Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:16:02 (99)

1999-10-06 14:16:02# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg nauðsynlegt að hafa það í huga að bensínverðslækkunin, sem varð í fyrra og fram eftir þessu ári, kom öllum að óvörum, bæði okkur og öðrum. Og þær áætlanir sem miðað var við voru byggðar á öðrum grunni, eins og ég sagði áðan. Þess vegna varð mikil tekjulækkun hjá ríkissjóði út af þessu, eins og kunnugt er, og almenningur naut þess að sjálfsögðu í lægra bensínverði. Nú er olíuverðið á heimsmarkaði komið í það sem það hefur verið að meðaltali sl. tíu ár, það er því ekki að vænta endilega mjög mikillar lækkunar þar. Þess vegna er mikilvægt að festa þetta verð eins og við erum hér að leggja til. Það er mjög ólíklegt að sú staða komi upp að þetta lækki enn meir þannig að ríkið byrji að græða á þessu og almenningur að tapa. Hér er verið að reyna að finna leið til að skipta ávinningi og koma upp almennt skynsamlegra kerfi.

Ég hef ekki aðstöðu til þess að svara öllu sem fram kom. En hvert bensíngjaldið yrði á næsta ári og hver forsendan væri í fjárlögunum, þá verður það óbreytt gjald. Ekki er gert ráð fyrir hækkun frá því sem það er núna. Þingmaðurinn sagði að við værum komin á ystu mörk þess sem forsvaranlegt væri í skattlagningu. Það var athyglisvert í ljósi þess að þingmaðurinn leiddi framboðslista í vor sem lagði til sérstakar skattahækkanir á grundvelli koltvísýringsnotkunar. Hvað ætlar þingmaðurinn að segja um það?