Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:29:57 (7515)

2000-05-11 12:29:57# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Ég vil aðeins segja um varnarræðu hæstv. utanrrh. hér áðan fyrir þessu máli og allt í kringum það, að þar var um mikinn línudans að ræða. Satt best að segja var það harla vandræðalegur málflutningur að leiða annars vegar það fram, sem er svo sem ljóst, að Ísland er sjálfstæð þjóð og setur sér lög og að við viljum ekki taka við fyrirmælum frá öðrum í þeim efnum. En svo kom þetta ,,en``. En það var náttúrlega um að ræða milliríkjadeilu milli vinaþjóða og grannþjóða og varð að reyna að leysa það mál. Það er þá þetta ,,en`` sem er réttlæting þess að hæstv. ráðherra leggur til breytingu á eigin frv. að undangengnum viðræðum við Bandaríkjamenn og vegna óánægju þeirra eins og við blasir.

Herra forseti. Ég gekk ekki svo langt þegar ég var að minna á hið góða orðtæki að oft velti lítil þúfa þungu hlassi að segja að þetta mál mundi skipta sköpum í þeim viðræðum sem fram undan væru milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda um framtíð --- eða vonandi ekki framtíð --- erlends hers hér í landinu. En mér þykir líklegt að það geti haft ákveðin áhrif. Meðal annars gæti það haft þau áhrif að Bandaríkjamenn notuðu þetta ásamt öðru sem tilefni til að koma með tillögur sem vitað er að verulegur áhugi er fyrir vestra um verulegan samdrátt eða jafnvel lokun herstöðvarinnar í Keflavík.

Það er vitað, herra forseti, og ekkert leyndarmál held ég að í Washington og vestan hafs eru mjög deildar meiningar um gildi þess eða tilgang að halda áfram úti herstöð á Íslandi. Áhrifamikil öfl bæði innan bandaríska stjórnarráðsins og innan bandaríska hersins, einstakra deilda þar, eru þeirrar skoðunar að fjármunum væri betur varið í aðra hluti. Það er svo að menn hafa sem betur fer dregið nokkuð saman í útgjöldum til hermála í ljósi endaloka kalda stríðsins og slíkra hluta. Þá hefur þeirrar tilhneigingar gætt í Bandaríkjunum af skiljanlegum ástæðum að reyna að láta þann samdrátt fremur koma fram í herstöðvum á erlendri grund en innan Bandaríkjanna, m.a. og aðallega af þeim ósköp einföldu ástæðum að það eru miklir atvinnuhagsmunir í húfi víða í kringum stórar herstöðvar eins og við þekkjum. Þar af leiðandi er það af pólitískum ástæðum og ýmsum ástæðum sem áhrifamikil öfl, þingmenn sem kunna sitthvað fyrir sér í kjördæmapoti vestan hafs eins og við sjáum af þessu máli, beita sér mjög í því að samdrátturinn komi frekar fram á erlendri grund en í herstöðvum t.d. í kjördæmum þeirra.

Annað atriði gæti líka haft áhrif, herra forseti. Það er ósköp einfaldlega að í Bandaríkjunum eru núna uppi geigvænleg áform um að fara út í uppbyggingu á nýju gagnflaugakerfi, einhvers konar breytt stjörnustríðsáætlun gæti það kallast. Hún á margt skylt með hinum vitfirrtu áformum Ronalds Reagans og hans nóta um að fara út í stjörnustríðsuppbygginguna eins og til stóð í eina tíð. Bandaríkjamenn hafa þreifað fyrir sér með það hvort ná mætti samkomulagi t.d. við Rússa um að falla frá samningnum sem bannar uppsetningu slíkra kerfa.

Eitt er víst og það er að verði ráðist í slíka hluti kostar það óhemjumikið fé og þeirra fjármuna á, samkvæmt því sem frést hefur af þessum áformum, að hluta til að afla með niðurskurði í hefðbundnum herafla og rekstri herstöðva, ekki síst á erlendri grund.

