Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:25:50 (7713)

2000-05-13 10:25:50# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:25]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur verið sett á dagskrá mál og er mjög skammur tími er ætlaður til afgreiðslu þess í þinginu. Ég mun ræða um það síðar í ræðu minni, þ.e. um aðferðina. Fyrst ætla ég hins vegar að fara yfir þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til og segja álit mitt á því sem þar kemur fram. Í 1. gr. er lagt til að felld verði niður orðin ,,og er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum`` og málsgreinin: ,,Undanþága skv. 1. mgr. nær þó ekki til eftirlauna.`` Þetta á að falla niður úr lögum um laun forseta Íslands.

Þetta mun auðvitað hafa víðtæk áhrif á laun forsetans og eftirlaunin, einnig á eftirlaun fyrrv. forseta Íslands og eftirlaun maka fyrrv. forseta Íslands. Það fer auðvitað eftir því hvernig Kjaradómur tekur á málinu ef þessi lög öðlast gildi.

Ég bið menn um að gera öðrum ekki upp skoðanir, að menn séu á móti þessu máli, þó að hér séu færð fram ýmis rök fyrir því að skoða þurfi málið. Það er full ástæða til að velta fyrir sér hvað muni gerast.

Hæstv. forsrh. sagði áðan nánast beinum orðum að Kjaradómur mundi taka ákvörðun um að hækka laun forseta Íslands þannig að hann fengi útborguð laun eins og hann hefur fengið þegar búið væri að draga skattinn frá. (Gripið fram í: Sömu raunlaun.) Sömu raunlaun. Hvað þýðir það? Það þýðir verulega hærri laun til forseta Íslands vegna þess að um leið og þetta gerist er verið að hækka eftirlaun hans í stórum stíl og munar ekki lítið um það. Hæstv. forsrh. er að lýsa því yfir að hann telji ástæðu til að bæta kjör forseta Íslands með þessum hætti. Þetta hlýtur að hafa áhrif á mat Kjaradóms á því hvar eigi að raða öðrum embættismönnum ríkisins. Ég vil líka benda á að þegar það kemur fram í rökstuðningi Kjaradóms að rétt þyki að halda þeirri venju að hafa forseta Íslands efstan í launastrúktúrnum hjá ríkinu, þrátt fyrir að hann hafi haft þessi skattfríðindi, þá má ætla að það verði skoðað með öðrum hætti eftir að búið er að breyta þessu kerfi.

Hæstv. forsrh. upplýsti áðan að þau laun sem nú væru greidd væru um 580 þús. kr. til hæstv. forsrh. en 610 þús. kr. til forseta Íslands. Eftir að búið yrði að gera þá breytingu sem hér er lögð til og fara að ráðum forsrh. um að reikna upp laun forseta Íslands eins og hann lýsti hér áðan þá mundi forseti Íslands fá yfir 1.300 þús. kr. í laun á mánuði en forsrh. sæti uppi með 580 þús. kr. Mér er til efs að slík staða stæði til lengdar. Ég held að Kjaradómur muni meta launabilið milli forsrh. og forseta Íslands á annan hátt eftir þennan uppreikning. Þegar búið væri að lyfta hæstv. forsrh. í launastigunum eftir þann uppreikning, þá kæmi til mats mismunur launa hæstv. forsrh. og annarra ráðherra. Þannig færðist endurmat Kjaradóms niður launastigann. Auðvitað fer þetta líkt og ég hef hér lýst. Þetta verður allt saman endurmetið.

[10:30]

Mér fannst mjög sérkennilegt að hæstv. forsrh. lýsti því skýrt yfir að hann teldi að þetta ætti að hafa í för með sér betri kjör fyrir forseta Íslands en hann hefur núna sem felst þá í verulega hærri eftirlaunum en hann hefði samkvæmt þeim reglum sem nú gilda. Ég tel ástæðu til að það komi fram eftir að nefnd hefur fjallað um málið hvernig þessir hlutir líta út og hvaða upphæðir væri þá um að ræða sem kæmu þá til hækkunar á kjörum forseta Íslands.

Samkvæmt lögum eru eftirlaun forseta Íslands 60% af launum forsetans og geta farið upp í 80% hafi forsetinn gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil þannig að fyrrverandi forseti lýðveldisins fær þá 80% af þeim launum sem þarna yrðu ákveðin. Ekki er verið að leggja til að nein breyting verði á þessu þó að hér hafi komið skýr yfirlýsing um að það eigi að endurreikna launin með þeim hætti sem forsrh. lýsti yfir rétt áðan.

