Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:59:37 (7582)

2000-05-12 14:59:37# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Við þessa umræðu hafa komið upp umræður um Schengen og ferðaþjónustuna og hv. 3. þm. Norðurl. e. talar um neikvæðar gagnrýni Ferðamálaráðs. Ég kannast ekki við að Ferðamálaráð hafi tekið þetta mál formlega fyrir en hins vegar var ferðamálastjóri í starfshóp á vegum fyrrv. samgrh. sem skilaði áliti um þetta mál. Þar voru dregnar upp bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á málinu. Hins vegar eru áhyggjur ferðaþjónustunnar --- (ÖJ: Hver er formaður Ferðamálaráðs?) Formaður er hv. þm. Tómas Ingi Olrich og sá sem hér stendur er varaformaður. (ÖJ: Voru þeir ekki gagnrýnir?) Ég hef ekki verið gagnrýninn á þetta mál á þeim forsendum að að þessu hefur verið unnið á þann hátt að greiða fyrir för ferðamanna. Áhyggjur ferðaþjónustuaðila eins og Flugleiða af málinu beinast fyrst og fremst að því að halda fullum hraða í afgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. En unnið hefur verið að því að ráða þar fleiri lögreglumenn og menn í tollgæslu og lagðir hafa verið fram til þess fjármunir á fjárlögum. Það þurfti að stækka stöðina og unnið hefur verið að því. Það þurfti vegna almennrar umferðar og það vildi svo til að um leið og þarf að stækka hana tekur þessi breyting gildi þannig að hægt er að skipuleggja stækkunina með tilliti til þessa.

Menn velta auðvitað fyrir sér jákvæðum og neikvæðum hliðum á þessu máli í ferðaþjónustunni. Þar eru líka taldar margar jákvæðar hliðar á þessu máli sem eru að greiða fyrir för fólks um það svæði sem Schengen-samningurinn tekur til.

Ég vildi að þetta kæmi fram við umræðuna. Ég held að umsögn starfshópsins hafi verið ruglað saman við afstöðu Ferðamálaráðs. Við í Ferðamálaráði höfum ekki gefið neinar sérstakar umsagnir um þetta mál þó að við höfum rætt málið eins og önnur. Þetta vildi ég láta koma fram áður en umræðunni lýkur úr því að þetta kom upp á lokaspretti hennar.