Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:02:56 (7717)

2000-05-13 11:02:56# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:02]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það mál sem rætt var 1996 var nákvæmlega sama eðlis og núna þannig að þetta mál hefur verið rætt á Alþingi. Það hefur meira að segja verið tekið fyrir í nefnd og það var afgreitt út úr nefnd með meirihlutaáliti og minnihlutaáliti. Meiri hlutinn lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og minni hlutinn lagði til að það yrði samþykkt. Svo fór aldrei fram atkvæðagreiðsla um málið þannig að málinu var aldrei vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég hef a.m.k. ekki getað fundið það þannig að málið dagaði uppi á þeim tíma.

En að segja að það hafi ekki verið rætt er ekki rétt. Það var margrætt og nákvæmlega sama og hv. þm. er að gagnrýna í dag, 13. maí, og framboðsfresturinn er ekki einu sinni útrunninn, það lagði hann sjálfur til 4. júní 1996 þegar framboðsfrestur var útrunninn og kosningabaráttan var á fullu. Þá lagði hann til nákvæmlega það sama. Ég skil ekki þessi rök. Þau snúast allt í einu um 180 gráður.