Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:17:24 (214)

1999-10-07 15:17:24# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir afskaplega skilmerkilega ræðu. Ég kem einungis upp til að svara spurningu þingmannsins varðandi bráðabirgðaákvæði II sem eins og fram hefur komið hér í dag hefur verið túlkað sem undanþáguákvæði Fljótsdalsvirkjunar.

Skýringar sem ég hef fengið á þessu máli eru þær að þegar fjallað var í umhvn. um frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum árið 1993, þá kom frá umhvrn., í gegnum ýmsa embættismenn eins og þingmaðurinn nefnir, vegamálastjóra og líka skipulagsstjóra, ábending um það að á teikniborðinu væru ýmsar framkvæmdir eins og brúarframkvæmdir og vegaframkvæmdir sem komnar væru það langt að ef ætti að setja þær framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum yrði ekki hægt að framkvæma þær sumarið 1993 eins og til stóð samkvæmt áætlunum. Þarna voru menn því meðvitað að búa til undanþáguákvæði fyrir framkvæmdir sem hefðu stöðvast ef þær hefðu orðið að fara í mat samkvæmt lögunum. Þetta var sem sé hugsað sem eins árs umþóttunartími fyrir framkvæmdir sem voru komnar á framkvæmdastig, þ.e. frá gildistöku laganna --- því eins og við vitum eru lög aldrei afturvirk --- frá gildistöku laganna vorið 1993 fram á vorið 1994. Þetta bráðabirgðaákvæði kom inn að frumkvæði embættismanna og í gegnum umhvrn. og umhvn. setur það inn í sína heildarumfjöllun, allan þann pakka sem þeir voru með, og hv. þm. Tómas Ingi Olrich talaði fyrir þessu á þinginu á vordögum 1993.