Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 09:59:59 (7704)

2000-05-13 09:59:59# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[09:59]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel að sumt af því sem hv. þm. nefndi hafi kannski ekki alveg verið rökrétt því að hv. þm. talaði alltaf um að önnur laun kynnu að hækka ef laun forsetans yrðu hækkuð. Ég hygg að enginn sé með þessum breytingum að tala um að hækka raunlaun forsetans. Segjum sem svo að þingið samþykki að afnema þetta skattfrelsi, sem ég tel skynsamlegt úr því sem komið er, þá er dæmið væntanlega þannig, ef það síðan leiðir til þess að nafnlaun forsetans eru hækkuð, að þá breytist ekkert annað en að laun forsetans eru sjáanleg. Útborguð laun forsetans mundu þá ekki breytast og hlutfallið milli útborgaðra launa forsetans og forsrh. eða ráðherra mundi ekki breytast. Menn hljóta að tala um raunlaun í þessu sambandi. Það er því ekki nokkurt minnsta tilefni til þess, þó að nafnlaun forsetans mundu verða hækkuð án þess að kjör hans batni, að bæta kjör ráðherra, þingmanna eða annarra opinberra starfsmanna. Það er bara ekki nokkur minnsta ástæða til þess því að menn eru ekki að tala um það hér að með því að afnema skattfrelsi forseta séu þeir að hækka laun hans og kjör. Það er alveg fráleitt.

[10:00]

Það er ekki minnsta ástæða til að ætla að laun okkar sem hér sitjum ættu að hækka við það að skattfrelsi forsetans verði afnumið. Ég kem því ekki heim og saman. Það eina sem gerist er að laun forsetans verða sjáanleg. Þá halda menn að sagt verði: Ja, fyrst menn sjá hvað forsetinn hefur mikil raunlaun þá sést hve mikill munur er á launum forsetans og forsrh. í dag, sem og annarra ráðherra, og þá muni þeir jafna þann mun. Ég skil þingmanninn þannig.

Ég held að svona sé þetta ekki. Ég held að Kjaradómur sem ákvarðar þessi laun viti nákvæmlega hver munurinn er. Hann veit til að mynda að á 580 þús. kr. launum forsrh. og 610 þús. kr. skattfrjálsum launum forsetans --- þetta eru ekki nákvæmar tölur --- er verulegur munur. Við getum reiknað út hver munurinn er. Þeir hafa ekki talið ástæðu til þess að hækka laun forsrh., ráðherra eða þingmanna af því tilefni. Ég sé því ekki minnstu ástæðu til að laun þessara manna mundu hækka við að laun forseta Íslands væru gegnsæ og það sæist hvaða laun hann hefði, ekki hina minnstu.

Spurt var hvort nokkur rannsókn hefði farið fram á þessu máli í ráðuneytinu í samræmi við ályktun Alþingis. Ég get ekki sagt að fram hafi farið rannsókn á þessu vegna þess að þetta er í raun ekki hægt að rannsaka. Hins vegar hafa farið fram umræður og verið lagt á þetta mat, verið rætt við ýmsa fróða menn og hefur enginn sem við höfum rætt þetta við í ráðuneytinu talið að þetta ætti að leiða til hækkunar á launum. Það er enginn að tala um að hækka raunlaun forsetans þannig að munurinn á milli launa forsetans og annarra mundi ekki aukast. Það eina sem gerðist væri að launin yrðu sjáanleg.

Við vitum að skattareglurnar eiga að vera hlutlausar gagnvart öllum. Eftir síðustu stjórnarskrárbreytingu þar sem jafnræðisreglan var sett hef ég miklar efasemdir um að þetta fyrirkomulag standist, að einum embættismanni, hver sem hann er og hversu virðulegt sem embættið er, sé ætlað skattfrelsi. Hins vegar tel ég hægt að hafa skattfrelsi til að mynda á Nóbelsverðlaunum eða þess háttar vegna þess að það er ekki tengt neinni persónu sem slíkri. Það er almenn regla og hver sem er getur fallið undir hana eftir ákvæðum sem þeir hafa ekki áhrif á sjálfir. Ég tel að það geti út af fyrir sig staðist en þó má vel vera að það sé umdeilanlegt. Þetta er matsatriði.

Varðandi sjómenn t.d. þá er um að ræða heila stétt en engu að síður velta lögfræðingar því fyrir sér hvort þau ákvæði standist stjórnarskrá. Ég hef sjálfur ákveðnar efasemdir um að með breytingum á stjórnarskrá standist slíkt. Ég tel til að mynda að sjómannaafsláttur mundi ekki verða veittur í dag. Væru menn að undirbúa slíka löggjöf þá mundu þeir leita lögfræðilegrar álitsgerðar í þeim efnum og ég tel að sá afsláttur yrði ekki veittur væri þetta ekki þegar komið á.

