2000-05-10 15:41:53# 125. lþ. 114.21 fundur 605. mál: #A norræna rannsóknarsamstarfsverkefnið "Byggð og tímatal í Norður-Atlantshafi"# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það vill svo vel til að hæstv. samgrh. og starfandi menntmrh. þekkir líka mjög vel til málsins, sjálfsagt ekkert síður en núv. hæstv. menntmrh., vegna þess starfs sem hann áður sinnti og varðar þjóðminjar.

Hins vegar liggur fyrir, herra forseti, að mjög erfitt hefur verið fyrir verkefnisstjóra að ná eðlilegu samstarfi við Þjóðminjasafnið um að fá þar aðgang að upplýsingum. Hæstv. menntmrh. ber náttúrlega skylda til þess að stuðla að því að rannsóknargögn sem varða sögu Íslands og geta varpað nýju ljósi á hana séu aðgengileg þeim aðilum sem þurfa á þeim upplýsingum að halda. Ég tel að hæstv. menntmrh., og óska eftir því að hæstv. starfandi menntmrh. komi þeim orðsendingum til hans, beri að tryggja það sjálfum að bréf sem hann sendir og fyrirmæli sem hann sendir til stofnana sem undir hann heyra séu virt.

Í öðru lagi er mjög mikilvægt að þessum rannsóknum verði endanlega lokið og niðurstöðurnar gefnar út. Mér er tjáð að út af fyrir sig sé vinnunni lokið, eingöngu eigi eftir að draga saman fræðin og undirbúa verkið til útgáfu. Ég held að 300 þús. kr. dugi varla til að ljúka slíkri vinnu. Hins vegar vitum við báðir, ég og hæstv. ráðherra, að hæstv. menntmrh. hefur yfir að ráða nokkru fjármagni sem hann getur sjálfur ráðstafað til að ljúka verkefni eins og þessu. Ég fer þess á leit við starfandi hæstv. menntmrh. að hann komi þeirri eindregnu ósk minni áleiðis að menntmrn. og menntmrh. sjái til að þessari merkilegu rannsókn verði lokið og niðurstöður hennar gefnar út, ekki síst þegar við vitum að það gæti varpað alveg nýju ljósi á söguna varðandi upphaf Íslandsbyggðar.