Kristnihátíðarsjóður

Föstudaginn 30. júní 2000, kl. 13:51:51 (0)

2000-06-30 13:51:51# 125. lþ. 122.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, KHG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Tilefni fundahalda nú er um margt einstakt. Siðaskipti þjóðar í trúarlegum efnum eru fátíður viðburður og alveg sérstaklega er einsdæmi að slíkt gerist friðsamlega að heita má. En það sem stendur kannski upp úr er að þjóðin hefur haldið kristinn sið samfleytt síðan og aldrei hefur komið alvarlega til álita á þúsund árum að leggja af kristna trú. Það er af þeirri einföldu ástæðu að kristindómurinn hefur notið almenns og víðtæks stuðnings meðal þjóðarinnar og staðið það traustum fótum í vitund þjóðarinnar að deilur um kirkjuna eða forsvarsmenn hennar sem stundum hafa risið hafa aldrei haggað stöðu kristindómsins gagnvart öðrum trúarbrögðum. Það er alveg sérstakt að boðskapur kristinnar trúar skuli hafa notið almenns stuðnings kynslóð eftir kynslóð, aldir eftir aldir óháð því hvernig þjóðfélagið breyttist og þróaðist. Það er e.t.v. það merkilegasta við kristindóminn að hann hefur haft almenna skírskotun til fólks á öllum aldri á öllum tímum og ekkert bendir til þess að það breytist.

Af þessu er ljóst að fullt tilefni er til að fagna þeim tímamótum að þúsund ár eru liðin frá því að kristinn siður var tekinn upp í landinu. Í því felst að sjálfsögðu ekki að önnur trúarbrögð séu sett til hliðar eða minna úr þeim gert. Virðing fyrir skoðunum og trúfrelsi eru grundvallarþáttur í siðferðisvitund Íslendinga en það breytir því ekki að sjálfsagt er og eðlilegt að minnast þessara tímamóta eins og vert er í samræmi við stöðu kristinnar trúar meðal þjóðarinnar.

Við hæfi er að nota þetta tilefni til að líta annars vegar til framtíðar og huga að því að leysa úr álitaefnum sem rísa í kjölfar stöðugt batnandi efnahags, tækniframfara og aukinnar þekkingar, á grundvelli siðferðisvitundar og gildismats þjóðarinnar sem byggt er á þúsund ára kristinni trú. Hins vegar gefst færi á að horfa til fortíðar og afla aukinnar þekkingar á henni með sérstöku átaki í fornleifarannsóknum.

Hvað fyrra atriðið varðar þá hafa framfarir og vaxandi velferð fólks gerbreytt lífi þess til hins betra frá því sem var, en hefur líka gert það að verkum að fólk stendur frammi fyrir spurningum sem ekki er auðvelt að svara. Að hve miklu leyti á einstaklingurinn í hinni efnislegu velferð að einblína á sjálfan sig og að hve miklu leyti á hann að deila því með öðrum? Að hve miklu leyti getur það samrýmst siðferðiskennd og gildismati okkar að einstaklingur einblíni á eigin ágóða og valdi öðrum einstaklingum eða náttúrunni tjóni með ágirnd sinni og græðgi?

Hvernig á að bregðast við vaxandi eiturlyfjanotkun sem virðist að verulegu leyti vera afleiðing af lífsleiða allsnægtanna? Og hvernig ætlum við að bregðast við nýrri þekkingu í erfðavísindum? Á að nýta hana og þá fyrir hverja og í hve miklum mæli? Allt eru þetta viðfangsefni sem við er að glíma nú og í náinni framtíð og sum þeirra hafa verið til umfjöllunar á pólitískum vettvangi að undanförnu eins og kunnugt er. Það er því þýðingarmeira en virðist við fyrstu sýn að taka sérstaklega fyrir að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn eins og lagt er til í tillögu þeirri til þál. um Kristnihátíðarsjóð sem er til umræðu í dag.

Mér finnst nokkuð hafa borið á því í umfjöllun undanfarnar vikur að lítið hafi verið gert úr þessum þætti málsins. Það finnst mér miður því að fátt er mikilvægara en að aðstoða fólk við að finna svör og lausnir á viðfangsefnum sem við er að glíma og stuðla að því að það geti lifað innihaldsríku lífi í sátt við sjálft sig og aðra. Þessi liður tillögunnar er að mínu viti mikilvægari hluti hennar og getur skilað okkur áleiðis ef vel tekst til með framkvæmd á honum.

Það er einnig vel við hæfi að efna til fornleifarannsókna af þessu tilefni sem eiga sérstaklega að beinast að því að varpa ljósi á kristnitökuna og kristnihaldið. Er því lagt til að sérstakar fornleifarannsóknir fari fram á Þingvöllum og biskupsstólunum í Skálholti og á Hólum. Auk þess er lagt til að úttekt verði gerð á öllum klausturstöðum landsins og stefnt að því að velja einn stað til ítarlegri rannsókna. Loks er gert ráð fyrir að skoðað verði hvort rétt sé að taka einn stað því til viðbótar.

Ég legg áherslu á að fé til rannsóknanna er takmarkað og því verði ekki dreift á fleiri staði en ætlað er. Það á að einbeita sér að þeim stöðum sem nefndir hafa verið og gera þar ítarlegar rannsóknir og varast ber að dreifa kröftunum á marga staði.

Vart hefur orðið við mikinn áhuga á rannsóknum á ýmsum stöðum um land allt sem margir hverjir virðast ekki tengjast sérstaklega kristninni. Allir eru þeir þó áhugaverðir hver á sína vísu en það verður að varast að blanda almennum áhuga á fornleifarannsóknum saman við það átak sem hér er lagt til. Eðlilegt er að áhugi á almennum fornleifarannsóknum verði tekinn fyrir sérstaklega í tengslum við fjárframlög á fjárlögum til þess málaflokks en tengist ekki efni þessarar þáltill.