Lögð er til breyting á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt og sú breyting fjallar er við það ákvæði að tekjuskattur og eignarskattur skuli felldur niður af forseta Íslands og maka hans. Út af fyrir sig tel ég fulla ástæðu til að endurskoða þessi lög. Enginn má taka orð mín svo að ég sé á móti því að þetta sé endurskoðað. En ég tel að til þess þurfi tíma og menn þurfi að vinna vel það sem hefur verið tekið á dagskrá þingsins. Talað er um að forseti Íslands og maki hans séu undanþegnir. Nú vill þannig til að forseti Íslands er ekkjumaður og ég býst ekki við því að þetta hafi einhverja þýðingu eins og sakir standa. Auðvitað vita menn ekki hver verður forseti Íslands. Það er ástæða til að velta því örlítið fyrir sér hvernig staða mála er. Framboðsfrestur til embættis forseta Íslands rennur út á mánudaginn. Alþingi hefur ákveðið að taka til umræðu að breyta kjörum forseta Íslands og það liggur ekki fyrir hvernig launin verða eftir að búið er að breyta þeim. Hæstv. forsrh. hefur að vísu gefið yfirlýsingu um hvað hann vill en hann lét það fylgja mjög skýrt með að hann réði þessu ekki. Ef það kynni að verða niðurstaðan að engin breyting yrði á launum forseta Íslands, þ.e. launum hans, ekki raunlaunum heldur nafnlaunum, eins og sumir þingmenn hafa látið í veðri vaka að þeir telji enga ástæðu til að vera að hækka neitt við hann, hann eigi bara að borga skatt, kann þá ekki að vera að einhverjir af þeim frambjóðendum sem hafa hugsað sér að bjóða sig fram muni ekki telja að þeir hafi efni á því að takast á hendur þetta embætti? Þá er nánast útilokað að nokkur nýr aðili geti boðið sig fram til embættis forseta Íslands fyrir mánudag því að það þarf að safna meðmælendum og uppfylla þau formlegu skilyrði sem þarf til að bjóða sig fram. Ég veit ekki til þess, a.m.k. hef ég ekki orðið var við það í fréttum að neinn Íslendingur hafi hug á framboði til forseta Íslands nema núverandi forseti og Ástþór Magnússon sem hefur komið fram í fréttum að muni hafa áhuga á embættinu. Það er þá umhugsunarefni hvernig fer ef annar hvor þeirra eða báðir draga sig til baka og ekki verður af framboði þeirra, annars hvors eða beggja.

Ég er algerlega ósammála hæstv. forsrh. um að tíminn til að leggja þetta mál fram og afgreiða á hv. Alþingi sé rétt valinn. Ég held að vitlausari tími finnist ekki en þegar framboðsfrestur til embættis forseta Íslands er að renna út. Ég verð að beina því til þeirra sem bera ábyrgð á málinu hvort þeir hafi hugsað út í það hvers konar aðfarir það eru að velja málinu þennan tíma. Mál sem búið er að liggja hjá hæstv. ríkisstjórn í fjögur ár og allir vita hvenær á að kjósa til embættis forseta Íslands kemur fram þegar frestur til að skila framboðum til forsetaembættisins er að renna út. Þvílíkt og annað eins.

Hæstv. forseti. Hér er lögð til breyting á tollalögum. Sú breyting felst í því að það eigi að fella niður grein þar sem segir:

,,Forseti Íslands og maki hans skulu undanþegin greiðslu tolla af vörum sem hann flytur inn til eigin nota eða honum eru sendar að gjöf.``

Ég hvet hv. nefndarmenn í efh.- og viðskn. að kanna það hvaða áhrif þessi breyting á lögunum hefur og velta því líka fyrir sér hvort þetta gefi haft það í för með sér að forseti lýðveldisins þurfi að biðjast undan því að fá gjafir. Ekki væri skemmtilegt ef hann teldi sig tilneyddan að biðjast undan því að þiggja einhverjar gjafir af því að hann yrði að leggja út peninga fyrir því að taka við þeim en þetta hafa hv. flm. sjálfsagt skoðað vandlega og geta þá svarað því í umræðunni hvort þetta skiptir einhverju máli.

Það er lögð til tillaga um breytingar á tryggingagjaldi og ég vil bera fram þá spurningu til hv. 1. flm. hvaða áhrif þetta hafi. Þetta er einföld undanþága frá lögum um tryggingagjald og ég spyr: Hefur forseti Íslands nýtt sér þessa undanþágu? Mér skilst helst að hægt væri að nýta hana ef forseti hefur með höndum einhvers konar atvinnurekstur og þyrfti að borga tryggingagjald af þeim atvinnurekstri og tekur fólk í vinnu og borgar tryggingagjald af fólkinu sem hann hefur í vinnu. Ég hef áhuga á að vita hvort þetta ákvæði laganna hafi verið raunhæft að undanþiggja forseta frá þessu og hver ástæðan hafi verið því og hvaða áhrif það hefur að taka það síðan af.

