Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:06:43 (7740)

2000-05-13 12:06:43# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:06]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það á að vera verkefni í kjarasamningum milli stéttarfélaga og atvinnuveitenda að semja um kaup og kjör. En ég sé ekki fyrir mér að myndað verði stéttarfélag utan um forseta Íslands eða ráðherrar stofni með sér stéttarfélag eða þá þingmenn þannig að Kjaradómur verður að taka við úrskurðarréttinum fyrir þá.

Ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. á því að það eru fjórir flm. á þessu máli og þeir eru af sitthvorum enda í afstöðu sinni til þess hvaða áhrif málið eigi að hafa. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sem er einn af flm. málsins og talaði hér áðan, er þeirrar skoðunar að það eigi að bæta forsetanum að fullu í beinum launagreiðslum þær kjarabreytingar sem verið er að gera. Mér er kunnugt um það að ef eingöngu væri um að ræða afnám tekjuskattsfrelsisins þá þyrfti, ef ætti að bæta forseta það í launum, að hækka laun hans frá 1.350 upp í 1.500 þús. kr. á mánuði, eitthvað á því bili. Ef menn taka síðan tollanna, virðisaukaskattinn og fleira með, ætli það verði þá ekki farið að nálgast 2 millj. kr.

Síðan eru aðrir flm. þeirrar skoðunar að þetta muni engu breyta og eigi ekkert að breyta. Alþingi verður að hafa skoðun á því við afgreiðslu málsins því að þetta virðist vera gersamlega órætt í hópi flm. Þeir vita ekki hvað þeir eru að leggja fyrir Alþingi að afgreiða.