Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:53:51 (225)

1999-10-07 15:53:51# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson talaði mjög skorinort í vor. Þá lýsti hann því yfir að hann væri á móti því að Eyjabökkum væri sökkt. Ég gat ekki skilið mál hans öðruvísi þá. Núna átti ég mjög erfitt með að skilja hvað það var sem hann sagði en hins vegar vill svo til að hann hefur hér tvo hæstv. ráðherra sem eru í hlutverki einhvers konar skýrenda varðandi mál hv. þm. með frammíköllum og það er auðvitað vel.

Hv. þm. sagði að nauðsynlegt væri að grípa til allra tagltækra ráða til þess að lágmarka spjöllin sem þessi virkjun kynni að valda. Nú er það svo að mat á umhverfisáhrifum þjónar einmitt því hlutverki. Mat á umhverfisáhrifum er ekki bara til þess að meta áhrifin af viðkomandi framkvæmd heldur líka að geta leitt fram það sem hægt er að grípa til til þess að lágmarka spjöllin og jafnframt að reyna að benda á eitthvað sem gæti komið í staðinn og ýmislegt kemur til greina í þeim efnum. Hæstv. utanrrh. hefur til að mynda fyrir sennilega einu og hálfu missiri bent á ákveðna leið í því sambandi. Umhverfismat tekur á þessu öllu, metur mögulega valkosti í stað þeirra framkvæmda sem verið er að fara í og metur jafnframt til hvaða ráða er hægt að grípa til þess að lágmarka spjöllin. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að fram fari mat á umhverfisáhrifum til þess að þetta komi fram og menn viti þá valkostina og þetta er nauðsynlegt til þess að ná fram sátt um málið ef það er hægt.

Hins vegar langar mig til þess að spyrja hv. þm. Kristján Pálsson, ef það er rétt sem hæstv. iðnrh. kallar fram í að hann sé enn á móti því að Eyjabökkum verði sökkt hvort hann sé eigi að síður fylgjandi virkjuninni.