Kristnihátíðarsjóður

Föstudaginn 30. júní 2000, kl. 13:36:22 (0)

2000-06-30 13:36:22# 125. lþ. 122.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, Flm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Flm. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um Kristnihátíðarsjóð en flutningsmenn ásamt mér eru aðrir formenn þingflokka hér á Alþingi: Rannveig Guðmundsdóttir, Samfylkingunni, Kristinn H. Gunnarsson, Framsfl., Ögmundur Jónasson, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, og Guðjón A. Kristjánsson, Frjálslynda flokknum.

Tillögugreinin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar, í tilefni þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn á Íslandi, að stofna sjóð, Kristnihátíðarsjóð, er njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 100 millj. kr. á ári, og hafi að markmiði:

a. að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn;

b. að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.

Alþingi kjósi sjóðnum stjórnarnefnd.

Stjórnarnefndin eigi samvinnu við menntamálaráðuneytið, kirkjumálaráðuneytið, þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, Þjóðminjasafnið og háskólana í Reykjavík og á Akureyri, svo og frjáls félagasamtök, um viðfangsefni sjóðsins, skipti fé hans milli meginverkefna, skipi verkefnisstjórnir, hvora á sínu sviði, og staðfesti áætlanir þeirra.``

Hér er um að ræða tillögu sem þingflokkarnir á Alþingi hafa sameinast um að flytja í tilefni af því að í ár minnumst við þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var tekinn upp í landinu þegar sætt tókst með þingheimi á Alþingi árið 1000 um að Íslendingar skyldu verða kristnir, sætt sem tengd hefur verið nafni Þorgeirs Ljósvetningagoða og lögsögumanns og mikill ljómi stendur af.

Þegar ljóst var orðið í vetur að hugur manna stæði til þess að Alþingi kæmi saman til fundar á Þingvöllum í tilefni kristnihátíðar fóru af stað óformlegar viðræður um hvernig að slíku þinghaldi skyldi staðið. Málið fór fljótlega í þann farveg, sem nokkur venja hafði skapast um af viðlíka tilefnum áður, 1974 og 1994, að formenn þingflokka hófu viðræður sín á milli um hvað þingið gæti sameinast um að gera á hátíðarfundi sínum að Lögbergi á Þingvöllum. Nokkru fyrir þinglok sl. vor lágu fyrir fyrstu tillögur og voru þær til umræðu og athugunar hjá formönnum þingflokka um hríð. Niðurstaða fékkst svo í málið eftir allítarlega fundi, niðurstaða sem ég hygg að bærileg samstaða sé um. Því er hins vegar ekki að leyna að afstaða þingmanna og þingflokka til aðgerða af þessu tilefni var ærið misjöfn og þurfti talsverða lipurð af allra hálfu til þess að sameinast um tillögutexta og greinargerð sem menn gátu sætt sig við. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka formönnum annarra þingflokka, meðflutningsmönnum mínum, fyrir samstarfið sem var í alla staði mjög gott.

Ég geri nú í stuttu máli grein fyrir efni tillögunnar. Hún felur í sér í fyrsta lagi að gera sérstakt átak í samvinnu við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, stjórnvöld, stofnanir, skóla og félagasamtök, til að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og enn fremur að stuðla að umræðum með þjóðinni, í skólum, í fjölmiðlum og meðal alls almennings um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn við þessi tímamót. Markmiðið er að stuðla að heilbrigðri og sterkri sjálfsmynd einstaklinga og þjóðar.

Í öðru lagi að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, þ.e. á Þingvöllum, hinum gamla þingstað, svo og á biskupssetrunum í Skálholti og á Hólum og e.t.v. fleiri stöðum, t.d. við klaustrin, það þeirra sem áhugaverðast þykir, til að varpa megi skýrara ljósi á sögu þeirra staða sem svo miklu hafa skipt á kristnum tíma og raunar í sögu þjóðarinnar frá upphafi.

Við leggjum áherslu á að verkefni sjóðsins verði fjölþætt, þar komi að jafnt skólar, stofnanir, söfnuðir, félagasamtök og einstaklingar, og að þess verði gætt að verkefnin dreifist um allt land. Það er enn fremur vilji flutningsmanna að a.m.k. önnur tveggja verkefnisstjórna hafi aðsetur á landsbyggðinni.

