Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:16:13 (7722)

2000-05-13 11:16:13# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur ekkert vald á málinu eftir að það er komið frá þinginu og farið til skoðunar, t.d. hjá Kjaradómi. Þess vegna hlýtur hv. þm. að taka undir það með okkur að málið fái eðlilega og vandaða umfjöllun í nefnd. Mér finnst ekki boðlegt hjá hv. þm. að kalla það hjárænuhátt að við sem viljum skoða málið teljum að ástæða sé til að óttast afleiðingarnar. Menn töldu ástæðu til að óttast þær árið 1996.

Það hefur verið ákveðinn munur á launum forseta Íslands og forsrh., um 30 þús. Kjaradómur hefur skýrt það í úrskurði sínum að hann telji að laun eigi að vera hæst hjá forseta Íslands. Það er full ástæða til að ætla að ef þau laun fara upp í, guð má vita hvað, 1.200--1.400 þús., þá verði laun forsrh. ekki látin sitja eftir. Það er ástæða til að óttast það og að með samþykkt þessa frv. og þeim afleiðingum sem það hugsanlega getur haft værum við enn að auka á tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.

Þar fyrir utan verð ég enn og aftur að segja, af því að einn af forsetum þingsins sagði það, að mér finnst það ekki boðlegt þinginu og náttúrlega út í hött að kalla það hjárænulegt, eða hvernig sem hv. þm. orðaði það, þegar gagnrýnt er að þinginu skuli boðið upp á að afgreiða þetta mál eins og það ber að. Mér finnst málið til vansa fyrir þingið og embætti forseta Íslands sýnd vanvirðing með svona vinnubrögðum, þó ekki sé nema bara vegna málsmeðferðarinnar, herra forseti.