Það hefur örlað á vissum misskilningi í kringum þetta mál. Til að mynda hafa menn sagt að menn verði að gera þetta núna vegna þess að ekki megi gera þessar breytingar á miðju kjörtímabili. Það er ekki rétt. Það má gera slíkar breytingar á miðju kjörtímabili. Hins vegar er reglan sú að ef slíkar breytingar eru gerðar á miðju kjörtímabili þá ber að hækka laun forsetans í öllum efnum þannig að hann verði örugglega jafnsettur eftir sem áður. Sé breytingin gerð fyrir upphaf kjörtímabils þá er þetta bara mat Kjaradóms.

Ég segi fyrir mig að ég var þeirrar skoðunar áður að það ætti ekkert að hreyfa við skattfrelsi forsetans sem embættis. Ég var ekki hlynntur því hér áður en ég hef hins vegar tekið eftir því að allir forsetaframbjóðendur hafa lagt höfuðáherslu á að þetta væri ósiðlegt og óheppilegt. Fyrrv. forseti hefur lýst því yfir að henni hafi ætíð fundist þetta ógeðfellt. Núv. forseti hefur sérstaklega tekið fram, margoft fyrir kosningarnar, að þetta ætti að afnema og allir hinir frambjóðendurnir tóku það líka fram. Þess vegna er dálítið skrýtið af okkur hér, löggjafanum, að þvinga fólk til að búa við skilyrði sem þeim finnast ógeðfelld og ósiðleg og stór meiri hluti landsmanna, eins og komið hefur fram í könnunum, þykja líka óeðlileg. Reyndar lýsti núv. forseti vor því yfir að forsetar ættu að hafa sams konar laun og ráðherrar eða dómarar í Hæstarétti. Ég er ekki sammála því. Ég tel að forsetinn eigi að hafa hærri laun en það. Hins vegar er það hvorki mitt eða hans að ákveða það. Það er Kjaradóms.

Ég tel að þessi tími sé út af fyrir sig þægilegasti og eðlilegasti tíminn til að gera slíkar breytingar, þegar framboðsfrestur er a.m.k. að formi til enn ekki úti, að formi til er enginn maður með bréf upp á að hann verði forseti næsta kjörtímabil. Það hefur enginn bréf upp á það á þessu augnabliki. Þessi tími kann því að vera sá réttasti. Málið er tiltölulega einfalt finnst mér og á að vera það. Þetta mál er bara mál þingsins, finnst mér, og ekki neinna annarra að fjalla um. Mér finnst yfirlýsingar sumra aðila sem þykjast eiga að ráða þessu máli eins og öllum öðrum málum í landinu, en ekki Alþingi, ekki vera heppilegar. Mér finnst engin efnisrök gegn því við núverandi aðstæður að verða við þeim tilmælum og skoðunum sem allir þeir sem boðið hafa sig fram til forsetaembættis síðan 1980 hafa talað um og beðið um. Meira að segja núv. forseti fann að því í blaðaviðtali að Alþingi skyldi ekki hafa klárað málið fyrir kosningarnar 30. júní 1996. Þetta er skoðun þeirra sem í þessum embættum eru, að þeir vilja ekki búa við þetta. Það hefur margoft komið fram. Þess vegna finnst mér skrýtið að við viljum hafa þetta ójafnræði í þjóðfélaginu sem er orðið dálítið úrelt.

Af hverju bjuggu þjóðhöfðingjar af konunglegum ættum og kyni ekki við skatta? Það var m.a. vegna þess að þau sjónarmið voru uppi að konungar hefðu hlotið völd sín frá guði og það væri ekki við hæfi að Alþingi eða þing setti skatta, mannlega skatta, á embætti sem guð hafði skaffað. Þannig er það. Mér finnst að þær gömlu leifar sem þetta fyrirkomulag byggir á séu ekkert sem við þurfum að rannsaka sérstaklega. Hversu merkilegir sem við erum og merkileg þá hefur ekkert okkar fengið neitt af embættum sínum frá guði. Hann ber enga ábyrgð á því, kannski sem betur fer. Mér finnst það ekki sambærilegt.

Reyndar er það svo að þetta er að breytast. Meira að segja Bretadrottning, sem gegnir einu virðulegasta embættinu, er nú farin að borga skatta, a.m.k. að hluta. Bandaríkjaforseti borgar skatta og þó er gert mjög mikið úr því embætti þar eins og menn vita. Skattfrelsi af þessu tagi er því á undanhaldi. Mönnum finnst það ekki standast í venjulegu ríki að ein persóna sé hafin yfir lög hvað þetta varðar. Til þess rekur enga nauðsyn. Ég held að allir hér inni vilji að forseti Íslands, hver sem hann er, sé vel haldinn af launum sínum. Ég tel að það sé nauðsynlegt og að um það sé ekki deilt. Ég held að þjóðin vilji það enda snýst málið ekki um það. Málið snýst um hvort svona regla eigi við. Hún á bersýnilega ekki við lengur. Það er a.m.k. ekki að jafnaði að menn geti talið það, ekki nútímajafnaðarmenn a.m.k. Og ég sem jafnaðarmaður að nútímagerð tel að það gangi ekki upp. Kannski hafa aðrir jafnaðarmenn aðra skoðun á því eins og gengur en svona lítur málið út frá mínum bæjardyrum horft.