Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:48:03 (7732)

2000-05-13 11:48:03# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi bar málið að með allt öðru móti fyrir fjórum árum síðan en það gerir nú. Það kom fram í desembermánuði og var afgreitt frá nefndinni í júnímánuði. Nefndin hafði sex mánuði til að fjalla um málið en það átti ekki að keyra það í gegn með því offorsi eins og nú er verið að gera og málið ber að höndum.

Ég verð að viðurkenna, og það kom fram í máli mínu áðan, að ég hafði ekki hugmyndaflug þá til þess að skoða það á þann hátt sem nú liggur fyrir að þetta gæti haft áhrif á kjör annarra embættismanna. Það hefur bara ýmislegt verið að gerast í ákvörðunum hjá Kjaradómi sem gefur vissulega tilefni til þess að ætla að þetta hafi þau áhrif sem ég er að nefna. Vissulega hefur margt verið að gerast. Það væri hægt að taka það upp á margvíslegan hátt hvað hefur verið að gerast og hvaða ákvarðanir Kjaradómur hefur tekið raunverulega þvert ofan í það sem hefur verið að gerast á almennum markaði.

Einnig er ljóst að í þeim forsendum sem Kjaradómi hafa verið gefnar með lögum sem sett voru á sínum tíma varðandi Kjaradóm kemur fram að hann á að gæta samræmis í ákvörðunum sínum og úrskurðum. Ég tel að ef við skoðum ekki líka þær forsendur og forskrift sem Kjaradómur hefur fengið varðandi ákvarðanatöku sína, þá gæti þetta haft áhrif. Það sem hefur gerst á þessum fjórum árum gefur vissulega tilefni til þess að ætla að þetta geti haft þau áhrif sem við höfum marglýst hér yfir að geti komið fram í kjölfar þeirra breytinga sem nú er verið að leggja til.