Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:52:14 (7735)

2000-05-13 11:52:14# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Umræðan um þetta mál hefur farið í ýmsar áttir og ég ætla að skýra afstöðu mína til málsins.

Ég lít svo á að við afnám á algjöru skattfrelsi forsetans --- eftir því sem ég veit best er hann eini Íslendingurinn sem hefur algert skattfrelsi og er það tryggt í ýmsum lögum --- þá tel ég að það sé sjálfgefið að kjör hans verði bætt eða réttara sagt leiðrétt þannig að hann verði ekki fyrir sérstökum skaða við það að þurfa að greiða skatta af launum sínum. Þetta tel ég sjálfborið og er í raun og veru sama viðhorf og ég hef haft t.d. til sjómannaafsláttarins. Ef breyta á sjómannaafslætti skal það bætt í kjörum.

Sá eini maður sem ég veit til að njóti þessa algera skattfrelsis er forseti Íslands og hann hefur látið þá ósk í ljós að hann vilji greiða skatta eins og aðrir. Ég veit ekki um aðra sem skattfrelsis njóta sem hafa óskað eftir því, þar með talin samtök sjómanna eða sjómenn, að þeir hafi sérstaklega óskað eftir því að sjómannaafslátturinn væri afnuminn, og þar af leiðandi held ég að engir eða mjög fáir þingmenn hafi lagt til að skattfrelsi þeirra væri afnumið. Ég minnist þess þó að hafa séð slíkar tillögur fyrir nokkrum árum. En það er einfaldlega þannig að þegar menn, hvort sem það er forseti Íslands eða sjómenn, eru búnir að búa við kjör varðandi skattfrelsi í áratugi, sjómenn hafa búið við hluta skattfrelsis í áratugi, sjómannaafslátturinn er sennilega orðinn yfir 40 ára, þá verður slíkum kjörum ekki breytt án þess að það verði þá metið einhvers staðar annars staðar.

Ég tek undir að málið fái vandaða meðferð í nefnd og menn ræði það og skoði á því allar hliðar. Minn vilji til þessa máls er sá að forseti Íslands verði ekki fyrir sérstakri rauntekjulækkun við þessa breytingu og tek ég þar undir orð hæstv. forsrh. en hann telur að þetta eigi ekki að verða til þess að forseti Íslands lækki í launum.

Ég vil líka segja að ég er í rauninni mjög ánægður með þau orð sem hafa fallið hjá mörgum þingmönnum við umræðuna, ég held bara flestum sem hafa tekið til máls, í þá veru að laun forsetans verði sýnileg við þessa breytingu. Allir hafa látið þá skoðun í ljós að laun forsetans verði í raun þau sömu og áður eða ég hef skilið orð flestra þannig, ég hef ekki heyrt neinn segja að til stæði að beita sérstakri lækkun á raunlaun forseta, frekar í þá veru að menn hafi staðfest það að slíkt væri ekki til staðar. Þetta er í rauninni sama viðhorf og ég hef haft til sjómannaafsláttarins en spurt var úr þessum ræðustól hvers vegna menn hefðu ekki lagt til að breyta honum. Ég hef litið svo á að ef sjómannaafslátturinn yrði lækkaður með lögum eða reglugerðum eigi að sjá til þess að samhliða slíkri breytingu yrðu laun sjómanna ekki lækkuð. Ef slíkar breytingar ættu að gerast á sjómannaafslættinum, þá ættu raunlaun sjómanna ekki að lækka og það ætti að gilda jafnt hvort sem það væru lagabreytingar eða reglugerðarbreytingar varðandi sjómannaafsláttinn. Ég lít svo á að í báðum þeim tilfellum sem hér hafa verið dregin fram séu þetta kjör viðkomandi, annars vegar forsetans og hins vegar sjómanna, og ef á að breyta þeim þarf að bæta þau á annan hátt.

Varðandi spurningu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar hvers vegna menn legðu þá ekki til lækkun á sjómannaafslættinum, þá er það bara einfaldlega þannig að mér er ekki kunnugt um að nokkur samtök eða nokkurt stéttarfélag sjómanna hafi óskað eftir því að fá að greiða meiri skatta. Mér er ekki kunnugt um það. En mér er kunnugt um að forsetaframbjóðendurnir á sínum tíma og þeirra á meðal núverandi forseti lýstu því yfir að það væri eðlilegt að forsetinn greiddi skatt. Ég tel hins vegar eðlilegt við þá breytingu og ítreka það að lokum að raunlaun forsetans breytist ekki og treysti því reyndar að þegar Kjaradómur tekur þessi mál til meðferðar ef þetta verður samþykkt, sem ég vona, muni hann bæta forsetanum að fullu þá breytingu sem verður og mun þá verða komið skýrt fordæmi fyrir því hvernig fara skuli með sjómannaafsláttinn ef honum verður breytt.