Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:15:21 (7708)

2000-05-13 10:15:21# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:15]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Einn af mínu ágætu fyrirrennurum, lagaprófessor við háskólann, Ólafur Jóhannesson, segir í Stjórnskipunarrétti sínum að mildileg aðferð, ég hygg að það sé orðað þannig, til að koma málum fyrir kattarnef sé að vísa þeim til ríkisstjórnarinnar. Ég er ekki sammála því að það sé endilega aðferðin. Ég tel meira felast í því. En oft vísar þingið málum til ríkisstjórnar vegna þess að það er ekki tilbúið að taka efnislega afstöðu til málsins á þeim tíma.

Út af fyrir sig skiptir ekki öllu máli hvað ég segi um þetta eða 1. flm. tillögunnar. Það er ekki okkar að ákveða laun forseta. Það er Kjaradóms. Eins og ég segi, ef launum forsetans er ekki breytt til hækkunar þá geta þau ekki leitt til hækkunar hjá öðrum. Það væri rökleysa og rökvilla. Ég sætti mig ekki við það að menn beiti rökvillum til að komast að niðurstöðu.

Varðandi hitt hvort ég hafi vitað af því að vilji stóð til þess hjá flutningsmönnum að flytja þessa tillögu, þá er það svo. Ég vissi af því.