Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:04:05 (7718)

2000-05-13 11:04:05# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki alltaf verið einfalt að skilja hv. þm. og svo er ekki nú. Það sem hefur verið gagnrýnt æ ofan í æ er sú aðferðafræði að koma málinu inn í skjóli nætur og ætlast til að þingið afgreiði það. Fyrst og fremst form málsins hefur verið gagnrýnt.

Ég hef sagt það í umræðunni að ég sé almennt fylgjandi breytingunni. Ég hef sagt það margoft í umræðunni. Hins vegar hef ég gagnrýnt þá aðferðafræði sem hér er stunduð og ég hef gagnrýnt að þetta skuli vera gert með þeim hætti sem raun ber vitni. Ég hlýt að óska eftir að hv. þm., sem á væntanlega eftir að taka til máls að nýju, upplýsi okkur um af hverju málið kom ekki fram á réttum tíma. Af hverju var ekki hægt að vinna þetta mál eðlilega?

Nú lá það fyrir og hefur legið fyrir lengi að forsetakosningar stóðu fyrir dyrum árið 2000. Það er ekkert nýtt í því efni, ekki nokkur skapaður hlutur. Ef þetta var hv. þm. svona mikið hjartans mál, af hverju var ekki hægt að fylgja eðlilegum leikreglum og þingsköpum í þessum efnum? Við hljótum að velta þessum spurningum fyrir okkur. (Gripið fram í: Þetta eru eðlilegar leikreglur. Það var búið að afgreiða málið.)

Virðulegi forseti. Það eru ekki eðlilegar leikreglur að koma með mál af þessum toga sem lúta að æðsta embættismanni þjóðarinnar, þeim aðila sem fer með löggjafarvaldið ásamt Alþingi í skjóli nætur rétt fyrir þinglok. Það er ekki eðlilegt. Enda þurfti að taka málið á dagskrá með sérstökum hætti af því að þetta er ekki eðlileg meðferð. Þess vegna þurfti að taka þetta mál fyrir með afbrigðum. Það er einfaldlega þannig að komi mál ekki fram a.m.k. sex mánuði frá því að þing er sett þarf að taka það á dagskrá með afbrigðum. Við hljótum því að spyrja og þeirri spurningu er ósvarað: Af hverju mátti ekki gera það í þessu tilviki, sérstaklega með tilliti til þess að verið er að fjalla um löggjöf æðsta embættismanns þjóðarinnar?