Síðan er tillaga um að breyting á lögunum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur verði og að forseti og maki hans verði felld þar út sem undanþáguákvæði. Vissulega eru rök fyrir þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram og mér finnst full ástæða til að skoða þetta mál mjög vandlega. Kannski gæti ég hugsað mér að samþykkja þær tillögur sem hér eru þegar og ef ég get verið viss um að þar hafi verið staðið þannig að málum að ég geti verið viss um bæði áhrifin af breytingunni og séð að það sé rétti tíminn og að vel hafi að öllu leyti verið staðið að þessu máli.

Það er eitt sem þarf þá að skoða sem ég tel fulla ástæðu til að benda hér á. Er eðlilegt að við afgreiðum þetta mál eitt og sér, breytingar á nokkrum lögum þar sem forseti Íslands hefur fríðindi af ýmsu tagi án þess að velta því fyrir okkur hvort ákvæði um aðra aðila í þjóðfélaginu sem njóta einhvers konar fríðinda samkvæmt jafnvel sömu lögum og forseti Íslands, verði tekin til skoðunar, einnig hvort það eigi ekki að gera breytingar þar. Ég spyr um breytingar á tollalögum. Er það ekki þannig enn að hæstv. ráðherrar hafi t.d. einhver fríðindi samkvæmt tollalögum? Er algerlega búið að skrúfa fyrir það? Hafa hæstv. ráðherrar ekki eitthvað sem heitir aðgangur að áfengi á öðru verði en aðrir? Er það liðin tíð? Ég spyr að því. Hafa hæstv. ráðherrar ekki einhvers konar fríðindi gagnvart tollum af bílum? Eru ekki einhverjar aðrar reglur um þá hvað það varðar en aðrar? Er kannski búið að hreinsa til í kerfinu? Er kannski allt farið? Það kann vel að vera að ég hafi misst af einhverju hvað þetta varðar en hins vegar finnst mér ástæða til þess að það liggi þá fyrir.

Eitt er ég þó alveg viss um að ekki hefur verið gert og það er að það eru ýmsir aðilar í þessu þjóðfélagi sem hafa undanþágu til að nýta sér öðruvísi skattareglur en aðrir geta nýtt sér og vaxtatekjur og skattar af hlutbréfum og annað því um líkt kemur ekki jafnt niður á landsmönnum öllum. Ég sé því ástæðu til þess að menn skoði það í heildina og gott væri að út úr þeirri skoðun kæmi að engu þyrfti að breyta og það væri komið á jafnræði og það væri engar undanþágur eða fríðindi lengur í gildi hvað varðar opinbera embættismenn eða aðra aðila í þjóðfélaginu.

Hæstv. forseti. Það kom fram hjá hæstv. forsrh. að óheimilt væri að lækka laun á kjörtímabilinu. Það stendur í lögum. Hann færði það fram í samhengi við það þegar hann sagði að það væri rétti tíminn valinn núna til að gera þessa breytingu. Hvað þýðir það? Ég skildi það þannig að það gæfi þá einhvern möguleika á því að breyta launum forsetans án þess að koma til fulls til móts við þær hækkanir sem ættu að koma ef allt væri reiknað upp. Þess vegna fannst mér það skjóta skökku við sem hann sagði annars staðar í ræðu sinni. Ef það er niðurstaða hæstv. forsrh. að forseti Íslands eigi að fá þetta bætt að fullu er engin nauðsyn á því að klára þetta mál núna, engin nauðsyn. Það er alveg eins hægt að gera það þá í haust, taka sér tíma til að vinna þetta mál, ganga vel frá því sem hér er verið að gera og rökin fyrir því að málið þurfi að fara í gegn núna eru þá ekki fyrir hendi. Hins vegar ef það er niðurstaðan að menn vilji breyta kjörum forseta Íslands með einhverjum hætti þannig að hann yrði fyrir einhverjum skakkaföllum eða lækkunum á kjörum sínum virðist þessi tími vera nauðsynlegur til að slíkt sé hægt en það var ekki á hæstv. forsrh. að heyra að þannig ætti að standa að málum. Að vísu sagði hann að hann réði þessu ekki. Ég held að ekki sé hægt að halda því fram að þetta hafi ekki áhrif. Ég er sannfærður um að það hefur áhrif, sú hækkun mun færast niður launastigann sem hæstv. forseti Íslands mun fá samkvæmt tillögum hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. mun auðvitað fá mestu hækkunina vegna þess að hann er næstur í skalanum og það verður mestur mismunur sem myndast milli hans og forsetans þegar búið verður að hækka forsetann í launum en aðrir munu líka fá sinn skerf.