Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:33:17 (169)

1999-10-07 12:33:17# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ekki var verið að tryggja það að hlutabréfin sjálf féllu í verði eða yrðu verðlaus vegna gjaldþrots þess fyrirtækis sem þau eru hlutabréf í, heldur vegna þess að fyrirtækið sem hafði milligöngu eða verslaði með hlutabréfin yrði gjaldþrota. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því.

Hins vegar benti ég á það að þeir sem fjárfesta í hlutabréfum eru að taka áhættu sem ekki á við um þá sem leggja inn í banka. Þeir sem leggja inn í banka eru að leita að öryggi og tryggingu og þar af leiðandi finnst mér mjög eðlilegt að tryggja innstæður þeirra en hins vegar eru þeir sem fjárfesta í hlutabréfum að taka áhættu, bæði gengisáhættu þ.e. að gengi bréfanna lækki, einnig þá áhættu að bréfin verði hreinlega verðlaus ef viðkomandi hlutafélag verður gjaldþrota og líka þá áhættu að sá miðlari og sá aðili sem sér um miðlun bréfanna verði gjaldþrota. Mér finnst bara allt í lagi að menn taki þá áhættu á sig sjálfir sem felst í því að miðlarinn verði gjaldþrota, nákvæmlega eins og menn taka á sig áhættu ef fyrirtækið sjálft sem þeir eiga hlut í verður gjaldþrota. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir þeim mun.

Og ég sé ekki enn þá, þó að þetta sé tilskipun frá Evrópusambandinu, að það sé nauðsynlegt. Ég vil því gjarnan að það verði rætt í hv. efh.- og viðskn. hvort tilskipunin nær virkilega svona langt eða hvort við Íslendingar séum enn einn ganginn kaþólskari en páfinn.