Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:30:05 (7752)

2000-05-13 12:30:05# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef vanist því að menn ræði um að blanda ekki saman orsökum og afleiðingum en ekki því að blanda ekki saman tilgangi og afleiðingum því mjög oft er það eitt og hið sama, tilgangur máls og afleiðingar máls.

Það sem ég vildi svara hv. þm. um þetta mál er: Ég tel rétt að taka eigi skattamál forsetaembættisins til skoðunar. En ég tel að það eigi að gera með eðlilegum samskiptum löggjafarvaldsins og þjóðkjörins þjóðhöfðingja. Það hefur ekki verið gert. Ég tel að eðlilegt sé að a.m.k. flutningsmenn málsins hafi gert sér einhverja grein fyrir því hvaða afleiðingar tillögur þeirra kunni að hafa. Þeir eru eins ósammála um það eins og mest getur verið. Ef Alþingi ætlar síðan að afgreiða málið eins og það er í pottinn búið, þá verður Alþingi sjálft að gera grein fyrir því hvað fyrir því vakir með afgreiðslunni. En það að rugla saman tilgangi og afleiðingum hef ég aldrei heyrt. En það er kannski það sem hv. flutningsmenn hafa gert, að þeir hafi ekki áttað sig á að tilgangurinn og afleiðingarnar kunna að vera eitt og hið sama.