík, það má nefna Laugar í Reykjadal, Grímsey, Brú í Hrútafirði, Bíldudal og viðræður um fleiri staði munu eiga sér stað þótt endanlegar áætlanir liggi ekki fyrir. Ég gleymdi að nefna Flúðir en fyrir nokkru birtist frétt í Suðurlandsblaði Dags þar sem segir í fyrirsögn: ,,Óánægja á Flúðum með áform póstsins. Pósthúsið í bankann. Óánægja. Komum ekki auga á sparnaðinn.`` Þessi orð munu höfð eftir starfsfólkinu þar.

Í sumum tilvikum hefur tekist að tryggja fólkinu áframhaldandi atvinnu, starfsfólki fyrrverandi útibúa, en í öðrum tilvikum hefur það ekki gerst. Það er ekki nóg með að fólk missi atvinnu sína heldur veikir þetta viðkomandi byggðir.

En annað og meira er að gerast. Starfsmannastefna þessa fyrirtækis, Íslandspósts hf., virðist vera að taka breytingum. Þannig hef ég heimildir fyrir því að einstaklingur hafi verið beðinn um að láta af störfum. Þegar hann vildi fá að vita ástæðuna var honum sagt að hann væri nálægt 65 ára aldrinum en stefnan væri nú tekin á að hafa helst ekki eldra fólk í starfi hjá þessari stofnun. Í framhaldi af þessu öllu beini ég til hæstv. samgrh. eftirfarandi fsp.:

Hvaða áhrif hafa skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf. haft á starfsmannahald og starfsmannastefnu á landsbyggðinni frá því að stofnunin var gerð að hlutafélagi?