Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 11:52:56 (7503)

2000-05-11 11:52:56# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem upp sérstaklega til að taka undir þá tillögu sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson flytur um að skip sem sinna þeim flutningum sem um er rætt í frv. séu mönnuð íslenskum áhöfnum. Ég held að mjög þarft sé að bæta slíku ákvæði inn í lögin. Að sjálfsögðu er eðlilegt að þau skip sem sinna flutningum til og frá landinu af hálfu skipafélaganna séu mönnuð íslenskum áhöfnum og hefur það lengi verið krafa þeirra sem semja um kjör áhafna flutningaskipanna, þ.e. Sjómannasambandsins, Sjómannafélags Reykjavíkur, Farmannasambandsins og Vélstjórafélags Íslands.

Sú tillaga sem hæstv. utanrrh. leggur fram um að setja inn frestunarákvæði til 1. maí 2001 er samhljóða tillögu sem hér var flutt áður og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék að. Ég studdi þá tillögu þegar hún var borin upp og mun að sjálfsögðu styðja tillögu sem er með sömu efnisatriðum og sú tillaga var og tel í raun að þarna hafi menn kannski eftir ákveðnar ferðir og þrýsting orðið við því að viðskipti manna samkvæmt þessum samningi fylgdu eðlilegum lögmálum.