Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:52:14 (201)

1999-10-07 14:52:14# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa spurningu. Að sjálfsögðu mundi ég una þeirri niðurstöðu sem kæmi í ljós eftir þetta mat. Hitt má öllum vera ljóst og mér er engin dul að segja frá því hér hver mín skoðun er á þessari virkjun. Hún er sú að af þessari virkjun ætti ekki að verða að svo komnu máli vegna þess að ég tel skynsamlegt að Fljótsdalsvirkjun heyri undir rammaáætlun ríkisstjórnarinnar Maður -- nýting -- náttúra. Ég tel að við eigum að skoða alla virkjanakosti sem mögulegir eru í landinu undir því verkefni, líka Fljótsdalsvirkjun. Mér finnst það glapræði að undanskilja Fljótsdalsvirkjun vegna þess að raskið sem af henni yrði á hálendinu norðan Vatnajökuls er óafturkræft og þar með er lagt út í framkvæmd sem mundi hrófla við miklu meiru því að á spýtunni hangir Kárahnjúkavirkjun, möguleg Kreppuvirkjun, Bjarnarflag og hvað vitum við með Arnardalslón og virkjun Jökulsár á Fjöllum?

Mín skoðun er sú að bíða eigi með allar virkjanir. Við eigum að setjast niður og ræða málin og loka þessum skóflukjafti Fljótsdalsvirkjunar sem gín yfir höfðum okkar núna.