Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:16:02 (7621)

2000-05-12 17:16:02# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:16]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er vegna orða hæstv. forseta áðan sem ég kvaddi mér hljóðs aftur. Ég var að gagnrýna að hæstv. forseti hefði tekið inn á dagskrá þingsins mál sem var verið að dreifa í gær. Ég tel að það hafi verið á valdi hans og það hefði verið eðlilegt að hann neitaði að taka það mál inn á dagskrá þingsins og tel reyndar alveg með eindæmum að hann skyldi hafa gert það. Komið er að þinglokum og menn eru að takast á um hvaða mál skuli fá framgang. En hæstv. forseti tekur mál sem er undirbúið og sett í umræðu með þvílíku hasti sem þetta mál kom fram.

Ég tel að hæstv. forseti sé ekki að greiða fyrir þingstörfum með því að taka þetta mál inn á dagskrá þingsins. Að ætlast til að þetta mál fái framgang með þeim hætti sem er nú fyrirhugað, það liggur fyrir að það er hugmyndin að þetta mál fái afgreiðslu á morgun, það eigi að fara í gegnum allar heilu þrjár umræðurnar á morgun og þingmenn eiga að bera ábyrgð á því hvernig að málinu er staðið með þeim hætti sem liggur núna fyrir. Það er það sem ég var að gagnrýna áðan og ég endurtek gagnrýni mína á þá forgangsröðun sem felst í því hvaða mál fá afgreiðslu. Það mál sem á að fara að ræða finnst mér að hefði átt að koma býsna langt á eftir ýmsum öðrum málum sem nefndir hafa ekki enn afgreitt. Lái mér hver sem vill þó ég taki undir þá gagnrýni.

Mér finnst ekki fallegur bragur á því á hv. Alþingi að sýna það úti í þjóðfélaginu með þessum hætti hvers konar forgangsröðun er viðhöfð við afgreiðslu mála.