Þetta og fleira gæti haft áhrif í þá átt að tillögur Bandaríkjamanna í þessum viðræðum þegar þær hefjast gætu átt eftir að koma mönnum verulega á óvart. Það fer að vísu eftir því hvaða öfl verða ofan á í þessum efnum vestan hafs. Oft er erfitt að átta sig á því enda um flókið og mikið bákn að ræða sem kemur við sögu, einstakar deildir hersins, mismunandi ráðuneyti o.s.frv.

Af mörgum er talið að áhugi Bandaríkjamanna hvað þetta varðar snúi fyrst og fremst að því að hér á Íslandi sé tiltæk aðstaða. Ég held að það sé nokkuð ljóst að í raun telja þeir það vera það sem máli skipti en ekki endilega hitt hvort hér er einhver viðbúnaður að staðaldri enda ákaflega fljótlegt að flytja hann hingað. Þær fjórar orrustuþotur af þeirri gerð sem hér eru að mestu leyti að staðaldri eru ekki nema fáeina klukkutíma að komast til landsins frá herstöðvum þó þær væru inni á meginlandi Norður-Ameríku. Enn þá fljótari eru þær frá Bretlandseyjum eða þeim herstöðvum Bandaríkjamanna sem næst okkur liggja. Þess vegna væri alls ekki ólíklegt að af hálfu Bandaríkjamanna gætu birst tillögur um að framlag þeirra til þess sem menn kalla svo hátíðlega ,,varna Íslands`` yrði fyrst og fremst fólgið í því að leggja einhverja fjármuni í að viðhalda aðstöðu en ekki til að hafa hér umtalsverðan viðbúnað að staðaldri.

Einnig er ljóst, herra forseti, að tæknin er að breyta ýmsu í þessum efnum. Mjög mikið af hefðbundnum viðbúnaði, hefðbundum radarbúnaði, hlustunarkerfum og öðru slíku hefur núna verið leystur af hólmi með miklu háþróaðri tækni sem byggir fyrst og fremst á gervihnöttum og öðru slíku.

Því er ég að draga þetta inn í málið, herra forseti, að mér finnst það eiga erindi í þessu samhengi. Ekki er víst að þessir sjóflutningar verði til frambúðar eitthvað til að rífast mikið um ef svo færi að þarna yrði dregin þannig saman starfsemin á næstu árum eða henni jafnvel lokað hvað varðar beina þátttöku Bandaríkjamanna sjálfra.

Hitt er ljóst og mér jafnljóst, þrátt fyrir skoðanir mínar í þessum efnum, að Bandaríkjamenn vilja tryggja að Ísland sé þeim áfram opið, sé á áhrifasvæði þeirra og að þeir geti ef þeir svo kjósa nýtt sér þá aðstöðu sem hér er eða komið aftur með viðbúnað ef þeim sýnist svo. Það held ég að sé mergurinn málsins. Að mínu mati, herra forseti, hníga öll rök til þess, sé málið skoðað í þessu ljósi, að við Íslendingar horfumst í augu við þær aðstæður sem blasa við okkur í alþjóðastjórnmálum og einnig í þessum samskiptum og gerum það uppréttir en séum ekki á hnjánum að biðja um viðveru erlends hers í landinu sem engin rök mæla lengur með. Út af fyrir sig hefur svo aldrei verið og nú er ekki lengur áhugi á því af hálfu gagnaðilans.

Af þessum umræðum, herra forseti, þessu máli og öllu sem í kringum það hefur risið á undanförnum vikum, sem var tekið svo alvarlega af sjálfu Morgunblaðinu --- ég man ekki hvort þær voru frekar fimm eða sex blaðsíðurnar sem undir umfjöllun um það voru lagðar fyrir fáeinum dögum --- sjá menn þá að mikið liggur við.

Ef við gefum okkur þá fallegu framtíðarsýn, herra forseti, að árið 2012 verði síðustu --- þó ekki væri fyrr en gjarnan 2005 eða 2008 --- erlendu hermennirnir farnir úr landinu þá verður gaman að rifja upp þessa umræðu, herra forseti, og þetta mál.