Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:51:08 (7578)

2000-05-12 14:51:08# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ferðaþjónustuaðilar hvort sem það eru Flugleiðir eða aðrir geti á engan hátt túlkað þetta mál á þennan hátt, enda hef ég aldrei heyrt það. Fyrir liggur að þessi flugstöð getur ágætlega staðið undir sér. Greiddur hefur verið hluti af hagnaði Fríhafnarinnar beint til ríkissjóðs. Það mun falla niður með þeim breytingum sem þarna eiga sér stað og ef einhver hefur skilið það þannig að það eigi sérstaklega að fjármagna þetta beint af fjárlögum þá er það misskilningur, nema að því er varðar störf lögreglumanna og tollgæslumanna. Það hefur þegar verið ákveðið að fjölga lögreglumönnum og tollgæslumönnum út af þessari stækkun og líka vegna Schengen og það er á fjárlögum ríkisins. Það hafa því engar vanefndir átt sér stað gagnvart fyrirtækinu Flugleiðum.

Ég vil síðan gera athugasemdir við það orðalag sem hv. þm. notar að það hafi verið gerð tilraun til að kaupa menn til fylgis við þetta mikilvæga mál. Það hefur aldrei verið gert af minni hálfu. Hins vegar hafa farið fram samskipti milli utanrrn. og Flugleiða um þetta mál, eðlileg samskipti, þar sem því hefur verið svarað til hvernig þessu máli verði háttað. En ég tel að hér sé ekki eingöngu um hagsmunamál einstakra aðila, þ.e. Schengen-málið, ég tel að líka sé um hagsmunamál Flugleiða og ferðaþjónustunnar að ræða þó einhverjir einstakir aðilar innan ferðaþjónustunnar telji að þetta sé að einhverju leyti gegn þeirra hagsmunum, þá er það afskaplega mikill misskilningur þó að hv. þm. kjósi að túlka það þannig.