Samkvæmt tillögunni er Kristnihátíðarsjóði stýrt af stjórn sem Alþingi kýs. Það verður hlutverk hennar að leggja meginlínur í starfi sjóðsins og ákveða hvernig skiptingu hins árlega fjárframlags milli aðalverkefna sjóðsins eins og þau eru tilgreind í a- og b-lið tillögunnar. Í tillögunni eru ekki ákvæði um skiptinguna en stjórn sjóðsins er ætlað að ákveða hana fyrir hvert ár. Þá er stjórninni enn fremur ætlað að skipa tvær verkefnisstjórnir, sína fyrir hvort starfssvið sjóðsins.

Verkefnisstjórnunum er ætlað að vera faglegur vettvangur, hvorri á sínu sviði, þar sem gerðar verða tillögur um styrkveitingar. Við gerum ráð fyrir að tillögur þeirra um styrkveitingar, innan þess ramma sem stjórnarnefnd setur og eftir þeim áherslum sem hún ákveður, verði ýmist að eigin frumkvæði verkefnisstjórnanna, í samvinnu við stofnanir á hvoru sviði eða eftir almennum umsóknum. Við flutningsmenn teljum mjög mikilvægt að til þessara starfa veljist hæfir einstaklingar sem hafi trausta þekkingu og reynslu en auk þess góð tengsl við helstu stofnanir og fræðahópa á sínu sviði. Það verður hins vegar stjórnarinnar að ganga frá endanlegum ákvörðunum sjóðsins hverju sinni.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram það sjónarmið flutningsmanna að mikilvægt sé að styrkveitingar úr Kristnihátíðarsjóði verði ekki til þess að skerða önnur árleg framlög á þeim sviðum sem sjóðurinn styrkir, ekki síst til fornleifarannsókna sem standa yfir hér á landi eða eru áformaðar. Þar er í senn átt við framlög á fjárlögum, frá sveitarfélögum, sem mörg hver hafa styrkt fornleifarannsóknir í heimabyggð og frá rannsóknasjóðum. Þess er þvert á móti vænst að fé sjóðsins komi sem viðbót til rannsókna þau fimm ár sem honum er ætlað að starfa.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir helstu efnisatriðum í þessari tillögu. Með henni fylgir nánari greinargerð sem ég vísa til. Ég vil þó aðeins geta þess í sambandi við fornleifarannsóknirnar að þar eru nefndir þeir þrír staðir sem öðrum fremur hafa komið við sögu á kristnum tíma, Þingvellir og biskupsstólarnir í Skálholti og á Hólum. Síðan klaustrin, það þeirra sem áhugaverðast þykir að mati fagmanna með tilliti til varðveisluskilyrða og þess hversu miklar leifar eru eftir á hverjum stað. Enn fremur aðrir staðir sem að mati stjórnar og fagmanna þykja sérlega áhugaverðir. Það er ljóst að víða er mikill áhugi á fornleifarannsóknum og eðlilegt að stjórnin fari yfir þá staði sem áhugaverðastir þykja og kanni hvort unnt sé að stofna til rannsókna þar í þessu átaki.

Í haust verður flutt frumvarp um Kristnihátíðarsjóð þar sem nánari útfærsla verður á verkefnum sjóðsins. Þar verður m.a. ákvæði um að stjórn sjóðsins geri Alþingi árlega grein fyrir störfum sínum og ráðstöfun fjár.

Herra forseti. Með tillögu þessari er í senn hlúð að menningar- og trúararfi Íslendinga með því að auka og treysta þekkingu landsmanna á uppruna sínum og sögu, en jafnframt er horft til framtíðar með því að efla umræðu í landinu um framtíðarsýn þjóðarinnar og þau lífsgildi sem hún ætlar að hafa í fyrirrúmi í framtíðinni.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu. Ekki er gerð tillaga um að hún fari til nefndar þar sem hér er á ferðinni mál sem allir þingflokkar á Alþingi standa að og fullt samkomulag er um.