Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:19:37 (7724)

2000-05-13 11:19:37# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það hv. þm. til hróss að hann sagði þó að hann teldi að laun forsetans ættu að hækka sem því nemur að hann haldi óbreyttum kjörum, þau yrðu þá um það bil 1.200--1.500 þús., miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir.

Hins vegar vil ég spyrja hv. þm., af því af því að honum er svo mikið niðri fyrir í þessu máli og er það mikill prinsippmaður, af því að hann telur að eitt eigi yfir alla að ganga og sum mál þurfi að taka á dagskrá með afbrigðum, þau séu þess eðlis að ekki sé rétt að þau fylgi þingsköpum, efni þeirra séu hjárænuleg, eins og hann orðaði það, og því best að lítil umræða sé um málið: Hvernig stendur á því að þessu frv. fylgir ekki jafnframt breyting á sjómannaafslættinum? Ef þetta er svona gríðarlega mikið prinsippmál að það má ekki bíða, af hverju fylgir þá ekki þessu frv. tillaga um afnám sjómannaafsláttarins? Af hverju fylgdi ekki þessu frv. tillaga um afnám skattfrjálsra verðlauna, Nóbelsverðlauna eða þess háttar, ef slíkt kæmi í hlut Íslendinga? Ef eitt á yfir alla að ganga, af hverju fylgir það þá ekki þessu frv. líka? Ég held að það væri mjög gott að fá upplýsingar um það í þessu samhengi. Það má vel vera að á því sé mjög góð skýring sem ég sé kannski ekki í hendi mér. En ef það liggur svo gríðarlega mikið á að eitt skuli yfir alla ganga, af hverju er þá ekki flutt frv. um að eitt skuli raunverulega yfir alla ganga?