Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:43:07 (7518)

2000-05-11 12:43:07# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér afskaplega vel grein fyrir skoðunum hv. þm. og ég heyri að hann er vongóður um að ýmsir aðilar í Bandaríkjunum komi honum til hjálpar í þessu áhugamáli sínu.

En eitt er líka rétt að taka fram, þ.e. að hér er að sjálfsögðu ekki eingöngu um öryggishagsmuni Íslands og Bandaríkjanna að ræða. Hér er líka um öryggishagsmuni nágrannaþjóða okkar að ræða, samstarfsaðila okkar í Evrópu. Þetta mál verður líka að skoða í ljósi þeirra tíðinda sem eiga sér nú stað í Evrópu þegar Evrópuríkin eru að koma sér saman um nýja stefnu í öryggismálum álfunnar. Allt er þetta þáttur í því þannig að myndin er mjög flókin.

En ég er í sjálfu sér sammála hv. þm. um að hér geta orðið breytingar og við þurfum að vera viðbúin slíkum breytingum. Það er uppi umræða um þær breytingar enda hefur heimsmyndin breyst. Í því sambandi þurfum við líka að líta á Ísland sem hluta af Evrópu og þeirra miklu hagsmuna sem öll Evrópa hefur í Atlantshafstengslunum. Ísland er mjög mikilvægur hlekkur í þessum Atlantshafstengslum og það þurfum við líka að hafa í huga þegar við förum yfir málið enda veit ég að hv. þm. er það fullkomlega ljóst.