Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:10:18 (191)

1999-10-07 14:10:18# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ekki átti ég von á að fá mikið hrós frá fulltrúum Samfylkingarinnar, sem tóku þátt í umræðunni, en það virðist gæta ákveðinnar tvíhyggju hjá þeim. Annars vegar tala þeir um það að hver flokkur eigi að hafa einn fulltrúa í nefndinni en í bréfi sem ég fékk frá þeim kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þess vegna óskar þingflokkur Samfylkingarinnar formlega eftir að valið verði í nefndina þverpólitískt þannig að allir þingflokkar eigi aðild að henni. Að öðrum kosti verði höfð meiri hliðsjón af stærð þingflokka á Alþingi þannig að Samfylkingin fái að velja tvo fulltrúa í nefndina.``

Þegar verið var að velja fimm fulltrúa þingsins þá vildi hún fá að hafa tvo fulltrúa. Ef væri verið að kjósa bara beinni kosningu á milli flokkanna á þingi í samræmi við fylgi þá fengi Samfylkingin bara einn.

En það var minnst á auðlindanefndina. Það eru níu í henni, það er enginn frá Kvennalistanum, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, en þar eru þrír frá Samfylkingunni eins og staðan er í dag. Vinstri grænir gerðu kröfur um það fyrr á árinu að þeir ættu að fá einn fulltrúa þar þegar breyting varð á þinginu eins og gerðist eftir kosningarnar en ekki var hlustað á það.

Hins vegar hefði ég haldið að ef Samfylkingunni væri svona umhugað um hag frjálslyndra í málinu að þá gæti hún fylgt í fótspor vinstri grænna sem fórnuðu sæti sínu í sjútvn. til frjálslyndra. Og kannski sérstaklega með það í huga að þeir hafa þrjá í auðlindanefndinni að þá hefðu þeir kannski getað látið frjálslynda hafa sinn mann í endurskoðunarnefndinni. (GÁS: Eða þú ...)

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur nú ekki skilið hvernig nefndin er skipuð þegar hann vill reikna þessa tvo menn sem skipaðir eru utan þings og raða þeim í flokkum eftir því hvernig staðan er á þinginu.

Aðeins einn hv. þm. spurði ráðherra beinnar spurningar, það var hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Hún spurði hversu miklu stærri nefndin hefði þurft að vera. Ef við ætluðum að taka fullt tillit til stærðar flokka á þinginu hefði nefndin þurft að vera miklu stærri. En ef við hefðum einungis verið að taka tillit til þess að --- svona í mjög grófum dráttum þá hefði hún þurft að vera a.m.k. tvöfalt stærri.

Herra forseti. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu sambandi eru efnisatriðin, það verkefni sem nefndin hefur, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á. Verkefni nefndarinnar er að koma með tillögur til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.